Sjálfstætt fólk

Jarðakaup ensks auðjöfurs vekja umtal og netmiðlar loga vegna frétta um viðskiptin. Tvennt virðist ráðandi í umræðunni:

1.     Kaupandinn er útlendingur

2.     Hann hefur eignast mjög margar jarðir hér á landi

Miklu fleiri sjónarmið koma þó fram. Bent er á að nú sé loksins kominn kaupandi að jörðum sem enginn Íslendingur hafi kært sig um. Bændur eigi erfitt með að lifa af búskap og fái nú loks nokkrar krónur upp úr krafsinu. Líklegt sé að stöndugur eigandi muni sinna ræktun, vernd og uppbyggingu betur en fátækur bóndi.

Aðrir telja kaupandann vafasaman karakter sem ekki sé treystandi. Íslendingar verði í framtíðinni leiguliðar á eigin landi, líklegt sé að hinn erlendi auðjöfur ætli sér að selja vatn af jörðum sínum til útlanda og hann hafi lokað á laxveiði í gjöfulum ám.

Það er oft stutt í þjóðardrambið sem Hannes Hafstein hæddi í ljóði: „Bara ef lúsin íslenzk er, er þér bitið sómi.“

Hermann Guðmundsson skrifaði á FB: „Þessar jarðir eru hér enn og verða áfram. Eini munurinn er sá að nú greiðir kaupandinn skatta og gjöld í stað þess íslenska sem átti jörðina áður.“ Þessi yfirlýsing vakti hörð viðbrögð og vangaveltur.

Guðmundur Andri Thorsson er líka með færslu: „[A]uðmenn af ýmsu þjóðerni vilja safna landi í þeirri trú að ekkert sé betri fjárfesting í framtíðinni en land, sérstaklega land með vatni og aðgangi að hafi, vítt land og fagurt. Allir auðmenn vilja geta bandað út hendinni út að sjóndeildarhring og sagt: Þetta á ég.

Þetta er eitt af þessum fjölmörgu málum sem skilja að jafnaðarmenn og flokkana sem gæta sérhagsmuna. Við teljum að auður eigi ekki að safnast á of fárra hendur, hvort sem hann felst í eiginlegum eða óeiginlegum verðmætum; ríkur kall á Englandi eigi ekki að geta keypt hér jarðir út í það óendanlega jafnvel þó að hann sé svo veglyndur að leyfa fólki að nýta þessar jarðir; hann mun eignast erfingja, sem eignast erfingja … Ekki heldur íslenskir auðmenn eða malasískir.“

Guðmundur Andri endar þannig: „Við svo búið má að minnsta kosti ekki standa.“

Sjálfsagt er að ræða hættuna sem getur fylgt misnotkun á eignarhaldi. Íslendingar eru enn brenndir eftir að íslenskir auðjöfrar eignuðust ráðandi hlut í ríkisbönkunum. Örfáum árum síðar var efnahagskerfi landsins rústir einar. Eftirlitsaðilar skelfdust hina voldugu eigendur og lýstu því jafnvel yfir opinberlega að allt væri í himnalagi. Eftir hrun hefur áherslan verið á efldar reglur og aukið eftirlit.

Hagsmunir almennings felast þó fyrst og fremst í því hvernig land er nýtt. Hvað viljum við? Hvaða aðgang á almenningur að hafa að landinu? Hver á auðlindir sem á jörðunum kunna að vera?

Setjum réttlátar reglur sem gilda um alla. Misnotkun íslenska kotbóndans og enska auðjöfursins er jafnmikill ósómi.


Birtist í Morgunblaðinu 18.7. 2019

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.