Gegnheill maður genginn – Þórður Haukur Jónsson

Daginn fyrir gamlársdag dó maður sem ég mat mikils, Þórður H. Jónsson sem áður var framkvæmdastjóri hjá VÍS þar áður aðstoðarforstjóri Brunabótafélags Íslands. Þórði kynntist ég fyrst árið 1987 þegar við seldum Brunabótafélaginu verðbréfakerfið Arð, viðamikið tölvukerfi sem Talnakönnun hafði þróað. Mér er minnisstætt hve góðan þokka Þórður bar af sér, hæglátur maður sem spurði réttra spurninga og kom með góðar ábendingar.

Á þeim tíma var Ingi R. Helgason forstjóri Brunabótar og mér er minnisstætt hve nákvæmlega hann las tölurnar í samningi okkar og marglagði saman. En eftir það komu engin vandamál upp í okkar samskiptum. Ingi sagði oft: „Plott er gott“, en Þórður var honum ólíkur og mér liggur við að segja að hann hafi verið allur þar sem hann var séður, kurteis og nákvæmur maður þar sem ekki þurfti að festa orð á blað til þess að þau stæðu.

Ekki löngu síðar sameinuðust Brunabót og Samvinnutryggingar í VÍS, en ég var orðinn starfsmaður Sjóvá-Almennra. Félögin voru harðir keppinautar á tryggingamarkaðinum og misgott á milli manna, en alltaf var sama vinsamlega andrúmsloftið í minn garð í kringum Þórð og reyndar félaga hans úr Brunabót, Hilmar Pálsson og Inga R. að svo miklu leyti sem við hittumst sem ekki var oft.

Svo hætti Þórður störfum 65 ára en var hvergi nærri þrotinn að kröftum, það held ég að hafi ekki gerst fyrr en á hans síðustu dögum. Hann vann ýmis handtök á endurskoðunarskrifstofu hjá gömlum vini sínum, Guðjóni Eyjólfssyni endurskoðanda, en hann var einmitt endurskoðandi hjá fyrirtæki mínu, Talnakönnun. Þeir voru báðir snjallir í bókhaldi, höfðu unnið bókfærslubikarinn í Versló sitthvort árið. Ég sá þá stundum Þórð á göngum hjá Guðjóni og við áttum vinsamlegt spjall saman.

Reksturinn hjá okkur var orðinn flókinn og mér datt í hug að gott gæti verið að fá fagmann til þess að hjálpa okkur með uppstillingu á bókhaldi. Þórður kom mér strax í hug, en ég var hálffeiminn við að bera upp það erindi og hringdi í Guðjón og sagði honum að ég hefði ekki þekkingu í bókhaldi til þess að koma upp góðu kerfi og við þyrftum hjálp við það. Segir þá meistarinn við mig: „Hann Þórður er hættur verkefnum hjá okkur, en þetta væri upplagt fyrir hann.“ Það gekk eftir, okkur til mikilla heilla.

Þórður kom skipulagi á bókhaldið og í rúman áratug mætti hann til okkar í mánuði hverjum, fékk tölur og kom svo aftur nokkrum dögum seinna með uppstillt bókhald. Hann leysti líka úr öllum okkar spurningum um vandasamar færslur af ljúfmennsku en ákveðni. Ekki þurfti að efast um réttmæti hans svara, enda datt okkur það aldrei í hug. Ég man að hann sagði stundum: „Þegar ég kom var þetta með því verra sem ég hef lent í, en það greiddist úr því öllu.“ Ársreikningurinn var yfirleitt tilbúinn upp úr miðjum janúar.

Þegar Þórður var áttræður eða kannski rétt rúmlega það sagði hann mér að hann vildi hætta. Mig minnir að ég hafi getað fengið hann til þess að fresta því um eitt ár eða tvö, en á endanum dró hann sig í hlé eins og auðvitað hlaut að gerast.

Eftir það sáumst við nokkrum sinnum og það var alltaf gaman að hitta Þórð. Svo fór að ég varð stjórnarformaður VÍS áður en félagið fór á markað og þar hitti ég Þórð stundum þegar fyrrverandi starfsmenn komu saman. Mér fannst það alltaf svolítið gaman að hafa komið að stjórn gamla „erkióvinarins“ en aldrei kom sú samkeppni niður á samskiptum við starfsmenn eins og kynni okkar Þórðar sönnuðu.

Síðustu árin vorum við Þórður vinir á Facebook og hann var las oft færslurnar mínar og veitti þeim sína blessun. Ég sá hann síðast í jarðarför Hilmars Pálssonar, samstarfsmanns hans hjá Brunabót og VÍS.

Þórður var tryggingamaður af gamla skólanum, gegnheiðarlegur maður þar sem allt stóð eins og stafur á bók. Því fór þó fjarri að hann væri fastur í fortíðinni eða gömlum vinnubrögðum heldur tók hann breytingum opnum örmum. Ég er þakklátur fyrir að ég náði að kynnast mörgum af traustu tryggingamönnunum sem ráku tryggingafélögin í lok 20. aldarinnar. Þórður H. Jónsson var sannarlega einn þeirra.

Minningar Þórðar

Þórður skrifaði brotabrot af endurminningum sínum og dreifði í litlu upplagi. Ég var svo heppinn að fá eintak. Það er skemmtileg lesning sem ég fór yfir áður en ég skrifaði þennan pistil. Þórður segir skemmtilega frá og sá oft spaugilegar hliðar á málum. Hann talar bæði minningar úr daglegur lífi og segir frá ýmsu úr viðskiptalífinu. Ég ætla að enda þennan pistil á nokkrum tilvitnunum í texta Þórðar.

Hann segir skemmtilega frá æskuminningum sínum, meðal annars frá jólahaldi:

„Fyrsta jólagjöfin sem ég gaf og þá ekki gamall var póstkort með mynd af Skógarfossi sem prýddi kortið. Mér fannst kortið óskaplega fallegt þar sem ég kom auga á það í búðinni. Einhvern pening hefi ég átt því ég gat keypt kortið til að gefa mömmu í jólagjöf. Mér fannst þetta merkilegasta jólagjöf sem mamma hefði nokkru sinni fengið. Ekki gat ég látið ógert að sýna henni kortið áður en aðfangadagur rann upp, svo ánægður var ég með hvað ég hafði afrekað. Þegar aðfangadagskvöld rann upp setti ég kortið á diskinn hennar mömmu og hún þakkaði mér mikið og vel fyrir gjöfina.“

Maður sér fyrir sér stoltan drenginn og móðurina sem kunni að taka á móti þessari glæsilegu gjöf. Mér fannst þetta falleg mynd.

Þegar Þórður hóf störf hjá Brunabótafélaginu var gamli tíminn sannarlega við líði. Þá voru ekki tölvur, en þó reiknivélar. Hann segir skemmtilega frá:

„En gamli tíminn leyndi sér ekki þegar ég hóf störf á skrifstofunni. Strimilinn í samlagningarvélinni varð að nota tvívegis. Það mátti ekki slíta hann í sundur. Þegar hann hafði runnið sitt skeið á enda varð að vinda hann upp að nýju og nota bakhliðina. Þessari fjarstæðu hlýddi ég ekki lengur en eina viku.

Aðeins var til ein tíutakka samlagningarvél sem hafði verið notuð af Sigurjóni og enginn annar mátti snerta. Mér áskotnaðist vélin þegar ég hóf störf. Hún var svo hávær að lætin minntu mig alltaf á höggin í blaðapressu í prentsmiðju. Sigurjón sagði við mig að mikill kostur væri við vélina að hún var svo seinvirk ef hún átti að deila að hægt væri að nota tímann sem í það færi til að fara á klósettið og þegar erindinu þar væri lokið hefði vélin lokið við deilinguna.“

Mér þykir líka vænt um hvernig hann segir frá störfum sínum fyrir Talnakönnun og Heim:

„Guðjón Eyjólfsson, endurskoðandi, kom að máli við mig og spurði hvort ég gæti ekki hugsað mér að hjálpa upp á sakirnar hjá Benedikt Jóhannssyni, stærðfræðingi. Hann gefur út fjölda tímarita auk þess að selja útreikninga á lífeyrisskuldbindingum. Þetta var í upphafi töluverð vinna á meðan verið var að hreinsa til. Eftir það hefur starfið verið ljúft. Ég bý til afkomutölur mánaðarlega skipt niður á deildir. Hvert tímarit er sérdeild. Þetta tekur ekki mikinn tíma mánaðarlega en óneitanlega er ágætt að hafa þannig fastan stað í tilverunni. Ég hefi ánægju af rabbi við Benedikt sem er maður með skoðanir og óvenju glöggur. Þá er bókarinn hjá honum hún Guðrún óþreytandi í sinni vinnu, alltaf brosandi á hverju sem gengur. Ég vona að mér auðnist enn um sinn að þjóna til borðs þeim ágæta manni.“

Það er vel við hæfi að enda á lýsingu Þórðar á sínu daglega lífi. Þar fer greinilega nákvæmnismaður sem lýsir sinni rútínu af spaugilegu innsæi:

„Dagskráin hefst með því að kl. 6.15 fer ég út úr húsi og upp í Salalaug. Áður hefi ég lokið við að innbyrða léttan morgunverð og gleypa lýsið mitt. Ég er mættur við grindurnar í afgreiðslunni og bíð ásamt tveimur til þremur tugum annarra morgunhana að hleypt verði inn. Ég næ skáp nr. 425 og eftir að hafa komið mér í vinnufötin er haldið upp á loft í ræktina. Þar næ ég oftast sama göngubrettinu og stíg það í 15 mínútur á hraðanum 5.5. Í framhaldi fer ég í 10 tæki og reyni á skrokkinn. Þessu lýkur með för í laugina. Ég syndi að hámarki 150 metra. Að því loknu er farið heim, mælt í þrjá kaffibolla fyrir mig og Regínu og litið yfir blöðin. Þegar öllu þessu er lokið er ég fær í flestan sjó og dagsverkið getur hafist.

Eitt verð ég að játa. Ég hefi aldrei ráðið krossgátu.“

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.