Helst ekki of heimskur

Hvers vegna vill einhver vera pólitíkus? Margt fólk heldur að stjórnmálamenn séu allir eins; þeir hugsi fyrst og fremst um sjálfa sig, um sinn frama og hag sinna vina.

Nú kynnist heimsbyggðin öll, þar með talið Íslendingar, stjórnmálamönnum sem sá efa og ótta í stað röksemda og stefnu. Stjórnmálamönnum sem slá fram kenningum sem eiga sér enga stoð í raunveruleikanum, en segja að það sé skylda andstæðinga að afsanna delluna. Þessir menn hafa eina skoðun í stjórnarandstöðu, en aðra ef þeir komast í stjórn.

Í stað þess að berjast fyrir réttlátara og betra samfélagi berjast þeir fyrir því einu að koma sjálfum sér í sviðsljósið og vonandi í valdastóla. Ímyndin skiptir miklu meira máli en innihaldið. Mestu máli skiptir að segja eitthvað hnyttið eða birtast á fallegri mynd. Margir stjórnmálamenn ráða ímyndarsmiði í þjónustu sína, en fáum dettur í hug að ráða hugmyndasmiði.

Auðvitað hafa lýðskrumarar lengi verið til en nú hafa þeir aftur náð sviðsljósinu. Líka á Íslandi. Það er ekkert skrítið að Alþingi og stjórnmálin njóti lítillar virðingar.

Tveir merkustu leiðtogar íslensku þjóðarinnar á 20. öld hafa talað um hvaða kostir ættu að prýða stjórnmálaforingja.

Ólafur Thors var lengur formaður í Sjálfstæðisflokknum en nokkur annar og hafði lag á því að laga sig að breyttum aðstæðum. Hann sagði í samtali við danska blaðakonu: „Starf stjórnmálamannsins er fólgið í því að rétta fólki hjálparhönd og sjá um að duglegu fólki sé veitt tækifæri. … Góður stjórnmálamaður á að … taka sannleikann fram yfir lygina. Hann á að vera hugrakkur, vinnusamur og hafa hjartað á réttum stað. Og … helst ekki allt of heimskur. Hann verður að vita, að enginn vex af því að sitja í stól – heldur af því að vinna starf sitt.“

Geir Hallgrímsson var einn merkasti stjórnmálamaður 20. aldar, heiðarlegur hugsjónamaður sem var í forystu hjá ríki og borg í áratugi. Hann sagði ungur í bréfi til félaga síns Ásgeirs Péturssonar, sem nú er nýlátinn: ,,[A]llt ber þetta að sama brunni, sá sem lofar mestu, fær mest fylgi, en auðvitað er það leiðin til glötunar. Stjórnmálamenn og flokkar verða að hafa hugrekki og dug til þess að segja þjóðinni að ekki sé allt hægt í einu og leiða henni fyrir sjónir að kröfupólitík sé ekki heillavænleg til lengdar. Ef stjórnmálaflokkur heima eða annars staðar hefur slíkt hugrekki mun hann áreiðanlega vinna þegar til lengdar lætur. Þótt segja megi að íslenska þjóðin hafi ekki viljað lækka dýrtíðina eða gera ráðstafanir í þá átt, þá má líka segja að forysta flokkanna hafi ekki vísað veginn, eins og þó er þeirra skylda og síðan að standa og falla með því.“ Það er athyglisvert að báðir leggja þeir áherslu á heiðarleika og hugrekki fram yfir skrum og tækifærismennsku.


Birtist í Morgunblaðinu 27.7.2019

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.