Hannes H. Gissurarson skrifar reglulega pistla í Morgunblaðið undir heitinu Fróðleiksmoli. Fyrir viku birtist kafli undir heitinu: Ekki er allt sem sýnist. Í upphafi greinarinnar fjallar Hannes um það meginhlutverk vísindanna að gera greinarmun á sýnd og reynd, því að stundum eru hlutirnir alls ekki eins og þeir virðast vera.
Þetta er auðvitað rétt, en í vísindum skipta staðreyndir líka máli. Þar fer Hannes því miður út af sporinu, sem er auðvitað leiðinlegt fyrir þennan nákvæma vísindamann.
Hannes heldur áfram:
„Mér varð hugsað til þessa greinarmunar á sýnd og reynd, þegar Sjálfstæðisflokkurinn varð níræður á dögunum. Það er alveg rétt, sem jafnan er sagt, að hann varð til, þegar Íhaldsflokkurinn og Frjálslyndi flokkurinn sameinuðust 25. maí 1929. Síðan er iðulega sagt með skírskotun til þess, að í flokknum takist á frjálslynd öfl og íhaldssöm.“
Í framhaldinu fjallar Hannes svo um muninn á þessum tveimur flokkum. Fáum sem þekkja til ferils Hannesar kemur á óvart að hann „heldur með“ Íhaldsflokknum. Hann skrifaði ævisögu Jóns Þorlákssonar á sínum tíma. Næst setur Hannes fram kenningu:
„Menn mega þó ekki láta nöfnin blekkja sig. Íhaldsflokkurinn var í raun frjálslyndur flokkur, en Frjálslyndi flokkurinn íhaldssamur. Þetta má sjá með því að kynna sér stefnuskrár flokkanna, starfsemi og verk.“
Frjálslyndi flokkurinn bauð fram í landskjöri árið 1926. Í grein í Vísi 8. júní þetta ár sagði: „E-listinn er borinn fram af sjálfstæðisflokknum á Alþingi og félagi frjálslyndra manna í Reykjavík.“ Listinn er kallaður Sjálfstæðislistinn í fyrstu umfjöllun í byrjun maí 1926, en andstæðingar tala svo um hinn nýbakaða frjálslynda flokk eða „Frelsisher“ eins og hann er kallaður. Rétt er að taka fram að hér er verið að tala um Sjálfstæðisflokkinn gamla, en aðalbaráttumál hans var að slíta sambandinu við Dani.
Sigurður Eggerz var efsti maður á E-listanum þetta sumar. Hann sagði í grein 1. júní: „E-listinn er listi hinnar frjálslyndu stefnu hjer í landinu. Sjálfstæðisflokkurinn hefir unnið frægan sigur í málunum út á við. Inn á við hefur hann jafnan verið frjálslyndur og markað á ýmsan hátt spor frjálslyndisins í þjóðlífi voru.“ Sigurður var ráðherra 1914-15 og síðar fjármálaráðherra 1917-20 og forsætisráðherra 1922-24.
Vitnum áfram í pistil Hannesar:
„Jón Þorláksson stofnaði Íhaldsflokkinn 24. febrúar 1924, vegna þess að hann vildi halda í fengið frelsi, eins og hann skýrði út í snjallri grein í Eimreiðinni 1926. Hann vildi verja þetta frelsi gegn nýstofnuðum stéttarflokkum, Framsóknarflokki bænda og Alþýðuflokki verkalýðsrekenda. Ólíkt frjálslyndishugtakinu er íhaldshugtakið afstætt frekar en sjálfstætt: Öllu máli skiptir, í hvað er haldið. Þegar Jón var fjármálaráðherra 1924–1927, jók hann atvinnufrelsi með því að leggja niður ríkisfyrirtæki og lækka skuldir hins opinbera. Sigurður Eggerz, leiðtogi Frjálslynda flokksins, hafði hins vegar verið örlátur á almannafé, á meðan hann var fjármálaráðherra 1917–1920, og safnað skuldum.“
Frjálslyndi flokkurinn var reyndar ekki stofnaður fyrr en 1926 en á árunum 1917 til 1920 var Jón Magnússon forsætisráðherra. Ætla má að forsætisráðherrann hafi haft einhver áhrif á stjórnarstefnuna. Jón Magnússon varð síðar forsætisráðherra í stjórn Íhaldsflokksins 1924-26.
Nú fer Hannes á flug:
„Frjálslyndi flokkurinn, sem var að vísu losaralegur sína stuttu starfstíð, lagði megináherslu á ramma þjóðernisstefnu, en hún er auðvitað af ætt íhaldsstefnu frekar en frjálshyggju. Einn aðalmaður Frjálslynda flokksins, Bjarni Jónsson frá Vogi, hafði einmitt sett það skilyrði fyrir stuðningi við stjórn Íhaldsflokksins, að ný ættarnöfn yrðu bönnuð með lögum, því að hann taldi þau óíslenskuleg.“
Eftir 1918 tók hin gamla flokkaskipun mjög að riðlast og var á megnustu ringulreið um hríð. Frjálslyndi flokkurinn bauð fram í fyrsta sinn vorið 1926. Bjarni frá Vogi dó 18. júlí sama ár og hafði þá verið mjög veikur af krabbameini mánuðina á undan. Vefur Alþingis nefnir mörg flokkaskipti Bjarna, en getur ekki Frjálslynda flokksins. Það er mjög langsótt að telja Bjarna frá Vogi einn aðalmann flokks sem var stofnaður um það leyti sem hann háði sitt dauðastríð.
Hannes heldur áfram:
„Annar forystumaður Frjálslynda flokksins, Benedikt Sveinsson, hafði verið andvígur sambandslagasáttmálanum 1918, því að hann vildi ekki veita Dönum þau réttindi á Íslandi, sem kveðið var á um í sáttmálanum.“
Hér skjátlast Hannesi aftur, því að Benedikt var aldrei í Frjálslynda flokknum. Vefur Alþingis nefnir mörg flokkaskipti Benedikts, en getur ekki Frjálslynda flokksins. Vorið 1927 bauð hann sig fram fyrir Framsóknarflokkinn. Ég hefði gjarnan viljað að svo hefði ekki verið, því að Benedikt var afi minn, en það er fráleitt að telja hann einn forystumanna flokks sem hann var ekki í.
Guðmundur G. Hagalín segir í æviminningum um Benedikt Sveinsson að vitað væri að Benedikt hefði verið það ógeðfellt að taka þátt í stofnun Íhaldsflokksins. Sjálfstæðisflokkur (gamli) þeirra Bjarna frá Vogi og Benedikt veitti stjórn Jóns Magnússonar hlutleysi gegn „ýmsum skilyrðum, sem öll miðuðu að auknu frjálslyndi“ nema ættarnafnafrumvarpið samkvæmt Guðmundi G. Hagalín.
Páll Steingrímsson, einn af frambjóðendum Frjálslynda flokksins 1926, sagði í Vísi:
„Hið sanna frjálslyndi í stjórnmálum er það, að virða alþjóðarheill um fram stéttar- eða einstaklingshagsmuni. Þjóðin hlýtur að sannfærast um það, að sú stjórnmálasbtefna sé heillavænlegri en hinn illgirnislegi; hagsmunareipdráttur, sem háður hefir verið hér á landi undanfarin ár, af hinum flokkunum. Landsmenn eru áreiðanlega farnir að þreytast á þeim aðgangi, enda hefir stofnun hins frjálslynda flokks verið tekið með fögnuði af mörgum hinum mætustu mönnum víðsvegar um landið. En sérstaklega er hin unga kynslóð eindregið fylgjandi hugsjónum frjálslyndisins.“
Ég hefði sannarlega heldur viljað að Benedikt afi minn hefði verið forystumaður í þessum flokki en alþingismaður í Framsóknarflokknum. Baldur Sveinsson, bróðir hans, var í framboði fyrir flokkinn árið 1926 og Ólöf Benediktsdóttir, dóttir Benedikts, segir í bókinni Bjarni Benediktsson að synir Benedikts hafi allir verið í Frjálslynda flokknum en engir orðið stofnfélagar í Sjálfstæðisflokknum, þó að þeir hafi síðar gengið í hann eins og Benedikt gerði líka. En vísindamenn og aðrir verða að beygja sig fyrir staðreyndum, þó að þær henti ekki alltaf þeim veruleika sem passar manni best.
Ég sendi Hannesi línu um ónákvæmni hans en hann tók athugasemdum mínum fálega. Hann segir í svari til mín á FB:
„Benedikt var talinn vera í Frjálslynda flokknum, sem var að vísu mjög losaralegur flokkur og stofnaður 1926 fyrir landskjörið. … Bjarni dó að vísu um sama leyti og flokkurinn var stofnaður, en óhætt er þó að telja hann til flokksins, og það gerðu allir.“
Í pistli Hannesar voru þessir menn „forystumenn“ Frjálslynda flokksins, en eru nú í svari hans „taldir“ til flokksins. Þeir voru sannarlega hvorugur í flokknum þegar hann sameinaðist Íhaldsflokknum.
Auk þess voru þeir báðir að mörgu leyti frjálslyndir menn, en stjórnmál Íslands voru gjörólík fyrir 1918 því sem síðar varð. Eitt stærsta ágreiningsmál á þingi á þessum tíma var hvort stofna ætti sérstakan seðlabanka eða láta Landsbankann vera bæði viðskiptabanka og seðlabanka. Benedikt var í forystu fyrir þeim framsýnu mönnum sem vildi stofna sérstakan seðlabanka gegn andstöðu Íhaldsflokksins.
Afi og Bjarni frá Vogi voru lengst af samherjar, en leiðir skildu árið 1918 eins og ég rakti í pistlinum: Bræður munu berjast. Kannski rek ég feril Frjálslynda flokksins síðar í pistli. Hann var að mörgu leyti með merkileg stefnumál. Guðmundur Hagalín segir um sameininguna: „[V]ar stefnuskráin þar mun frjálslegri en sú, sem Íhaldsflokknum hafði verið sett.“