Að éta nærbuxurnar sínar – leikurinn frá sjónarhóli Frakka

Ég verð að játa að ég þorði varla að horfa á leikinn í gær. Í Danaleiknum horfði ég á tvær mínútur, en þar var ég reyndar búinn að spá því að Íslendingar töpuðu 37-28, þannig að í raun voru úrslitin þar sigur. „Bjóst einhver við því í alvöru að við ynnum heimsmeistarana?“ spurði einhver spekingurinn og beið ekki eftir svari.

Væntingastjórnun er afar mikilvæg í lífinu, ekki síst í handbolta. Ég man eftir því fyrir 35 árum eða svo þegar við kepptum við Suður-Kóreu í heimsmeistarakeppninni. Leikurinn átti bara að vera formsatriði, hvíld milli alvöruleikja. Niðurstaðan var sú að Kóreumennirnir, sem virtust reyndar frekar hafa æft fimleika en handbolta, rúlluðu yfir okkur. Yfir landinu var sorgarský og ég greip til þess ráðs að bursta skóna mína til þess að reyna að gleyma. Daginn eftir tók ég eftir því að annar hver maður sem ég hitti var í glansandi skóm.

Frakkar eru auðvitað ólympíumeistarar. Á vef stórblaðsins Le Monde mátti fyrir leikinn sjá yfirlýsingu frá franska handboltasambandinu um að veiran hefði komið við á þeim bæ, Kentin Mahé hefði komið jákvæður úr prófi. Í fréttatilkynningunni kom samt fram að „sem betur fer yrði hann kominn aftur til þess að spila í undanúrslitunum“. Blaðið sjálft sagði að með sigri yrði liðið komið skrefi nær undanúrslitum. Það hélt því vel á loft þegar Fabregas var settur til hliðar vegna hósta, en viðurkenndi samt að Íslendingar hefðu líka misst nokkra (sex sagði blaðið og tiltók aldrei að það væru í raun átta), enda hvaða máli skipti það í þessum formsatriðisleik?

Í fjasinu fyrir leikinn var sagt frá því fyrst Aron Pálmason væri ekki á staðnum væri gott að fylgjast með Ómari Magnússyni. Ekki minnst á aðra.

Leikurinn fór af stað og allt rólegt í lýsingunni frönsku. Sjálfur var ég að lesa bók meðan á þessu stóð. Heyrði óminn af lýsingu á íslensku, en engin sérstök fagnaðarlæti.

Le Monde segir frá því að Íslendingar séu komnir framúr „í bili“. Staðan var 4 – 6. Skömmu síðar kíkti Vigdís inn til mín og sagði mér að Ísland væri yfir 9 – 5. Þjálfari Frakka tók leikhlé og sagði sínum mönnum að fara ekki á taugum þótt Íslendingar væru yfir. Þeir hlustuðu ekkert á það.

Loksins lagði ég frá mér bókina og kíkti á sjónvarpið. Var samt í miklum vafa um hvort það væri þorandi, Frakkar væru örugglega búnir að jafna. En, viti menn! Staðan var 12-8 og ég taldi óhætt að staldra aðeins við.

Einhver skrifar blaðamanni Le Monde á spjallinu og spyr hvort þetta hafi verið fyrirséð. Svarið er löng heimspekiþvæla um hvort allt sé fyrirfram ákveðið sem gerist í heiminum, eða hvort allt geti gerst í íþróttum.

Staðan er 13 – 8 og á spjalli Le Monde er spurt hvort íslenski markmaðurinn sé 12 ára. Annar veltir því fyrir sér hvort leikplan Frakkanna sé að vera undir fimm mörkum í hálfleik og vinna svo leikinn með einu marki. Á meðan blaðamaðurinn er að svara þessu breytist staðan í 14 – 9. Svo 15 – 9 og Daníel Ingason skorar í tómt mark Frakkanna. 16 – 9.

Hálfleikur 17 – 10 og franski sjónvarpsþulurinn segir: „Það er ekki hægt að leika svona illa.“ Le Monde ver sína menn og segir að þetta sé allt Viktori Gísla og Ómari Inga að kenna. Mér finnst reyndar Frakkarnir ekki leika neitt illa, en vörnin, markvarslan og sóknin hjá Íslendingum stórkostleg.

Vigdís mín fer að tala um hve vel Ísland standi, en ég banna henni að tala svona. „Leikurinn er ekki búinn!“ segi ég.

Í Frakklandi segir einhver: „Það er í lagi þó að við töpum, við skoruðum flott mark með snúningsbolta.“ Le Monde svarar að kannski sé bæði hægt að vinna og skora flott mark.

Seinni hálfleikurinn byrjar og fljótlega fagna Frakkar því að munurinn sé kominn í sex mörk, en Ómar skorar um hæl. „Ómar drepti mig“, segir einhver í franska kommentakerfinu, sem mun vera vísun í eitt frægasta sakamál Frakklands síðustu áratuga1.

Annar lofar því að éta nærbuxurnar sínar ef Frakkar vinna.

Vigdís veltir því fyrir sér hvernig staðan sé eftir sigur Íslendinga. „Þú mátt ekki tala svona“, segi ég. „Ég veit þá hverjum það verður að kenna ef Ísland tapar“, en þetta hugsa ég bara.

Munurinn minnkar ekkert, Frökkum til hrellingar. Á spjallinu er spurt hvort umsjónarmaðurinn kunni ekki góðan brandara. Hann reynir, en brandarinn er ekkert sérstaklega góður. Ein tilkynnir að mamma hennar sé að baka pönnukökur. „Það er huggun í því“ svarar blaðamaðurinn. Enginn segir að hann sé að bursta skóna sína.

„Við höfum sjö mínútur til þess að jafna sjö marka mun.“ Allt í einu uppgötvar umsjónarmaðurinn að Viggó er líka að raða inn mörkum.

Þrem mínútum seinna spyr einhver: „Ef svo færi að við töpuðum (hugsanlega) hvað verður þá?“ og umsjónarmaðurinn reynir að svara því. Telur að Danmörk verði erfiðasti hjallinn (Svartfjallaland væntanlega formsatriði eins og Ísland).

Ein mínúta eftir og enn sjö marka munur. Ég tel loksins óhætt að Vigdís njóti sigursins í þessum leik svo fremi að hún nefni ekki þá næstu.

Átta marka munur, en víti Frakkanna í lokin.

Hallgrímsson varði. „Rúsínan í pylsuendanum“ segir franski blaðamaðurinn.

Ekkert lát á útskýringum frá Frakklandi: „Vantaði lykilmenn, vantaði þjálfarann, … Svo var stöðugt klappað fyrir Íslendingunum meðan það var dauðaþögn eftir okkar snilldartilþrif.“

Ég horfi á Óla blása sápukúlur og þá alla þrjá í handboltastofunni í rús.

Frakkarnir segja á sama tíma: „Þeir átu okkur gjörsamlega. Við vorum ekki á staðnum.“ Ég skil ekki hvernig hægt er að éta einhvern sem er ekki á staðnum. En maðurinn slapp við að éta nærbuxurnar sínar.

Nú er bara að passa að Vigdís mín tali ekki af sér meðan á hinum leikjunum stendur.


1 Gísli Egill Hrafnsson benti í athugasemd á FB á að þessa tilvísun má rekja til frægs morðmáls. Gömul kona fannst myrt árið 1991 og hjá líkinu hafði verið skrifað með blóði „Omar m’a tuer“, sem er stafsetningarvilla, hefði átt að vera „Omar m’a tuée“, en þessi frasi varð víst vinsæll á tíunda áratug 20. aldar. Sjá hér.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.