Fjörutíu og sjö ár

Þetta ber nokkuð brátt að, sagði bekkjarfélagi minn, þegar tilkynnt var að haldið yrði upp á 47 ára stúdentsafmælið núna í vor. Dagsetningin var tilkynnt með sjö vikna fyrirvara, en ótrúlega margir í árganginum voru búnir að skipuleggja utanlandsferðir, einmitt á þessum tíma. Bekkjarfélaginn var reyndar bara að fara í fjallgöngu einmitt þennan dag. Það fannst mér ekki góð afsökun. Fjallið hefur vakað í þúsund ár og helst eflaust vakandi nokkur ár enn, en 47 ára stúdentsafmælið er bara eitt kvöld. Þá bætti hann við að hann væri búinn að borga fjallgönguna og vildi ekki sjá á bak nokkur þúsund krónum. Ég treysti mér ekki til þess að skýra út fyrir honum að hann gæti farið viku seinna á fjallið, alveg ókeypis.

Frá Petersen svítunni

„Hver skipuleggur utanlandsferð með sjö vikna fyrirvara?“ Þetta lagðist þungt á mig og ég reyndi að fá útrás með því að ræða við félaga mína sem ekki eru í þessum ágæta stúdentsárgangi. Þeir horfðu á mig og það var ekki laust við að þeir væru aðeins skeptískir á svipinn.

„Tja, gat fólk vitað að það yrði haldið upp á þetta afmæli?“ spurði einn varfærnislega. „Var þetta ekki stuttur fyrirvari fyrir margt fólk á þessum aldri?“

Ef það er eitt sem ég þoli ekki er að talað sé um mig sem „fólk á þessum aldri“. Á nýlegu afmæli mínu fékk ég tugi, ef ekki hundruð kveðja á FB, sem hefði auðvitað átt að gleðja mig, sem þær gerðu flestar, en sumar komu sannarlega við kvikuna. „Til hamingju, gamli vinur“, sögðu nokkrir. Hvað áttu þeir við með gamli? Svona aldursfordómar eru algerlega óásættanlegir (að minnsta kosti þegar ég á í hlut) þannig að þessir voru umsvifalaust önfrendaðir og komast ekki aftur í vinahópinn nema þeir sýni iðrun og yfirbót.

Reyndar voru líka nokkrir sem óskuðu mér á sama tíma til hamingju með löggildinguna (hér gerir stafsetningarforritið athugasemd, þekkir ekki orðið löggilding, en stingur upp á ógildingu í staðinn,  en sem betur fer óskaði enginn mér til hamingju með hana). Skýringin er væntanlega sú að fyrir nokkru birtist falsfrétt um að ég hefði hafið störf hjá Gildi lífeyrissjóði og fólk hefur haldið að til þess að starfa þar þyrfti ég löggildingu.

Þetta var útúrdúr frá spjallinu við félagana. „Auðvitað gat fólk vitað að haldið yrði upp á stúdentsafmælið. Það er búið að vera vitað í 47 ár, allt frá vorinu 1975.“

Nú kom hik á mannskapinn þangað til annar þorði að spyrja: „Er ekki svolítið óvanalegt að halda upp á 47 ára stúdentsafmæli?“ sem ég svaraði auðvitað: Jú, þetta væri í fyrsta sinn sem við héldum upp á það. Hann átti ekki beinlínis við það, en hvers vegna 47 ár?

„Nú, 47 er prímtala.“ Þetta þaggaði niður í flestum, því félagar mínir taka flestir rökum, en einn bætti þó við hvort árgangurinn héldi alltaf upp á prímtöluafmæli.

„Nei, nei, við höfum ekki gert það síðan á fimm ára afmælinu. Þannig að það var kominn tími á næstu prímtölu.“

Það komu ekki fleiri spurningar.

Eitt af því sem fylgir samfélagsmiðlum er að til manns flæða gagnslausar upplýsingar um einkalíf annarra. Um daginn sá ég til dæmis að stúdentsárgangurinn ’76 hélt upp á 46 ára stúdentsafmæli. Ég hugsaði með mér: Hver heldur upp á 46 ára stúdentsafmæli? en lét vera að skrifa um það athugasemd. Aftur á móti vakti það mér vissan ugg þegar ég sá myndirnar úr ferðalagi þeirra, því ég sá ekki betur en að þetta væri allt fjörgamalt fólk. „Hvernig verða bekkjarfélagar mínir þá“ kom mér í hug, því óneitanlega erum við árinu eldri. Auðvitað hafði ég engar áhyggjur af okkur Vigdísi, sem erum eins og unglömb, en mundi maður þekkja einhvern annan? Mér flaug í hug maðurinn sem fór í árgangspartý og sagði þegar hann kom heim: „Þetta var ekkert skemmtilegt. Það voru allir orðnir svo feitir og sköllóttir að það þekkti mig enginn.“

En þetta reyndist ástæðulaus ótti. Tíminn hefur farið mildum höndum um MR-stúdentana frá 1975, að minnsta kosti þá sem mættu á Petersen svítuna í gærkvöldi.

Veislan átti að vera frá 17-22, en við Vigdís komum hálf fimm til öryggis, en vorum þó ekki fyrst. Í ’75 árganginum eru alvöru partýpinnar. Þegar við vorum sannfærð um að allt væri í himnalagi skutumst við til Odds frænda sem varð einmitt stúdent frá MR í gær. Eins og flestir muna var það einmitt Oddur sem tryggði Gettu betur liðinu sigur gegn Verzló með því að vita hve mörgum mönnum er hægt að leika í fyrsta leik í skák. Þá sá maður að þrotlausar skákæfingar okkar frænda eru ekki til einskis.

Klukkan rúmlega hálf sex snerum við aftur og komum nánast að fullum sal. Margir voru búnir með freyðivínið sem fylgdi miðanum og voru mættir á barinn í annað (eða þriðja) sinn. Við höfðum tvo Sali fyrir okkur í svítunni og hafði þar að auki verið lofað afmörkuðu svæði á pallinum, en eins og allir muna var glaðasólskin og hlýtt, rétt eins og búið var að skipuleggja. Vissulega var staðið við afmarkaða svæðið fyrir okkur, en það var um það bil sex fermetrar, þannig að kvöldið fór að miklu leyti í landvinninga á pallinum.

Svona veislur eru auðvitað fyrst og fremst til þess að hlusta á ræður og í þetta sinn bar svo undarlega við að ég flutti enga. Bæði var framboðið ekkert hjá mér, en það sem mér þótti verra var að eftirspurnin var enn minni. Þrátt fyrir þetta var samt góður skammtur af töluðu orði.

Veislustjórinn hefur leikinn

Þórarinn V. Þórarinsson var veislustjóri og hann byrjaði að skýra fyrir viðstöddum hvernig röðin væri á arftökum í Bandaríkjunum ef forsetinn félli frá (varaforseti, forseti fulltrúadeildarinnar, sem Þórarinn kallaði reyndar fulltrúaráðið, aldursforseti öldungadeildarinnar, utanríkisráðherrann, …) Lesendur sjá að ég fylgdist af áhuga með ræðunni, en upptalningin endaði á heimavarnarráðherranum. Hér hefði mátt heyra saumnál detta, ef ekki hefði verið kliður frá þeim sem kepptust við á barnum að ná Happy hour fyrir klukkan sjö (þá hófst unhappy hour). Kom þá að tengingu við veislustjórnina. Þórarinn sagði að auðvitað hefðu ýmsir átt að vera sjálfkjörnir til þess starfa, en hefðu af ýmsum ástæðum forfallast: Sigrún Pálsdóttir inspector væri erlendis, Grímur Sæmundsen bekkjarráðsformaður væri fjarri góðu gamni (Grímur stóð við dyrnar, um það bil fjóra metra frá gamninu góða og gat því skiljanlega ekki stýrt veislunni). Taldi Þórarinn svo upp hvern embættismanninn af öðrum sem ekki hefði komist til þessa starfa uns komið var að þrautaþrautavara kostinum: Formanni bóksölunefndar, Þórarni V. Þórarinssyni. Að þessu var góður rómur gerður.

ÞVÞ skýrði svo dagskrána: Fyrst myndi Sigurður J. Grétarsson prófessor flytja hátíðarræðu kvöldsins og að loknu hæfilega hléi myndi Sigurður J. Grétarsson trúbador stýra fjöldasöng. Þess á milli myndi Sigurður J. Grétarsson sálfræðingur spjalla við gesti í salnum. Heyrðist þá rödd úr salnum: Hvers vegna var Sigurður ekki veislustjóri? (Fyrirspyrjandi mun hafa verið Sigurður J. Grétarsson).

Gengu nú bekkjarfélagar milli manna og rifjuðu upp gömul kynni. Það er svo merkilegt að á svona samkomum er lítill áhugi á því hvað fólk er að gera núna, en mun meiri á því hver kenndi okkur þýsku eða jarðfræði, eða í hvaða stofu þessi eða hinn var í fjórða bekk. Reyndar óskuðu nokkrir mér til hamingju með nýja starfið (máttur falsfrétta er mikill) sem ég þakkaði auðvitað pent fyrir. Einstaka þorði að spyrja mig varfærnislega um pólitíkina, en þær samræður enduðu jafnskjótt og þær hófust.

Sigurður á leið í pontu

En nú varð aftur hlé á samræðum því dr. Sigurður hóf ræðu sína. Hann hóf mál sitt á tölum: Ræðan myndi taka tólf mínútur og væri nákvæmlega 1975 orð, árganginum til heiðurs. Ég byrjaði umsvifalaust að telja og mátti hafa mig allan við og náði því ekki nákvæmlega innihaldi ræðunnar. Var þó klár á því að Sigurði fannst það ekki merkilegast við MR að skólinn hefði unnið Gettu betur í 20. sinn í röð. Þarna var ég honum alls ekki sammála, í fyrsta lagi er þetta auðvitað mjög merkilegur sigur hjá Oddi frænda (sjá fyrr í pistlinum), auk þess var þetta í 22. sinn og í þriðja lagi var sigurinn í vetur í fyrsta sinn í röð í þessari lotu. En til þess að ruglast ekki í talningunni sleppti ég því að kalla fram í fyrir ræðumanni.

Í 317. til 337. orði rakti Sigurður afrek ýmissa skólafélaga okkar og nefndi að sumt hefði verið fyrirsjáanlegt, til dæmis hefðu flestir búist við því á menntaskólaárunum að Haraldur Johannessen yrði ríkislögreglustjóri. Maður sá að viðstaddir kinkuðu almennt kolli.

En nú gerði Sigurður mér þann óleik að segjast ætla að skála þrisvar. Eins og flestir vita er nógu erfitt að telja og missa ekki þráðinn, hvað þá að þurfa að telja skálarnar, svo ég missti einhver efnisatriði úr, en get staðfest að ræðan var nákvæmlega 1975 orð og skálarnar nákvæmlega þrjár. Ræðutíminn 12 mínútur og 11 sekúndur.

Rektor Menntaskólans heldur ræðu

Viðstaddir klöppuðu ræðumanni ákaft lof í lófa. Strax í kjölfarið steig stolt árgangsins, sjálfur rektor Menntaskólans í Reykjavík Elísabet Siemsen, 6.-B bakvið hljóðnemann. Hún gaf ekkert upp um orðafjölda í ræðunni og ég gat því einbeitt mér að því að hlusta. Án þess að fara út í smáatriði í ræðunni er ljóst að hún hefur dregið Menntaskólann inn í samtímann og ég er ekki frá því að tilfinningar viðstaddra hafi verið blendnar vegna þessa, því okkur fannst hann hafa verið ágætur eins og hann var árið 1975 (sem var ekki ólíkt því sem var hundrað árum áður). Ekki þurftum við tölvur heldur notuðum reiknistokk (ég átti að vísu forláta reiknivél, en ég var á undan minni samtíð). En eins og máladeildarfólkið hefði sagt: O tempora, o mores!  Ekki þarf að orðlengja um það að Elísabet fékk líka dúndrandi lófatak.

Var nú langt hlé á dagskrá, en viðstaddir gerðu sér gott af pinnamat sem boðið var upp á. Minnug 20 ára stúdentsafmælisins þegar pinnarnir kláruðust áður en komið var að Z-bekknum, var nú pantaður ríflegur skammtur. Má af kvöldinu draga þann lærdóm að ekki þarf sjö bita á mann eins og veisluþjónustan segir.

Á pallinum hafði fjölgað enn fólki sem var að meðaltali nálægt 50 árum yngra en MR-ingarnir knáu. En þó átti þetta fólk ýmislegt eftir ólært, að minnsta kosti voru þeir eldri ekki síðri í drykkjunni og kneyfuðu líklega dýrari drykki. Þar kann þó að hafa spilað inn í verðlagning eins og eftirfarandi dæmi sýnir:

Einhvern tíma í vetur missti ég bragð- og lyktarskyn. Ekki veit ég hvort það tengist kóvit, því þetta gerðist nokkrum mánuðum eftir að ég steig upp úr því. En nú skiptir það mig litlu hvort ég drekk vín eða vatn, et kjöt eða kleinuhring: Allt bragðast eins og kolefnasnautt brauð.

Eftir að hafa byrgt mig vel upp af rauðvíni á hamingjustundinni fyrir sjö var ég orðinn nógu kátur til þess að það entist mér kvöldið og ákvað að panta mér gos (sama bragð). Stúlkan á barnum tók því elskulega, afhenti mér glas af pepsí max og rétti mér posann: 3.500 krónur takk! Þegar ég gerði athugasemd tók hún eitt núllið af og muldraði: Það mátti reyna.

Trúbadorinn slær í gegn

Var nú farið að síga á einni hlutann. Ein skólasystirin sagði við mig á pallinum: „Ætli maður verði ekki að reyna að finna einhvern til þess að taka með heim eins og í gamla daga.“ Sigurður var byrjaður að spyrja hvað væri svo glatt sem góðra vina fundur. Gleðin skein af hverri vonar hýrri brá.

Sex lögum seinna kyrjaði fólk svo: We are the champions! og starfsfólkið var farið að líta á klukkuna sem hallaði nú mjög í tíu. Bekkjasystirin var á leið út með manninum sínum og ég hvíslaði: Var þetta það skásta sem þú náðir í? Hún brosti út undir eyru.

Raggi Bjarna söng: Við bjóðum góða nótt og við Vigdís tókum nokkur dansspor. Sigurður og Bergþóra létu sitt ekki eftir liggja. Gott kvöld á enda.

Nú er svolítið langt í næstu prímtölu þannig að líklega hittumst við næst eftir þrjú ár. Pistillinn er líka að verða nákvæmlega nítján hundruð sjötíu og fimm orð og mál að linni. Við héldum glöð út í hlýtt vorkvöld í Reykjavík.

One comment

  1. Afar skemmtileg. Ekki bregst þér kímnin Benedikt. Nú fer að styttast í 60 ára stúdentsafmæli mitt frá MA.

    Líkar við

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.