Allir þekkja frasann um að vald spilli fólki. Dæmin um þetta eru býsna mörg, en eflaust ekki án undantekninga. Svo vill til að í gær skrapp ég á bókamarkaðinn og keypti öðru sinni bókina Ódáinsakur eftir Jón Karl Helgason. Þar skrifar Jón um muninn sem er á manninum sjálfum og þeirri mynd sem aðrir sjá af honum. Þannig getur maðurinn Kjarval hafa verið ólíkur fígúrunni Kjarval sem almenningur þekkti. Sumir vilja búa til af sér ákveðna ímynd. Þegar kveikt er á hljóðnema eða myndavél breytast þeir. Í stað þess að vera það sem hann er, verður viðmælandinn sá sem hann vill að aðrir haldi að hann sé. Oftast eru þetta slæm skipti. Mönnum fer best að vera þeir sjálfir.
Mörgu fólki hef ég kynnst af fjölmiðlum sem um mig fer hrollur þegar það birtist á skjánum eða heyrist í útvarpi. Ég er örugglega ekki einn um það, en jafnframt er örugglega til hópur sem slefar af hrifningu þegar hann heyrir þennan sama boðskap. Þetta er í sjálfu sér ekki í frásögur færandi. Hitt kemur mér aftur á móti oft á óvart að þegar ég hitti þetta sama, algjörlega óþolandi fólk þá reynist það vera hið ljúfasta. Fýlupúkinn leikur á alls oddi, hinn viðskotailli viðmælandi fréttamannsins er kurteis og prúður, væmna listakonan er skynsöm og viðkunnanleg í návígi.
Í myndunum um Elísabetu Englandsdrottningu var sagt frá því að hún hefði á einni nóttu breyst úr ungri konu í virðulegan þjóðhöfðingja, Filippusi manni sínum til hrellingar. Fas hennar breyttist um leið og hún var komin í nýtt hlutverk. Líklegast var þetta eins gott því að þetta hlutverk hefur hún þurft að rækja í 70 ár. Þegar hún tók við voru aðalleikararnir úr seinni heimsstyrjöldinni enn á valdastólum víða, Churchill í Bretlandi, Eisenhower í Bandatíkunum og Stalín í Sovétríkjunum. Fyrir kaldhæðni örlaganna lifir hún það að sjá leiðtoga í Rússlandi sem dreymir um um endurreisa Sovétríkin og sér sjálfan sig sem hinn mikla leiðtoga.
Ekki kann ég að sálgreina fólk, síst af öllu þjóðarleiðtoga. Samt held ég að það sé eitthvað heilkenni sem margir foringja þjást af. Að sumu leyti eru þeir að uppfylla eftirspurn. Margir hrífast af hinum sterku mönnum. Þeir uppfylla væntingar um ímynd viturs og strangs foreldris fyrir þjóðina. Sagt var í Moskvu á tíma sýndarréttarhalda, hungursneyðar og aftaka: „Bara ef Stalín vissi af þessu, þá myndi hann stoppa það strax.“ Tengdamóðir mín bjóst alltaf við því að Gorbachev, forseti Sovétríkjanna, myndi grípa í taumana þegar Rússar börðu niður sjálfstæðistilburði Litháa, ef honum væri ekki haldið utan við ákvarðanatökuna. Hún var viss um að Gorbi væri svo góður maður að hann gerði ekki svona.
Pútín hefur á sér yfirbragð foringja, leiðtoga. Madeleine Albright lýsir breytingunni frá hinum sjarmerandi og sífulla Jeltsín: „Pútín er lítill og fölur, kaldur nánast eins og snákur. … Hann er ákveðinn í að gera land sitt aftur að stórveldi.“ Heimurinn hefur brosað að tilburðum hans til þess að verða stór. Hann varð að finna forsætisráðherra sem var minni en 1,63 m svo hann virtist meðalmaður. Þegar Macron Frakklandsforseti kom í heimsókn vakti það athygli að borðið milli þeirra var margra metra langt, væntanlega svo þeir sæjust ekki hlið við hlið, en Macron er 1,75 m risi. Kannski skýrir lengd borðsins það hvers vegna Pútín heyrði ekki mótbárur Macrons við innrásinni í Úkraínu.
Við sjáum það sama á myndinni af Pútín og „öryggisráði“ Rússlands. Hann situr 10 til 15 metra frá öllum hinum. Í lok fundarins sagði hann: „Ég heyri boðskap ykkar“, en líklega heyrði hann bara bergmálið af eigin yfirlýsingum.
Nú veltir fólk því fyrir sér hvort Pútín sé genginn af göflunum, sé geðbilaður eða eins og ein vinkona mín sagði: Illmenni. Líklegast finnst mér að hann sé siðblindur. Hann eitrar fyrir andstæðingum sínum eða setur þá í fangelsi.
Siðblinda skortir hæfileika til að setja sig í spor annarra og finnst sem þeir séu hafnir yfir lög og rétt. Sagt er að hjá þeim sé starfsemi óvenjudauf á heilasvæðum sem móta tilfinningaleg viðbrögð, eins og kvíða, iðrun og réttlætiskennd. Blygðunar- og óttaleysi er ekki til trafala í stjórnmálum eða viðskiptum og sumir álíta, án þess að það sé fræðilega staðfest, að siðblindir menn njóti oft velgengni. Eðli málsins samkvæmt er erfitt að vara sig á slíkum mönnum, tunguliprum, óttalausum og blygðunarlausum, og því er sem stendur erfitt að veita önnur ráð en almenna varkárni til að verjast slíkum sendingum.1
Fyrir nokkrum árum var upplýst um höll Pútíns í Sochi, byggingu sem hann kannast auðvitað ekkert við. Hann hefur setið við völd í meira en 20 ár og gæti notið valdanna langt fram yfir áttrætt. Nú býr hann til nýjan sannleika að hætti Hitlers og Göbbels og strengjabrúður hans um heim allan enduróma hann.
Nú situr hann í höllinni í Kreml líkt og Stalín áður og fyrirskipar að ungir piltar fari og drepi venjulegt fólk til þess að hann verði kallaður Pútín mikli. Hann er í raun svona lítill karl.
Íslenskir vinir mínir hafa sumir ekki trúað því að þessi yfirvegaði maður myndi fyrirskipa innrás í sjálfstætt ríki. Þeir hafa jafnvel étið upp þvælu um að hann sé að frelsa eða vernda Rússa sem af einhverjum ástæðum hafi lent innan landamæra þeirra. Íslendingar eigi ekki að skipta sér neitt af deilunni því að þeir séu svo litlir og smáir að þeir hafi ekkert að segja. „Margur er knár þótt hann sé smár“ hefði Pútín, átrúnaðargoð þeirra, getað sagt, ef orðið smár væri til í hans sjálfslýsingu. Vissulega hafa margir séð ljósið eftir að hann réðst inn, sem er skárra en aldrei. Hinir sem enn tala um að Íslendingar eigi að setja viðskiptahagsmuni framar stuðningi við frjálsa þjóð mega skammast sín.
1 Hér styðst ég við lýsingu á siðblindu frá Sigurði J. Grétarssyni og Ástu Bjarnadóttur í grein í Vísbendingu.
Sjá einnig EF ÞIÐ VISSUÐ HVAÐ MIG LANGAR MIKIÐ TIL ÞESS AÐ LIFA