Í lífinu skiptir öllu að geta treyst þeim sem maður skiptir við. Við gerum þetta ósjálfrátt oft á dag. Á veitingastöðum er matur eldaður af fólki sem við þekkjum hvorki haus né sporð á, en búumst samt ekki við að fá myglaðan mat. Við treystum því að kyrrstæði bíllinn við gangbrautina fari ekki af stað á ógnarhraða þegar við erum komin út á miðja götu. Langoftast er líka öllu óhætt í samskiptum við aðra. Flest fólk er heiðarlegt og því má treysta.
Margir telja að í viðskiptum gildi önnur lögmál. Þar ríki samviskulausir fantar sem hika ekki við að traðka á öðrum ef það hentar. Á tímum útrásarvíkinganna voru líka mörg dæmi um þetta, stjórnendur og eigendur sem vildu helst enda sérhver viðskipti á því að „taka snúning“ á viðsemjandanum, þ.e. að klekkja á honum í lokin.
Forseti lýðveldisins árið 2006 taldi það sérstakan kost að „flækjur skrifræðisbákna“ hefðu aldrei þvælst fyrir okkur Íslendingum. Hann nefndi að athafnamenn í sumum öðrum löndum yrðu oft að leggja velferð fjölskyldunnar á vogarskálar áhættunnar gagnstætt því sem væri á Íslandi. Þarna átti forsetinn kollgátuna. Á endanum lögðu þessir snillingar allt Ísland undir og töpuðu.
Viðskiptasiðferðið varð undir á útrásarárunum. Nú virðist meiri virðing borin fyrir varfærni, vönduðum undirbúningi og heiðarleika en fyrir hrun, þó að því miður séu víða enn skemmd epli.
Áhyggjur vekur að siðferði fer hrakandi á öðrum sviðum samfélagsins. Sífellt fleiri láta eins og leikreglur samskipta manna, hópa og þjóða á milli gildi ekki um þá. Þeir sem eru vanir að ráða því sem þeir vilja þola illa andmæli. Ákvarðanir fara að stjórnast af öðru en umhyggju fyrir hópum sem menn segjast ala önn fyrir. Óneitanlega hlýtur fólk að spyrja hvers vegna þeir sem áður nutu virðingar í samfélaginu telji sér það nú samboðið að snúa út úr staðreyndum eða láta eins og hreinasti tilbúningur sé heilagur sannleikur.
Hörður heitinn Sigurgestsson, sem um árabil var forstjóri Eimskips, sagði: „[Veldu þér] viðskiptafélaga og samstarfsmenn þá sem þér líst svo á að þú getir starfað með til lengri tíma, gætir vænst þess að treysta ævinlega og þá líka þegar á móti blæs og áföll verða.“ Sem sagt: Lærðu hverjum þú getur treyst.
Stjórnmálaumræðurnar og -starfið undanfarið ár sýna að nú er risinn upp hópur pólitíkusa og leigupenna, sem ekki er hægt að treysta, því að staðreyndir skipta þau litlu máli. Þau kjósa ágreining þegar friður er í boði, þora ekki að semja þegar hægt er að berjast og sjá óvini í hverju horni. Þeir sem halda fram staðreyndum eru kallaðir svikarar og lygarar.
Þessi nýja stétt sem leiðir siðferði útrásarinnar inn í þjóðmálin, tilgangurinn er að skapa úlfúð og gera lítið úr andstæðingum. Ísland verður verra land en áður.
Birtist í Morgunblaðinu 4.9. 2019