Við erum öll Úkraínumenn

Óli Halldórsson frá Húsavík skrifaði góða greiningu á undanfara innrásar Pútíns í Úkraínu, greiningu sem hjálpaði mér að sjá samhengið í aðgerðum þessa siðblinda og siðvillta einræðisherra. Listi Óla yfir aðgerðir Rússa er svona:

1. Veikja Bandaríkin

-finna popúlískan bjálfa, styðja sem forseta, skapa sundrung og fasískt andrúmsloft í nokkur ár.

2. Veikja Evrópu/EU

-styðja Brexit, styðja Boris, hjálpa Bretum út úr EU, sundra eins og hægt er.

3. Tryggja Kína

-viðhalda vinskap, tryggja a.m.k. hlutleysi

4. Hindra stækkun NATO og EU í austur

-hóta einhverju reglulega, t.d. olíu og gasi, þá hægir á öllum ferlum.

5. Veikja NATO innan frá

-beita bjálfanum í USA til að búa til ágreining, t.d. um fjárframlög NATO eða eitthvað bara, hræða Stoltenberg persónulega líka með  herbrölti við Noreg.

6. Veikja almennt alþjóðasamstarf

-Draga lappir í sáttmálum, samningum, samstarfi, sundra frekar en sameina.

7. Losna við Merkel

-Hinkra eftir góðu „mómenti“ í forystu í Evrópu til að láta til skarar skríða. Þá er best að Merkel verði farin. Nota „tómið“. 

Óli er félagi í VG og þess vegna vekur þessi greining hans enn meiri athygli mína en ella, en mín kynni af honum benda til þess að hann sé skynsamur maður. Með lista Óla í höndunum ákvað ég að skoða samhengið betur.

Trójuhestar

Um það er ekki deilt að Rússar gátu ekki fengið heppilegri fulltrúa fyrir sig í Hvíta húsið en Trump. Hann vissi lítið um alþjóða stjórnmál og misskildi það litla sem hann vissi. Það var pínlegt að fylgjast með því á ársfundi OECD í París árið 2017 að ekki var hægt að samþykkja ályktun um eflingu frjálsra viðskipta vegna andstöðu fulltrúa Bandaríkjanna. Þeim peningum sem Rússar vörðu í að tryggja kjör Trumps var vel varið frá þeirra bæjardyrum séð.

Áróður Rússa gegn NATO og Evrópusambandinu var líka þaulhugsaður. Þeim tókst að eignast bandamenn í breska Íhaldsflokknum og systurflokkum hans víða um heim, meðal annars á Íslandi. Í gamla daga voru það bara sanntrúaðir kommúnistar sem vörðu illvirki Rússa, en fyrir innrásina voru margir, sem þóttust vera á hægri vængnum hallir undir þeirra áróður. Það er einræðisherrum mikilvægt að eiga málpípur innan sem flestra ríkja, fólk sem dreifir efasemdum, oft heiðarlegt fólk sem á árum áður var kallað „nytsamir sakleysingjar“ eða Trójuhestar.

Íslendingar áttu ekki að mótmæla hertöku Krímskagans annars vegar vegna viðskiptahagsmuna og hins vegar vegna þess að íbúarnir þar tala flestir rússnesku. Ætli Pólverjar fái þá fljótlega tilkall til hluta af Íslandi vegna þess að hér eru margir fæddir í Póllandi?

Dyggustu stuðningsmenn Trumps og Pútíns hafa verið á Morgunblaðinu, þótt allra síðustu daga séu leiðararnir svo óljósir að maður er ekki viss um að höfundur viti sjálfur hvaða afstöðu hann hefur. Í morgun skrifar hann: „Ekki er alltaf auðvelt að finna skýringu sem gengur upp í ávörðunum Pútíns, en þó má glitta í hana að þessu sinni. Pútín hefur fært fyrir því „fræðileg“ og pólitísk rök að Úkraína sé ekki til sem ríki og því sé fráleitt að umgangast það sem slíkt.“

Langvarandi áróður hér á landi gegn Evrópusambandinu og gleði einangrunarsinna yfir Brexit hefur veikt vestræna samstöðu, því að þótt margir Íslendingar geri lítið úr áhrifamætti Íslands þá er einangrun landsins veikleiki, bæði fyrir Íslendinga og nágrannaþjóðirnar.

Allt sem við viljum er friður á jörð

Sem betur fer er samúð langflestra Íslendinga öll með Úkraínumönnum. Sumir segjast fyrst og fremst vilja frið og það viljum við öll. En John Stuart Mill skýrði það vel hvers vegna ekki má fórna öllu fyrir friðinn:

„War is an ugly thing, but not the ugliest of things: the decayed and degraded state of moral and patriotic feeling which thinks that nothing is worth a war, is much worse. When a people are used as mere human instruments for firing cannon or thrusting bayonets, in the service and for the selfish purposes of a master, such war degrades a people.

A war to protect other human beings against tyrannical injustice; a war to give victory to their own ideas of right and good, and which is their own war, carried on for an honest purpose by their free choice, — is often the means of their regeneration.

A man who has nothing which he is willing to fight for, nothing which he cares more about than he does about his personal safety, is a miserable creature who has no chance of being free, unless made and kept so by the exertions of better men than himself.

As long as justice and injustice have not terminated their ever-renewing fight for ascendancy in the affairs of mankind, human beings must be willing, when need is, to do battle for the one against the other.“

Við verðum öll að vera með

Í Mogganum sem borinn var í hvert hús í Reykjavík mátti sjá ýmislegt upplýsandi. Jónas Tryggvason í Moskvu segir að Úkraína hafi verið hluti af rússneska keisaradæminu og aldrei verið sérstakt land. Honum finnst lítið koma til viðskiptaþvingana: „Vesturlönd settu viðskiptahindranir á Rússa 2015 og þeir svöruðu með gagnhindrunum. Þetta olli meðal annars því að mikilvægir markaðir fyrir íslenskan fisk töpuðust. Færeyingar tóku ekki þátt í þessum aðgerðum og héldu sínum mörkuðum.“ Ekki þarf mikinn speking til þess að sjá hvar samúð Jónasar liggur.

Forseti skáksambandsins íslenska fjallar líka um málin í morgun, en forseti alheimssambandsins FIDE, Dvorkovich, er góðvinur Pútíns. „Hann er vinsæll og hefur verið að gera frábæra hluti, ég held að heimurinn vilji hann áfram sem forseta. Hann er náttúrlega fyrrverandi varaforsætisráðherra og vel tengdur.“ Hér virðist sú skoðun sett fram að vegna þess að Dvorkovich sé góður gæi og hafi reddað miklum pening eigi hann að vera undanþeginn aðgerðum gegn Rússum og vinum Pútíns. Vonandi verður þessi skoðun ekki ofan á í sambandinu.

Jafnvel í Vísbendingu heyrðist svipað sjónarmið í 8. tbl. : „Einnig væri ósanngjarnt fyrir vestrið að láta rússneskan almenning gjalda um of fyrir hernaðarbrölt Pútíns. Refsiaðgerðir gegn landinu ættu því að miðast að mætti ríkisstjórnarinnar og stjórnarelítu landsins, en ekki viðamiklum viðskiptabönnum hjá fyrirtækjum sem eru ótengd ríkinu.“

Þegar þjóð ræðst algjörlega að tilefnislausu á nágranna sinn er það ekki verk eins manns. Vissulega er það Pútín sem togar í spottana, en hann situr í skjóli þjóðarinnar og meðan hún leyfir honum að sitja verður hún að taka afleiðingunum. Líka almenningur og góðu gæjarnir sem redda peningum.

Þess vegna eiga Íslendingar að taka þátt af fullum krafti í aðgerðum gegn Rússum. Meðan einn einasti rússneskur hermaður er í Úkraínu eru Rússar ekki húsum hæfir í samfélagi þjóðanna.


Myndin er tekin á frelsistorginu í Kænugarði sumarið 2018.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.