Glaðlynd vinkona kvödd – Anna Kristine Magnúsdóttir

Fyrst man ég eftir Önnu Kristine Magnúsdóttur á sunnudagsmorgnum í útvarpinu. Mér fannst nafnið á þættinum hennar svolítið sniðugt, Milli mjalta og messu, og hann var líka skemmtilegur. Þetta var meðan margir hlustuðu á útvarp og þátturinn vakti athygli og umtal. Hann var svo vinsæll að Bylgjan stal honum af Ríkisútvarpinu. Svo hætti hann á endanum, mörgum til mæðu. Þetta var þegar kostun þátta var lausnarorðið. Gantast var með að sölumönnum hefðu ekki dottið neinir borgunarmenn í hug nema Bændasamtökin og þjóðkirkjan á þætti með þetta heiti.

Anna Kristine tók að sér um tíma ritstjórn Skýja, blaðs sem Heimur gaf út fyrir innanlandsflug Flugfélag Íslands, sem það hét þá. Áður en ég leitaði til hennar spurðist ég fyrir um hana hjá fyrrum samstarfsmönnum hennar og þeim lá afar gott orð til hennar. Hún reyndist líka trygglyndur starfsmaður sem hélt góðu sambandi við blaðið og skrifaði í það greinar og tók fyrir það viðtöl mörg ár eftir að hún hætti ritstjórn. Þá kynntist ég líka svolítið Lizellu dóttur hennar, sem skrifaði líka stundum í Ský.

Stundum lá mikið á að skila greinum fyrir lokafrest, sem gat reynt á taugarnar. Einu sinni tók Anna saman stutt viðtöl við þingmenn, sem höfðu engan skilning á orðinu skilafrestur. Hún þurfti því að hringja í þá ítrekað, en skilaði greininni í tæka tíð. En það tók á. Hún sagði í tölvupóstinum með greininni: „Er greinilega þreytt því hingað mættu skyndilega tveir menn frá Securitas, ég hafði ýtt á árásarhnapp á fjarstýringunni!“

Ekki má gleyma Elínu mömmu hennar sem ég hitti aldrei, en Anna talaði oft um og sagði mér að hún væri einlægur stuðningsmaður minn í pólitíkinni. Það þótti mér vænt um að heyra og ég hugsaði með hlýju til þeirra mæðgna allra. Anna hafði lag á að segja hluti fallega.

Síðustu árin voru Önnu erfið. Ég heyrði reglulega frá henni en hitti hana sjaldan. Það var augljóst að hún var mikið veik, en hún var jákvæð og glaðlynd, þó að margt væri henni mótdrægt. Hún átti stundum erfitt með að fá svör frá Kerfinu. Þegar ég reyndi að aðstoða hana var eins og Kerfinu fyndist það óþarfa truflun að eitthvað fólk vildi vita hvaða rétt það ætti og byggist við svörum.

Hún sendi mér síðast kveðju á Facebook 4. janúar, jákvæð að vanda: „Fallegur pistill og ljóðið einstaklega fallegt.“ Tveimur dögum seinna var hún öll.

Ég læt ljóðið fallega úr Hugsvinnsmálum fylgja. Það á vel við um þessa góðu vinukonu:

Hyggindi þín
láttu að haldi koma
þér og þínum vinum.

Æðri sýslu
máttu eigi hafa
en kenna nýtt og nema.

Lizellu sendi ég hugheilar samúðarkveðjur. Missir hennar er mikill.


Ljósmynd: Sverrir Vilhelmsson, mbl.is

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.