Special Price for You, My Friend

Alltaf þegar stjórnmálamenn úthluta takmörkuðum gæðum býður það spillingu heim. Þess vegna er markaðsleið eina réttláta aðferðin til þess að verðleggja kvótann. Enginn bjóst við því að horfið yrði frá spillingu eða sérhagsmunagæslu þegar núverandi ríkisstjórn tók við. Samt kom það jafnvel mér á óvart, að þegar VG gekk inn í sérhagsmunabandalagið hafði flokkurinn forystu um lækkun á veiðigjaldi, sem auðvitað rann í gegn.

Almenningi er varla misboðið lengur. Við erum orðin vön því að stjórnmálamenn ívilni útgerðarmönnum sem kveinka sér undan háum gjöldum til samfélagsins í formi auðlindagjalds, en verða ekki varir við að sambærileg fjárhæð rennur sem „ráðgjafakostnaður“ til vildarvina á suðlægum slóðum.

Allir segjast vera sammála því að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign íslensku þjóðarinnar, enda eru það lög í landinu. En þegar kemur að því að þjóðin fái sanngjarna greiðslu fyrir auðlindina vilja flestir stjórnmálamenn frekar styðja lítilmagnana í útgerðinni.

Viðreisn hefur engan áhuga á að „ná kvótanum“ af útgerðinni. Markmiðið er að þjóðin fái sanngjarnt gjald fyrir auðlindina. Þeir sem aðhyllast frjálsa samkeppni vilja að markaðurinn ákveði verðið fyrir afnotin, „vinir útgerðarinnar“ vilja að stjórnmálamenn ákveði verðið. Kannski hækkar það frá því sem nú er, kannski lækkar það.

Það er einföld leið til þess að nota markaðsverð strax á næsta ári. Ráðherra úthlutar núna 5,3% af kvótanum; í aflamark Byggðastofnunar, strandveiðar, byggðakvóta, línuívilnun, rækju- og skelbætur og frístundaveiðar. Bjóðum þennan hluta á markaði til að byrja með. Við getum jafnvel látið andvirðið renna beint til byggðanna. Þá er styrkurinn gagnsær.

Meginatriðið er þó að þá erum við komin með markaðsverð á kvótann og getum notað það til grundvallar auðlindagjaldinu. Til þess að gera þetta þurfum við stjórnmálamenn sem eiga sig sjálfir og þora að standa með þjóðinni.

En finnast einhverjir slíkir í sérhagsmunaflokkunum sem styðja ríkisstjórnina?


Greinin birtist í Fréttablaðinu 14. nóv. 2019

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

%d bloggurum líkar þetta: