„Enginn getur fært mér dóttur mína til baka, en kannski get ég bjargað dóttur einhvers annars með því að halda áfram að jagast í kerfinu.“ Félagi minn var að segja mér sína sorgarsögu. Flestir Íslendingar þekkja dæmi um fólk sem nær ekki sambandi við heilbrigðisstarfsmann, fær ekki meðferð fyrr en eftir dúk og disk eða þarf að útskrifast allt of fljótt. Sem betur fer enda fæstar sögurnar með svona raunalegum hætti.
Allir sjá að við verðum að bæta þjónustuna. Samt virðast margir stjórnmálamenn aldrei hugsa um hvernig gert verði betur fyrir almenning með hagkvæmustum hætti. Lausn þeirra er alltaf sú sama: Að setja meiri peninga í ríkisstofnanir.
Ríkið og Landspítalinn koma fyrst, en sjúklingurinn gleymist. Landlæknir sagði í viðtali við Morgunblaðið þann 7. apríl 2018: „Það má alls ekki haga útvistuninni þannig að við hættum á að veikja getu opinberra stofnana til að sinna þeim hlutverkum sem þeim er ætlað að sinna.“ Hvers vegna horfa ríkisstjórnarflokkarnir fyrst og fremst á eflingu ríkisstofnunar, en ekki vanda fólksins sem vantar þjónustu?
Nú er mikill halli á rekstri Landspítalans, en þegar hann er búinn með sinn kvóta af aðgerðum má ekki færa þær á einkareknar stofur heldur er þær sendar öðrum ríkisreknum stofnunum, til dæmis á Akranesi eða Akureyri. Alverstu dæmin eru þegar aðgerðir eru sendar úr landi til þess að koma í veg fyrir að vel hæfar einkastofur á Íslandi sinni þeim.
„Utanspítalakerfi sem er rekið beint af sérfræðingum er afleiðing af því að spítalakerfið hefur ekki getað sinnt öllum,“ sagði Ágúst Kárason bæklunarlæknir í viðtali við Morgunblaðið. Ágúst nýtur mikillar virðingar sem læknir langt út fyrir landsteinana.
Hann bætti við: „Það er eins og það sé heilaþvottur í gangi um það að það þurfi allt að vera ríkisrekið inni á spítölunum, en misskilningurinn er sá að sérfræðikerfið, sem hefur alltaf verið með samning við Sjúkratryggingar, er hluti af opinbera kerfinu. Ef það leggst niður mun það þýða það að þjónustan á spítölunum verður verri og það myndast alvöru tvöfalt kerfi.“
Hluti af trúarbrögðum núverandi ríkisstjórnar er að láta heilbrigðisráðherra, Svandísi Svavarsdóttur, beita sér gegn nýliðun sérfræðilækna utan sjúkrahúsa og koma í veg fyrir að sérfræðilæknar geti opnað stofur utan spítala.
Samt hafa nær allir Íslendingar góða reynslu af einkarekstri í heilbrigðiskerfinu. Apótek eru einkarekin, sem og tannlæknastofur, sjúkraþjálfun og elliheimili, svo dæmi séu tekin.
Sjálfstæðisflokkurinn sagðist á sínum tíma styðja einkarekstur en núverandi ríkisstjórn stefnir í þveröfuga átt. „Þetta er ríkisvæðingarstefna dauðans, þessi aðstaða er öll til hjá sérfræðingum utan spítalans.“ sagði Ágúst Kárason.
En ríkisstjórnin hlustar ekki.
Birtist í Morgunblaðinu 13.9.2019