Ég hitti Smára í fyrsta sinn í Skeiðarvoginum sumarið 1972. Hann var á Volvó foreldra sinna. Sjálfur var ég með vinnufélögum mínum tveimur, Gogga og Jóa, strákum sem ég hafði kynnst í sumarvinnunni. Í bæjarvinnunni var ólympíuhugsjónin í heiðri höfð: Aðalatriðið var ekki að vinna heldur að vera með. Þetta var fyrsta kvöld sem ég var með þessum nýju félögum mínum sem ég mundi vel eftir úr landsprófi í Vogaskólanum, þótt við værum ekki í sama bekk. Þau kvöld áttu eftir að verða mörg.

Volvóbílstjórinn var mér ráðgáta. Hvers vegna mundi ég ekki eftir honum úr Vogaskólanum eins og hinum? Það skýrðist. Mamma hans hafði sent hann í Skógaskóla í landspróf til þess að vernda hann frá sollinum í Reykjavík. Ekki grunaði mig þetta kvöld að þessi prúði piltur ætti eftir að vera einn af mínum bestu vinum í næstum hálfa öld.

Skömmu síðar rugluðum við Vigdís saman reytum okkar. Hún hafði verið í Vogaskóla í bekk með Smára og Stefáni Hafstein frá upphafi vega, en nú vorum við öll hinir mestu mátar og vinaböndin treystust enn. Alla tíð hafa þeirra barnaskólaminningar sett svip sinn á okkar spjall, meðal annars þegar þau Vigdís og Smári voru valin fallegust í bekknum, hvort af sínu kyni. Smekklegt val tel ég. Þótt ég hafi meira vit á fegurð kvenna en karla get ég þó staðfest að Smára var stundum ruglað saman við hjartaknúsarann Ómar Schariff, þannig að valið á honum var líklega býsna gott líka.

Ekki þurfti löng kynni til þess að átta sig á því að Smári var bæði traustur maður og vinur. Hann var hægari en við Goggi og Stefán, ráðagóður og jafnlyndur, sem ekki var sjálfgefið á þessum árum. Honum fannst stundum nóg um mannalætin og jafnvel fíflalætin í okkur. Þeir Smári og Goggi (Þorgeir Rúnar Kjartansson) voru miklir mátar í menntaskóla og vinir þar til Goggi dó rúmlega fertugur.

Nokkur ár liðu og Smári eignaðist kærustu, Ingibjörgu Hafstað, sem var svo sannarlega happafengur fyrir vin okkar, framtakssöm og glaðlynd stúlka úr Skagafirðinum. Þau hófu starfsferilinn sem kennarar, en tóku þá heilladrjúgu ákvörðun að fara til Danmerkur og komu aftur sem sérfræðingar í tölvum og listum.

Myndlist á Íslandi varð ríkari þegar Viktor Smári hóf störf sem forvörður, sérfræðingur í að gera við og vernda listaverk. Hann vann í nokkur ár á Listasafni Íslands, en stofnaði svo Stúdíó Stafn þar sem hann var eins og segull á listamenn og listunnendur. Margir komu til að njóta þekkingar hans og listfengis við viðgerðir eða val á listaverkum, en ekki síður til þess að spjalla, því hann var einstaklega ljúfur maður í viðkynningu. Var í raun eins konar sálfræðingur og öllum leið vel eftir samræður við hann. Allir fengu ljúfmannlegar viðtökur, hvernig sem á stóð. Hann var einn helsti sérfræðingur landsins í listaverkafölsunum þegar þær komu upp. Enn eimir eftir af því máli. Síðastliðið vor fékk Smári fyrirspurn um Kjarvalsmynd sem eigandinn vildi selja á margar milljónir. Smári fékk senda mynd af henni og svaraði um hæl: „Fölsuð“. Þetta var þá ein af myndunum frá mikla fölsunarmálinu, en þær voru ekki gerðar upptækar.

Smári þekkti alla og kunni af þeim sögur sem voru örugglega enn betri í frásögn hans en þegar þær áttu sér stað. Hann var snjall veiðimaður, fann fiska ef þá var að finna og hafði tilfinningu fyrir góðum veiðistöðum í ám sem hann hafði aldrei veitt áður. Hann hafði sama innsæi í sálarlíf fiska og manna.

Ófáum stundum höfum við varið með Smára og Ingibjörgu á göngu, við veiðar og á ferðalögum í fjarlægum löndum. Stefán og Guðrún, vinir okkar, tóku á móti okkur í Afríku. Þar var ekki hörgull á ævintýrum. Þegar innfæddur á lendaskýlu einni klæða brá saxi, þegar ég ætlaði að mynda hann, dró Smári mig í burtu og því er ég til frásagnar.

Fyrir fjórum árum kenndi Smári sér óþæginda í lungum. Þau reyndust vera krabbamein sem setti mark sitt á líf hans þaðan í frá. Ég dáðist að því með hve miklu jafnaðargeði hann tók erfiðri meðferð, þótt skiptust á vonir og vonbrigði. Við töluðumst við eða hittumst nærri vikulega og gleðistundir voru margar öll árin og hann lét meinið ekki fjötra sig og naut stöðugt hvatningar og stuðnings Ingibjargar. Það var gaman að hitta þau á göngu við gosið við Fagradalsfjall nú í vor.

Jafnvel síðasta árið sem Smári lifði fór hann víða þótt meinið tæki sífellt meiri toll. Við fórum í veiðiferðir, hittumst á Norðfirði sem mér þótti vænt um því mér finnst það næstum minn heimabær, skiptumst á heimboðum og fórum á tónleika. Smári vissi býsna margt um tónlist og tónlistarmenn og enginn átti jafnglæsilegar græjur og hann (og að sjálfsögðu fyrst og fremst spilaðar vínil-plötur).
Hugur okkar Vigdísar og samúð er hjá Ingibjörgu og börnum þeirra Sollu, Dóra og Sæma sem sjá á bak einstökum eiginmanni, föður og vini. Eftir lifa minningar um góðan dreng.
Ég sakna hans mikið og mun sakna hans um ókomna tíð.
En …
Valið er milli trega yfir að eiga ekki fleiri stundir með góðum dreng,
eða
glaðværra minninga um vininn sem var hæglátur en hafði gott innsæi, var hógvær en vissi ótrúlegustu hluti, stundum fannst manni hann vita allt um alla, var hlédrægur en lenti í æsilegri ævintýrum en mann hefði getað dreymt um.
Treginn verður á endanum yfirunninn og góðu minningarnar lifa.

Myndina tók ég í síðasta sinn sem við hittumst. Á aðfangadag færðu Smári og Sæmi sonur hans okkur reyktan silung. Við skiptumst á vinarkveðjum og vorum glaðir, þótt við vissum að kannski yrði þetta í síðasta sinn sem við hittumst. Smári brosti sínu blíða brosi. Svona mun ég alla tíð muna eftir honum.

Vinarhugur
er eins og vatn lindar sem streymir
Ólíkur fannbrynju
Fannbrynja er vatn í svefni
fastasvefni.
Og vinarhugur er sem gras
gróandi gras, döggvað
undir ungum iljum.
Hannes Pétursson Haustaugu
