Betri er sauðkind en mannkind

Nýlega kom fram að stefna Fréttablaðsins er „að halda uppi borgaralegum viðhorfum, víðsýni og frjálslyndi. Frelsi sé gert hátt undir höfði og hag neytenda haldið á lofti. Stjórnvöldum á hverjum tíma sé veitt aðhald á öllum sviðum … [og blaðið] aðhyllist alþjóðlegt samstarf Íslendinga á breiðum vettvangi og horft sé til þess að dýpka slíkt samstarf til framtíðar.“

Glöggur greinandi Viðskiptablaðsins sagði réttilega: „Menn þurfa ekki að vera neitt sérstaklega læsir á pólitík til þess að átta sig á því að blaðið er að gera erindi Viðreisnar að sínu“. Auðvitað dettur engum í hug að annar flokkur á Íslandi standi vörð um þessi sjálfsögðu grunngildi.

Líklega er ekkert eins skaðlegt efnahagslífinu og þegar ríkið réttir atvinnuvegum hjálparhönd. Hlutverk stjórnmálanna er að setja reglur sem tryggja heilbrigðan og heiðarlegan rekstur, ekki að segja hvaða atvinnugreinar eru þeim þóknanlegar.

Fyrirtæki mega sannarlega ekki misnota sér stöðu sína til þess að þvinga keppinauta út af markaði eða gera þeim skráveifur með óeðlilegum viðskiptaháttum. Sterkt fyrirtæki freistast til að selja vörur með tapi, meðan keppinautnum sem ekki hefur bolmagn til slíkrar niðurgreiðslu blæðir út. Aðilar nýta einokunarstöðu á markaði oft til þess að selja neytendum lélega vöru á háu verði.

Fáir efast nú um að frjáls samkeppni með eðlilegum leikreglum er besta leið neytenda til betri og ódýrari vöru. Tollar, höft og niðurgreiðslur draga úr hagkvæmni. Enginn þarf að tortryggja það að lykillinn að efnahagslegri velgengni Íslendinga síðasta aldarfjórðunginn er viðskiptafrelsi á flestum sviðum.

Fyrr í vikunni birti stórblaðið New York Times hvassa gagnrýni á niðurgreiðslur Evrópusambandsins til landbúnaðar, en samkvæmt úttekt blaðsins hafa lýðskrumarar í Suður- og Austur-Evrópu nýtt sér stöðu sína í stjórnmálum til þess að auðgast á styrkjakerfinu.

Í landbúnaði á Íslandi blasir við önnur mynd. Hér eru mun umfangsmeiri niðurgreiðslur, tollar og innflutningshöft en í Evrópusambandinu. En ólíkt popúlistavinum sínum í Austur-Evrópu hefur íslensku vinstri stjórninni tekist að viðhalda kerfi sem tryggir hátt vöruverð til neytenda, takmarkar vöruúrval, leggur byrðar á skattgreiðendur, en færir bændum fátækt.

Auk beinna styrkja til landbúnaðar upp um 15 milljarða króna árlega felst stuðningur upp á að minnsta kosti annað eins í höftum og tollvernd. Alls jafngildir þetta um 10 milljónum króna á hvert bú sem eru miklir peningar. Viðreisn vill borga styrki beint til bænda sem stunda þann landbúnað sem þeir telja skynsamlegastan. Á móti verði allri tollvernd aflétt og sérreglur afnumdar. Neytendur mættu líka borða þann mat sem þeir helst vilja, eins skelfilega og það hljómar í eyrum ríkisstjórnarflokkanna.


Birtist í Morgunblaðinu 8.11.2019

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.