Ef þið vissuð hvað mig langar mikið til þess að lifa

Það er óhugur í mér vegna ástandsins í Úkraínu og Rússlandi. Þeir sem þekkja söguna sjá að hún endurspeglar sig í nútímanum. Hitler gerði kröfu um hvert landsvæðið á fætur öðru vegna þess að þar bjuggu Þjóðverjar. Hann tók Rínarhéruðin árið 1936, þar bjuggu Þjóðverjar. Þau áttu að vera vopnlaus eftir fyrri heimsstyrjöldina, en Hitler treysti því að ekkert land myndi grípa til vopna út af þessu.

Hann innlimaði Austurríki í Þýskaland árið 1938. Þar bjó þýskumælandi fólk rétt eins og nú og skömmu eftir innrásina fengu Austurríkismenn að greiða atkvæði um gjörninginn. Nær allir samþykktu hann, enda var svo þægilega búið um hnútana að einungis þeir sem voru á móti sameiningu þurftu að fara inn í kjörklefa. Hinir gátu stungið seðlinum beint í kassann.

Svo krafðist Hitler þess svo að fá Súdetahéruðin í Tékkóslóvakíu, því þar voru margir þýskumælandi. Evrópuveldin komu saman í Munchen árið 1938 og sviku Tékka undir yfirráð Hitlers. Chamberlain, forsætisráðherra Breta, lýsti því yfir að svikasamkomulagið tryggði „Frið á okkar tímum.“ Innan við ári seinna braust seinni heimstyrjöldin út.

Árið 2014 innlimaði Pútín Rússaforseti Krímskagann, sem var hluti Úkraínu. Þar var meirihluti íbúa af rússnesku bergi brotinn.

Í austurhéruðum Úkraínu er sama sagan. Meirihlutinn þar talar rússnesku í daglegu lífi og Pútín vill frelsa þennan hóp úr greipum Úkraínumanna.

Hann kærir sig ekki um að Úkraína gangi í vestrænt varnarbandalag eða efnahagsbandalag. Svo vill hann líka veikja varnir Eistlands, Lettlands og Litháens. Þar eru líka Rússar.

Árið 2014 hrökklaðist þáverandi forseti Úkraínu, Viktor Yanukovych, frá völdum. Það voru mótmæli gegn honum á götum Kíev þegar hann lýsti því yfir að hann vildi hverfa frá náinni samvinnu við Vesturlönd og treysta böndin við Rússland. Herinn fékk skipun um að skjóta á mótmælendur.

Ég kom til Kíev árið 2018. Þá var sýning á torginu í miðbænum með tilvitnunum frá baráttunni árið 2014. Einhver Ulyana Zhuravchak sagði:

„Við stóðum bara á Instytutskastræti, enginn snerti nokkurn mann og þá heyrðist skothvellur! – ég sneri við og Sasha lá á jörðinni … kúlan hafði hæft hann í brjóstið en hann var enn á lífi …

Læknarnir hlupu hratt til okkar og saman drógum við Sasha til hliðar, þeir skoðuðu hann – en, því miður varð úrskurðinum ekki snúið við – læknarnir sögðu að það væri engin von um að hann lifði af – því kúlan hafði farið beint í hjartað … Sasha heyrði þetta allt, þetta voru síðustu sekúndurnar í lífi hans … Og veistu hvað var hræðilegast af öllu!? – Það voru hans hinstu orð sem ég mun muna meðan ég lifi! Sasha sagði: Ef þið vissuð hvað mig langar mikið til þess að lifa !!!! … … hve mikið mig langar til þess að lifa … og þá var því lokið … eftir að hann sagði þetta lokaði hann augunum … lokaði þeim að eilífu …

Ég grét … nei! – Ég grét ekki, ég kjökraði …“

Það getur vel verið að ráðamenn í Úkraínu séu ekki bestu menn í heimi. Líklega ekki. Forsetinn kom fyrir eins og hálfgerður kjáni þegar Trump hringdi í hann. Svo voru líka margir Úkraínumenn sem snerust á sveif með nasistum þegar Þjóðverjar réðust inn í Sovétríkin árið 1941.

En skiptir þetta máli? Á almenningur í Úkraínu að gjalda fyrir syndir afanna eða langafanna?

Margir átta sig illa á því hvað Pútín vill. En hann hefur lesið söguna og hann veit að það er ólíklegt að vestræn ríki kippi sér upp við það ef hann ræðst inn í Úkraínu og nælir sér í sneið af landinu. Heima fyrir verður hann vinsæll sem hinn sterki foringi. Hitler var vinsæll þangað til hann fór að tapa.

Ég var að lesa bókina Vopnin kvödd eftir Hemmingway í þýðingu Halldórs Laxness. Hún gerist á Ítalíu á seinni hluta fyrri heimstyrjaldarinnar. Ítalir eiga í stríði við Austurríkismenn og eru komnir á vigstöðvarnar. Það er Passíni sjúkrabílstjóri sem talar:

– Það er ekkert eins vont og stríð. Við á sjúkrabifreiðunum gerum okkur varla ljóst hvað það er vont. Þegar fólki verður ljóst hvað það er vont þá getur það ekkert gert til að stöðva það af því það verður vitlaust. Það er til fólk sem verður það aldrei ljóst. Það er til fólk ssem er hrætt við foringjana sína. Úr þesskonar fólki er bíð til stríð.

– Ég veit að það er vont en við verðum að binda einhvern enda á það.

– Það endar ekki. Það er ekki til neinn endir á stríði.

– … Stríð verður ekki unnið með sigri. Ef við tökum [hverja borgina á fætur annarri] hvað þá? Hverju erum við bættari? Sáuð þið öll fjöllin lengst í burtu í dag? Haldið þið að við gætum tekið þau öll líka? Já því aðeins Austurríkismenn hætti að berjast. Það verður að hætta að berjast öðruhvorumegin. Af hverju hættum við ekki að berjast? Ef þeir komast ofan í Ítalíu þá verða þeir þreyttir og fara burt. Þeir hafa sitt eigið land. En nei, í stað þess er stríð.

– … Við hugsum. Við lesum. Við erum ekki sveitamenn. Við erum vélamenn. En jafnvel sveitamennirnir eru vitrari en svo að þeir trúi á stríðið. Allir hafa andstyggð á þessu stríð.

– Það er stétt sem ræður landi og er heims og skilur ekki neitt og mun aldri skilja. Þessvegna er þetta stríð.

– Þeir hafa líka peninga uppúr því.

– Fæstir þeirra hafa nokkuð uppúr því. Þeir eru of heimskir. Þeir eru að þessu til einskis. Af heimsku.

Eftir þessa ræðu fengu Passíni og félagar hans sér makkarónur, ost og vín með ryðbragði. Gefum sögumanni orðið:

„Ég át endann af ostbitanum mínum og saup gúlsopa af víni. Gegnum annan hávaða heyrði ég hvæs, síðan tsjö-tsjö-tsjö-tsjö – þá var glampi, eins og hurð á járnbræðsluofni væri hrundið á gátt og öskur sem byrjaði hvítt og var rautt og og áfram í æðandi stormi. Ég reyndi að anda en náði ekki andanum og ég fann sjálfan mig æða líkamlega útúr sjálfum mér og út og út og út og alltaf var ég líkalega í storminum. Ég hvarf allur burt í einni svipan og vissi að ég var dauður.“

En það var reyndar Passíni bílstjóri, stríðsandstæðingurinn mikli sem var dauður.


Myndin er stílfærð útgáfa af ljósmynd eftir Oleksandr Ratushnyak af mótmælunum í Kíev þann 22. janúar 2014.

One comment

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.