Sunnudagur í Notre Dame

Stundum eru tilviljanir í lífinu þannig að maður heldur að þær séu eitthvað allt annað. Fyrir ári, í nóvember árið 2018 fórum við Vigdís í vikuferð til Parísar. Yfirleitt legg ég lítið til skipulagningar á ferðum okkar, en í þetta sinn velti ég því talsvert fyrir mér hvað við ættum að skoða. Hringdi í fólk sem hefur lengi búið í borg gleðinnar og spurði hvað væri sniðugt að gera. Við höfum farið í Eiffel-turninn, í sigurbogann, í Louvre-safnið – sem sé allar aðal túristagildrurnar. Mér fannst þær samt allar frábærar.

Í þetta sinn setti ég eitt á oddinn. Mig langaði til þess að fara í messu í Notre Dame. Það væri synd að kalla mig kirkjurækinn, en þó förum við oft í kirkju á jólum. Svo er ég líka kominn á þann aldur að ég fer í jarðarfarir miklu oftar en ég helst vildi. En kirkja á sunnudegi í nóvember, þegar enginn var dáinn, Vigdísi fannst það svolítið skrítið. Hún mótmælti þó ekki, enda ekki gott til afspurnar að sóknarnefndargjaldkerinn neitaði að fara í kirkju, að ekki sé á það minnst þegar utankirkjumaðurinn stakk upp á því.

Svo vel vildi til að við tókum á leigu íbúð í Mýrinni, skemmtilegu hverfi sem ég man ekki númerið á, en nálægt Signu – ég held við höfum verið fimm til tíu mínútur að ganga að Pompidou-safninu, óvenjulegri byggingu, svo ekki sé meira sagt.

Samkvæmt gúgúl var kirkjan í göngufæri. Veðrið var kalt og loftið tært. Þessi útlenski kuldi sem er miklu kaldari en hitamælirinn gefur til kynna. Fáir á ferli fyrir klukkan tíu á sunnudagsmorgni. Leiðin lá framhjá ráðhúsinu, fallegri byggingu eins og þær eru margar í París. Margir leita þar gistingar vegna þess að á því stendur Hôtel de Ville. Fórum yfir Pont d‘Arcole sem er ekki ein sú stærsta á Signu. Það voru engir söluvagnar við ána, hvort sem það var vegna kulda eða sölumenn halda hvíldardaginn heilagan. Kannski leggjast þeir í híði á veturna. Kirkjan er sem sé á eyju í Signu.

Á spottanum frá brúnni var reynt að selja okkur ís. Þar rekur Quasimodo samnefndan veitingastað. Líklega hefur hann verið rekinn úr kirkjunni við heilsuðum ekki upp á hann en héldum áfram í helgidóminn. Þangað vorum við komin rétt fyrir klukkan tíu. Þar fengum við að fara í forgang, án greiðslu, en við höfðum ákveðið að fara í gregoríanska messu.

Á leiðinni inn tók ég messuskrá og með hana í höndum voru okkur allir vegir færir. Þegar við komum að sætum stóðu tveir hempuklæddir menn við innri sætaröð og vildu endilega að við settumst þar, sem við og gerðum, en þó á aftasta bekk, svo að við rugluðum ekki helgisiðina eins og ég gerði þegar ég hlammaði mér á fremsta bekk í Áskirkju og vissi aldrei hvort ég átti að standa eða sitja.

Messan sem hófst klukkan níu var að enda, en svo tók sú gregoríanska við. Í byrjun sungu konur í kór afar fallega meðan einir átta karlar komu arkandi. Fremstur var ungur maður með reykelsi í krukku og sveiflaði því til. Þegar þeir komu að altarinu gengu þeir hempuklæddu tveir og tveir saman hófu kerti á loft og kysstu eitthvað, líklega kross eða Kristslíkneski. Einn þeirra bauð okkur svo velkomin á ensku, en að mestu leyti var predikað á frönsku. Messuskráin var á latínu og frönsku.

Söngurinn var afar fallegur. Bláklæddar konur kyrjuðu Kirie eléison og svo sungið í belg og biðu Gloria in excélsis Deo … Dómine Deus Agnus Dei, Fílius Patris. Með þessum frösum kemst maður langt í gregorískum söng.

Einhverntíma stóðu allir upp, missnemma eins og gengur, nema ein grísk kona sem sat framan við okkur og sat sem fastast þó að maður hennar stæði uppréttur.

Messan var svo úr texta dagsins sem var úr Opinberunarbók Jóhannesar. Ekki skildi ég mikið í henni, en þó að talað var um dýrið, alfa og ómega. Kannski var þemað tortíming vegna þess að messan var tileinkuð styrjöldum og friði. Að minnsta kosti héngu friðarfánar tileinkaðir lokum heimsstyrjaldar á veggjum. Þá var heil öld frá lokum fyrra stríðs.

Í lokin voru miklar seremóníur í kringum altarisgöngu, en þegar þeim var loks lokið með klukknaslætti voru einir fjórir prestar sem sáu um að dreifa oblátum. Fólk kemur með opna lófa til þess að fá hina helgu köku, nema eina kona sem féll á kné og fékk oblátuna beint upp í sig. Svo sá ég þegar við fórum, án aflausnar, að hún og önnur kona, ung og gullfalleg, dökk á hörund, voru enn á hnjánum. Vínveitingar voru engar.

Við gengum þegjandi út, röltum meðfram kirkjunni og tókum eftir því að við aftari hlutann voru stillansar. Svo kirkjur þarf endalaust að laga, hugsaði ég.

Önnur eyja, Isle de St. Louis, er tengd eyjunni sem Frúarkirkjan stendur á. Þar er fallegt mannlíf að sögn, en var í lágmarki þennan dag í rigningunni. Kuldinn var merkilega nístandi og Vigdís var hálflasin og ekki í góðu stuði.

Við fengum okkur málsverð á veitingastað á eyjunni, Café St. Regis. Ég pantaði auðvitað egg Benedicts og samloku að hætti eyjaskeggja. Þessu gæddum við okkur á, kappklædd í nepjunni.

Þennan dag og þá næstu keppumst við við að teyga í okkur menninguna. Mest nutum við þó lífsins og röltum um strætin, fengum okkur einstaka sinnum hvítvínsglas yfir kertaljósi. Rómantísk vika í París.

Markmiðið með ferðinni var að sjá tónleika með Paul McCartney. Ekki klikkuðu þeir. Eftir ferðina gat ég sagt eins og Lennon: I’ve seen religion from Jesus to Paul.

Síðasta kvöldið fórum við út aftur um sjöleytið og fengum okkur að borða í veitingastað skammt frá, Vin, Pain, Fromage. Þar fengum við okkur fondue og skinku með og sitthvort rauðvínsglasið. Ósköp huggulegt. Eftir matinn, um hálfníu leytið, ákváðum við að ganga niður að Signu og svo aftur yfir að Notre Dame. Stoppuðum á leiðinni í ísbúð þar sem Vigdís fékk sér heitt kakó. Ég fékk sopa og það var seðjandi, en ágætt að fá smá yl. Núna var samt hlýrra en á sunnudagsmorgninum.

Það var fallegt að standa á torginu fyrir framan kirkjuna í kvöldmyrkrinu. Hún er ótrúleg völundarsmíð og það hefur verið mikið mál að teikna hana fyrst í smáatriðum og teikna svo hverja styttu um sig, svo ekki sé talað um að smíða hana og búa til allar styttur (og svo myndir inni og glugga). Ég var feginn að við fórum í messuna, það var skemmtileg upplifun.

Ári seinni hugsar maður með sér: Hvernig gátum við verið svona heppin að bæta þessum minningum í sarpinn meðan það var hægt?

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.