Með hjarta úr gulli – Minningar um Gísla Marteinsson

Gísli Marteinsson, sem margir Norðfirðingar minnast sem framkvæmdastjóra Lífeyrissjóðs Austurlands, var jarðsunginn í gær, þann 13. apríl. Ég kynntist Gísla vel og hann var gull af manni. Mér er sérlega minnisstæð ferð sem ég fór í með Gísla til Rússlands árið 1997. Þetta var á þeim árum sem lífeyrissjóðamenn flengdust um allar grundir til þess að leita að fjárfestingatækifærum og í þetta sinn var markmiðið að skoða gullnámu í nágrenni Tjeljabinsk í Úralfjöllum. Hún er sjöunda stærsta borg Rússlands, en ég hugsa að enginn okkar hafi heyrt um hana áður en við undirbjuggum þessa ferð. Ég mætti sem blaðamaður, ætlaði að skrifa um ferðina í Frjálsa verslun, en svo fór að ég skrifaði aldrei þessa sögu, af ýmsum ástæðum. Kannski geri ég það einhvern daginn, því að hún var skemmtileg.

Við lentum fyrst í Moskvu og gistum þar tvær nætur. Þar skoðuðum við Rauða torgið og ágæta veitingastaði. Ég man að ég fór út á laugardagsmorgni þegar félagar mínir voru að hvíla sig og gekk að Rauða torginu sem var í göngufæri frá hótelinu. Þar var þá nokkur mannsöfnuður kominn saman í einu horninu, allt fólk nokkuð aldurhnigið. Einn talaði þó eins og frelsaður hvítasunnumaður og ég sá að gamlar konur með skuplur héldu á spjöldum með mynd á. Þegar betur var að gáð reyndist þetta vera enginn annar en Jósef Djúgasvili, sem þekktari er undir nafninu Stalín. Ætli kæmu ekki fleiri núna til þess að heiðra hann?

Af ferðinni til Tjeljabinsk er það að segja að þar hittum við fimm unga Rússa af gyðingaættum sem höfðu eignast nikkelverksmiðju eftir hrun Sovétríkjanna. Núna væru þessir menn eflaust kallaðir ólígarkar, en það nafn þekktum við ekki þá. Ég man að sumir þeirra voru einhverjir best klæddu menn sem ég hef séð, í fötum frá dýrustu hönnuðum heims, allir með bindi og í glæsilegum skóm úr skínandi leðri. Fundaherbergin voru skreytt með dýrindis vösum og höggmyndum. Allri bjuggu þessir menn í Vínarborg og þar voru konur þeirra og börn.

Svo vorum við leiddir út í skóg þar sem var ekkert að sjá nema afgamlan sovéskan jarðbor og tré. Svo bentu þessir nýju kunningjar okkur á jörðina og sögðu að þarna yrði borað. Eitthvað messuðu þeir um borkjarna og jarðlög, en mér datt í hug að svona hefði máltækið um gull og græna skóga orðið til.

Gísli virðir fyrir sér kræsingarnar

Um kvöldið buðu þeir okkur að borða í gömlum timburskála, ekki ósvipaðan skíðaskálanum í Hveradölum. Þetta hafði verið ungmennafélagsheimili á sovéttímanum. Þar voru glæsilegar veitingar, sem fóru þó misvel í maga einhverra, ef ég man rétt. Ég tók sérstaklega eftir karöflum á borðinu. Ég gerði ráð fyrir að þær væru fullar af vatni, en mér fannst þjónarnir hella glösin óþarflega full, alveg að börmum. Þegar maður ætlaði að dreypa á vatninu kom í ljós að þetta var reyndar vodka, sem sessunautar mínir rússnesku drukku af sömu áfergju og maður úr eyðimörkinni sötrar vatn. Til málamynda dýfði ég tungunni ofan í glasið, en ef það sást millimetra borð var samstundis bætt á. Þetta var svipað og þegar Þór teygaði af horninu hjá Útgarða-Loka, aldrei lækkaði í glasinu hversu hraustlega sem drukkið var.

Borðhaldið byrjað. Gísli þriðji frá hægri, ég lengst til hægri. Gísli varð sólbrúnn af því einu að líta út um gluggann.

Rússunum fannst mikið til Gísla koma og fannst hann vera foringi hópsins, ekki síst vegna þess að hann kæmi frá Litlu-Moskvu. Hann lét þess auðvitað ekki getið þarna að hann væri ekki einn af trúbræðrum gömlu sossanna, en það hefði engu máli skipt því að kommúnisminn átti ekki upp á pallborðið hjá þessum mönnum. Þetta var nokkrum dögum eftir að Gísli hélt upp á sextugsafmæli sitt og ég sló í glas og sagðist vilja halda afmælisræðu fyrir hann sem og ég gerði í léttum dúr. Ég sagði að Gísli væri í miklum metum í Mekka sósíalismans á Íslandi. Rétt eins og Rússar töluðu um Móður Rússland töluðu heimamenn um Föður Gísla. Líklegast þætti mér að þegar hann kæmi heim yrði reist af honum stytta, auðvitað úr skíra gulli. Að þessu var gerður góður rómur og Gísli var ánægður með kvöldið.

En það var ekki að ástæðulausu að tala um Föður Gísla, því í ferðinni talaði hann oft um Kristínu sína og börnin, sem hann var afar hreykinn af.

Svo fórum við heim eftir skemmtilega ferð, en engum datt í hug að kaupa hluti í gullnámunni sem ég veit ekki hvort nokkurn tíma varð til. Olígarkarnir fimm hurfu svo nokkrum árum síðar frá Rússlandi og lifa líklegast í vellystingum í Vínarborg eða á Rívíerunni. Hafi fundist gull hvarf það eflaust með þeim.

Ég hélt svolitlu sambandi við Gísla, þótt ekki væri það mikið. Skyndilegt fráfall Kristínar varð honum mikið áfall og hún öllum harmdauði, sem von var. En þótt stundum blési á móti, fannst mér alltaf lýsa af Gísla hlýju. Hann hvatti mig áfram í mínum baráttumálum og ég leit á hann sem góðan vin.

Með þessum minningaþætti um nokkra daga sem við eyddum saman fylgja myndir úr Rússlandsferðinni. Mér finnst vænt um myndina af Gísla með loðhúfuna, hlýjan og glettið brosið skína úr svipnum. Hann var drengur góður.

One comment

  1. Kærar þakkir fyrir að deila þessari sögu með okkur ❤️ Mig rámar í einhverja Rússlandsferð pabba þegar ég var barn og minnir mig að við vorum ekkert alltof spennt fyrir þeirri ferð hans 🙈
    En það hlýjar manni um hjartarætur hvað það voru margir sem horfðu upp til pabba eins og við systkinin og fengu að kynnast yndislega og hlýja manninum sem hann var ❤️

    Líkar við

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.