Þá eru kosningarnar afstaðnar og búið að telja. Allir keppast við að lýsa sig sigurvegara, að minnsta kosti hafi menn unni varnarsigur, ef ekki alvöru sigur.
Í sjálfu sér þarf ekki að deila um það að Framsóknarflokkurinn heldur áfram sigurgöngu sinni frá því í alþingiskosningunum í haust. Hann bætti við sig 20 bæjarfulltrúum og 17 þúsund atkvæðum. Líklega er það nánast einsdæmi að flokkur hafi unnið slíka sigur án þess að nokkur geti rakið það til sérstaks málefnis. Árið 2013 vann flokkurinn mikinn sigur út á loforð um að gefa skuldugu fólki mikla peninga. Núna virðist aðalkosturinn við flokkinn vera sá að hann hafði ekkert frétt af bankasölunni fyrr en hún var afstaðin. Klaufaleg framkoma formanns og varaformanns flokksins í garð bænda fyrir nokkrum vikum virðist algjörlega gleymd eða hefur að minnsta kosti ekki truflað kjósendur að heitið geti. Flokkurinn bætir ekki bara við sig mönnum í Reykjavík heldur líka fjórum í Mosfellsbæ, vinnur meirihluta í Borgarbyggð og bætir við sig fylgi og fulltrúum nánast alls staðar á suðvesturhorninu.
Ekki er hægt að tala um aðra sigurvegara í þeim skilningi sem oftast er lagður í orðin eftir kosningar. Þó má ekki gleyma því að Sjálfstæðisflokkurinn er stærstur eins og áður. Hann fær um 45 þúsund atkvæði og tapar um fjögur þúsund atkvæðum síðan síðast og sex bæjarfulltrúum alls. En þetta var alls ekki það afhroð sem margir bjuggust við eftir bankasölumálið. Hafði það ekki komið til eru allar líkur á því að flokkurinn hefði mátt mjög vel við úrslitin una miðað við þá stöðu sem flokkurinn er kominn í. Þó má auðvitað ekki gleyma því að flokkurinn hefur tapað yfirburðastöðu sinni í Reykjavík, en allt fram á þessa öld var hann með yfir 40% fylgi í borginni, en nær nú aðeins tæplega 25%. Flokkurinn kom ósamstæður út úr prófkjöri og náði aldrei takti í minnihluta á liðnu kjörtímabili. Sjónarmið margra frambjóðenda virðast gjörsamlega úr takti við samtímann, þótt aðrir séu frjálslyndir og nútímalegir. Morgunblaðið hjálpar flokknum eflaust ekki í Reykjavík og undarleg auglýsingaherferð um Laugaveginn höfðar eflaust mest til karla á áttræðisaldri. Í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur heldur meirihluti flokksins, nema í Mosfellsbæ. Á Seltjarnarnesi og í Garðabæ getur flokkurinn vel við unað því margir sáu teikn á lofti um það að margra áratuga meirihluti flokksins myndi tapast í þessum bæjarfélögum. Hann vinnur meirihluta í Árborg, heldur honum í Ölfusi, en tapar illilega í Hveragerði þar sem fylgið virðist hafa fokið með íþróttahúsinu.
Flokkur forsætisráðherra ríður ekki feitum hesti frá þessum kosningum. Alls staðar á suðvesturhorninu tapar hann fylgi. Meira að segja í Fjarðabyggð, gamalli paradís forvera VG, fékk flokkurinn aðeins 6% fylgi og engan mann kjörinn. Ekki er við því að búast að þessi niðurstaða hafi mikil áhrif á stöðu formannsins sem mun vísa á að tapið sé ekki mikið miðað við kosningarnar 2018, en sleppir því þá að segja að þá beið flokkurinn afhroð. Í þingkosningunum síðastliðið haust fékk flokkurinn um 11 þúsund atkvæði í Reykjavík en núna um 2.400. Í öðrum flokkum yrði þetta til þess að formenn „íhuguðu stöðu sína“ eins og vinsælt er að segja. Alls fékk flokkurinn í öllum kjördæmum innan við sjö þúsund atkvæði.
Samfylkingin bjó sig undir mikinn sigur og flokksmenn voru býsna ánægðir með sig vikuna fyrir kosningar í ljósi skoðanakannana. Þrjú þúsund töpuð atkvæði í Reykjavík og fallinn meirihluti eru áfall sem linast lítið þótt Guðmundur Árni komi inn með glæsilega niðurstöðu í Hafnarfirði. Útkoman var líka vel ásættanleg á Seltjarnarnesi, en þá er það nánast upptalið. Einhver kann að vilja kenna formanni flokksins um, en honum verður var um kennt; hann hefur lítið sést undanfarna mánuði og aðrir tekið að sér að vera málpípur flokksins, án þess að sjáanlegt sé að uppskeran sé mikil.
Píratar bæta við sig í Reykjavík og Kópavogi, en bjóða óvíða fram en er þó fjórði stærsti flokkurinn á landsvísu.
Viðreisn tapar fulltrúum í Reykjavík og í Kópavogi, en heldur þeim annars staðar. Margir sjá á eftir Pawel Barthoszek með söknuði, en hann hefur líklega gert strategísk mistök bæði fyrir sig og flokkinn með því að bjóða sig ekki fram í fyrsta sætið í Reykjavík. Flokkurinn tók þátt í nokkrum sameiginlegum framboðum. Í-listinn undir forystu Gylfa Ólafssonar, fyrrverandi aðstoðarmanns míns, vann meirihlutann á Ísafirði. Gylfi er mikill mannkostamaður og lán Ísfirðinga að hann flutti aftur í bæjarfélagið sem sjúkrahússstjóri.
Miðflokkurinn tapar um helmingi af sínu fylgi frá síðustu kosningum. Hann tapar líka bæjarfulltrúum sínum á höfuðborgarsvæðinu, en vinnur á í nokkrum fámennum kjördæmum, ekki síst í Grindavík, en þar segja kunnugir að rekja megi sigurinn til persónuvinsælda Hallfríðar Hólmgrímsdóttur fremur en fylgis við flokkslínuna.
Flokkur fólksins vann góðan sigur í alþingiskosningunum, heldur sínum fulltrúa í Reykjavík og bætir við sig einum á Akureyri, en þar með er það upp talið. Nokkuð skortir væntanlega upp á skipulag hjá flokknum í sveitarfélögunum.
Loks unnu Sósíalistar mann í Reykjavík og geta eflaust þakkað það Sönnu, borgarfulltrúa sínum, sem kom vel fyrir á fundi oddvitanna í sjónvarpi á föstudagskvöld, en hún flutti mál sitt af einlægni.
Atkvæði 2022 | 2018 | Breyting | Fulltrúar 2022 | 2018 | Breyting | |
B | 29.446 | 12.521 | 16.925 | 51 | 31 | 20 |
C | 7.611 | 8.582 | -971 | 5 | 6 | -1 |
D | 44.839 | 49.052 | -4.213 | 76 | 82 | -6 |
F | 3.815 | 2.509 | 1.306 | 2 | 1 | 1 |
J | 4.618 | 4.265 | 353 | 2 | 1 | 1 |
M | 4.889 | 9.461 | -4.572 | 6 | 9 | -3 |
P | 9.961 | 7.147 | 2.814 | 4 | 3 | 1 |
S | 23.657 | 26.732 | -3.075 | 25 | 25 | 0 |
V | 6.643 | 7.345 | -702 | 9 | 8 | 1 |
Aðrir | 6.033 | 17.471 | -11.438 | 32 | 38 | -6 |
Kannanir
Fyrir utan Reykjavík var ekki mikið um opinberar kannanir nema í Hafnarfirði þannig að í þetta sinn renndu menn nokkuð blint í sjóinn um hvert stefndi. Í gamla daga snerust leiðarar Jónas Kristjánssonar aðallega um hver vel kannanir í hans blaði hefðu séð kosningar fyrir. Ætla má að Sigmundur Ernir skrifi ekki líkan leiðara í ár, en hann sló upp fyrirsögninni: „Reykjavík: Fylgi Sjálfstæðisflokks fallið niður fyrir Pírata“
Berum þessa könnun saman við úrslitin:
Úrslit | Könnun | |
B | 18,7% | 12,4% |
C | 5,2% | 7,0% |
D | 24,5% | 16,2% |
F | 4,5% | 4,2% |
J | 7,7% | 7,7% |
M | 2,4% | 1,7% |
P | 11,6% | 17,9% |
S | 20,3% | 26,7% |
V | 4,0% | 5,4% |
Aðrir | 1,1% | 0,8% |
Segja má að sigurvegarinn í þessari könnun sé Kolbrún Bergþórsdóttir blaðamaður og leiðarhöfundur Fréttablaðsins sem sagði hana „lítt marktæka“. Kannanir sem birtust daginn fyrir kosningar voru nokkuð nærri lagi nema þær sái ekki fyrir tap Samfylkingarinnar.
Hver verður í meirihluta?
Segja má að tveir meirihlutar komi einkum til greina í Reykjavík. Annars vegar að Framsókn gangi til liðs við Dag og Samfylkinguna með fulltingi Pírata. Það væru 12 fulltrúar í þeim meirihluta. Það kann að verða erfitt fyrir Pírata að samþykkja forystu Framsóknar, en ástæðulaust að útiloka það. Dagur hefur sýnt það á liðnum árum að hann er snjall samningamaður, jafnvel í snúinni stöðu.
Hinn möguleikinn er samstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknar, Viðreisnar og Flokks fólksins. Þetta er nánast eini möguleiki Sjálfstæðismanna og Viðreisnar til þess að komast í meirihlutasamstarf. Flokkarnir yrðu að samþykkja að vinna undir forsæti Einars Þorsteinssonar, en fengju aðkomu að meirihlutanum. Því má ekki gleyma að Kolbrún Baldursdóttir var á sínum tíma varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins. Þetta er eina meirihlutasamstarfið sem gæti flokkast undir breytingar, sem Framsóknarmönnum verður tíðrætt um.
Framsóknarmenn geta sett skilyrði um að fá borgarstjórastólinn og vandséð að hinir flokkarnir geti gert kröfu um hann. Helst væri það að Dagur reyndi að mynda stjórn með Samfylkingu, Pírötum, VG, Sósíalistum og annað hvort Flokki fólksins eða Viðreisn, jafnvel báðum. Ólíklegt virðist að slík stjórn yrði samstæð.
Næstu vikur verða ekki tíðindalausar, en jafnvel þótt úrslitin gefi ástæðu til frekari sviptinga virðist ólíklegt að nokkur stjórnmálamanna telji það sér í hag að leggja í þær.