Af barnaníðingi sem aldrei er nefndur – Saga Kristins E. Andréssonar

Fyrir jólin kom út ævisaga sem var kynnt með þessum orðum: „Rauðir þræðir er saga hjónanna Kristins E. Andréssonar og Þóru Vigfúsdóttur en um leið lýsing á viðhorfum og framlagi kommúnista til íslenskrar menningar og samfélags á tuttugustu öld. Kristinn var framkvæmdastjóri Máls og menningar og Heimskringlu og mikill áhrifamaður í pólitík og menningarlífi. Þóra var áhrifakona í kvennabaráttu og saman unnu þau hjónin ötullega að uppbyggingu kommúnismans á Íslandi og áttu í samstarfi við fólk úti um allt land og víða um heim.

Bókin fjallar þó ekki síður um einstakt samstarf og samheldni tveggja eldhuga sem lifðu fyrir hugsjónir sínar og létu þær stundum blinda sig.“ Síðar segir: „Bókin er meðal annars byggð á bréfum og dagbókum sem varpa ljósi á skoðanir þeirra og líðan, vonir og vonbrigði – en umfram allt sýnir hún ást þeirra hvors á öðru og þræðina á milli þeirra, sem voru sterkari en allt annað svo að sambandið veitti þeim skjól fyrir árásum og gagnrýni utan frá.“

Margt er sagt, en ekki frá dekkri hlið á Kristni, hlið sem höfundur hafði þó vitneskju um, allt öðruvísi en hið ástríka samband sem kynningin gefur í skyn. Meira um það síðar.

Páfinn sem sótti vald sitt til Moskvu

Þann 26. október var haldið útgáfuhóf í bókabúð Máls og menningar. Það var við hæfi enda skilin milli Kristins og M&M óljós í áratugi. Margir sýndu sögunni áhuga og hún var í efsta sæti á metsölulista Eymundsson um ævisögur 21.-27. október. Í Fréttablaðinu var í byrjun nóvember talað við höfundinn undir fyrirsögninni: „Kraftmikil kommúnistahjón“.

Kristinn var í tveimur aðalhlutverkum í sögu kommúnismans á Íslandi. Í fyrsta lagi sem menningarpáfinn, sem sá um að koma „réttum“ (les: marxískum) bókmenntum á framfæri og þess utan sá sem efla átti og varðveita orðspor Sovétríkjanna á Íslandi.

Erfitt er að skilja þessa bók frá viðfangsefnum hennar. Rétt er að segja það strax að hún er vel skrifuð, en of löng og mikið sagt frá aukaatriðum en skautað yfir aðalatriði. Hún er auðlesin, ég las hana á nokkrum dögum. Ég sá engin dæmi um að höfundur hafi hallað réttu máli, en hún segir ekki allt.

Kristinn hefði nú verið mikið til gleymdur ef ekki hefðu komið út tvær bækur sem halda nafni hans á lofti: Rauðir þræðir nú í haust og Draumar og veruleiki, frásögn Kjartans Ólafssonar af skipbroti hugsjóna kommúnismans. Kjartan, sem var innanbúðarmaður í bæði Sósíalistaflokknum og Alþýðubandalaginu var ekki hrifinn af Kristni. Hann sagði í viðtali við Fréttablaðið 5. september 2020: „Helstu hugmyndafræðingar Kommúnistaflokksins eru þrír: Einar Olgeirsson, Brynjólfur Bjarnason og Kristinn Andrésson, sem allir voru á svipuðum aldri. Lífsskoðanir þeirra og afstaða til marxismans eru alveg tvímælalaust trúarlegs eðlis.“

Í Rauðum þráðum kemur fram að Kristinn og Þóra kona hans neituðu að samþykkja að Stalín hefði verið illmenni. Eftir að Khrústjov afhjúpaði grimmdarverk hans í ræðu á yfir þúsundum kommúnista árið 1956 vissu þau hjón fyrst ekki hverju þau ættu að trúa, en fljótlega sannfærðust þau um að allt væri rangfært. Kristinn segir: „M.a. gleður mann að heyra að Stalín hafi alltaf trúað því sjálfur að hann væri að gera hluti sem væru nauðsynlegir fyrir framgang sósíalismans …“ Ítrekað talaði Kristinn um mistök Khrústjovs og fljótlega hrifust þau hjón af Kína þar sem annar fjöldamorðingi, Maó Tse Tung, réði ríkjum.

Lymskufullur klækjarefur

Síðar árið 1956 réðust Sovétmenn inn í Ungverjaland sem hafði reynt að varpa af sér alræði kommúnista. Þóra skrifaði: „Drungi yfir öllum og öllu. Nú er maður fyrst orðinn utangarðsmaður fyrir alvöru eftir tíðindin í Ungverjalandi. Er það tilviljun að vinirnir eru hætti að hringja í mann?“

Ekki kemur fram hverjir vinirnir voru sem voru hættir að hringja, en þéttur hópur kommúnista virðist hafa haldið saman og skipst á heimboðum. Í þessum hópi voru Halldór Stefánsson rithöfundur og Gunnþórunn Karlsdóttir, Halldór og Auður Laxness, Jóhannes úr Kötlum skáld og Hróðný Einarsdóttir, Einar Olgeirsson, foringi kommúnista og Sigríður Þorvarðsdóttir, Þórbergur Þórðarson og Margrét Jónsdóttir, Ólafur Jóhann Sigurðsson rithöfundur og Anna Jónsdóttir og Jón Múli Árnason tónskáld og þulur. Þetta má segja að hafi verið vinstri elítan í menningu og stjórnmálum frá 1930 til 1970. Á ýmsu gekk samt í samskiptunum þegar sumir úr hópnum linuðust í aðdáun á stóra bróður í austri, en vináttan virðist samt hafa haldið. Athyglisvert er hve tíð kvöldboð með mikilli drykkju hafa verið hjá menningarelítunni, en oft voru þau hjón framlág lengi dags daginn eftir slík boð.

Þóra var leiðandi í Menningar- og friðarsamtökum íslenskra kvenna (MFÍK), en fannst þó hersýning á Rauða torginu í Moskvu „stórfengleg“ og sá enga þversögn þar í. Og hún fann til sín sem elítukona. Hún sagði að í MFÍK væru menntaðar konur sem ættu enga samleið með þeim „ólæsu“ verkakonum sem mynduðu uppistöðuna í kvennadeild MÍR (Menningartengslum Íslands og Ráðstjórnarríkjanna).

Í skýrslu sem sendiráð Sovétríkjanna skrifaði um íslenska stuðningsmenn sína var sagt að Kristinn E. Andrésson væri „lymskufullur klækjarefur“, Þóra „óheiðarleg“ og Halldór Laxness stimplaður sem óáreiðanlegur drykkjumaður. Ekki er að undra að Sovétmenn hafi verið búnir að missa álit á Halldóri Laxness, sem ekki gekk lengur í takt við sanntrúaða kommúnista, en þau Kristinn og Þóra voru alla tíð sanntrúuð á yfirburði Stalíns, Leníns og Marx, sérstaklega þess fyrstnefnda.

Kristinn var kannski lélegur rekstrarmaður á Máli og menningu og öðrum félögum, en honum tókst ítrekað og ótrúlega vel að kría styrki út úr kommúnistaflokkunum austan járntjalds. Um það hafa birst ítarlegar skýrslur annars staðar, en sums staðar er farið hratt yfir þá sögu, sem er miður, því leyniframlög frá Moskvu voru auðvitað stórmál í íslenskri pólitík og sögu Kristins.

Það sem ekki er sagt

Þann 9. nóvember skrifaði Guðný Bjarnadóttir læknir grein í Morgunblaðið. Þar segir hún: „Þegar ég var níu ára fékk ég boð frá Kristni og Þóru um að koma heim til þeirra að lesa Sálminn um blómið. Þau voru vinahjón foreldra minna og þessi bók var ekki til á mínu heimili. Ég fór því í heimsókn þangað enda hvött til þess af foreldrum mínum.

Þegar ég var búin að koma mér fyrir í stóra sófanum í fínu stofunni hjá Kristni og Þóru lét Þóra sig hverfa fram en Kristinn varð eftir í stofunni. Áður en ég vissi af færði hann sig að mér, tók bókina af mér og lét mig standa upp þétt að sér. Hann þuklaði mig alla og rak tunguna upp í munninn á mér. Þetta ætlaði engan enda að taka. Hann hélt áfram drykklanga stund, stundi þungan, talaði um hve falleg augu ég væri með og nuddaði bringuna og klofið á mér.

Þegar hann loks sleppti mér fór ég fram þar sem ég sá að Þóra var að skipta á rúmum og ég sagðist þurfa að fara heim. Þá kom ekkert annað til greina en að Kristinn æki mér heim og undan því komst ég ekki. Á leiðinni stöðvaði Kristinn bílinn á Sogaveginum, andaði þungt, ótt og títt og spurði hvort ég vildi koma með sér upp í Heiðmörk. Þótt ég væri hrædd gat ég stunið því upp að ég vildi fara heim og þannig slapp ég í það skiptið.“

Guðný segir í lok greinarinnar: „Ég hef ekki lesið [bókina] (og ætla mér ekki) en mér skilst að hún fjalli aðallega um óforbetranlegan kommúnisma þeirra hjóna. Ef ég væri spurð myndi ég segja að Kristni hafi verið alveg sama um þjáningar allra þeirra milljóna sem týndu lífi í Gúlaginu, svo lengi sem hann fengi sínar rúblur.“

Rósa Magnúsdóttir, höfundur verksins, frétti að eigin sögn fyrst af upplifun Guðnýjar árið 2011 og segir að frásögn hennar hafi haft „gríðarlega mikil“ áhrif á sig. Samt ýjar hún ekki að þessari hlið á Kristni. Næst kemst hún því á bls. 504: „Enginn veit hvað á sér stað milli hjóna innan veggja heimilisins – ekki einu sinni sagnfræðingur sem hefur rannsakað æviskeið þeirra.“

Margrét Rósa Grímsdóttir tannlæknir skrifaði í Morgunblaðið 17. nóvember síðastliðinn: „Þegar ég sá umfjöllun bókarinnar um Kristin E. Andrésson í Fréttablaðinu sendi ég netpóst á öll systkini mín með fyrirsögninni „ógeð“. Við vorum öll leið yfir því að þessum karli væri nú hampað sem mikilmenni og enginn vissi af reynslu minni. Hefðu ekki önnur börn lent í honum?“ Hún rekur svo sína sögu af Kristni sem tók hana sex ára á kné sér og fór svo að kyssa hana en „kunni ekki að kyssa, vildi bara kyssa mig beint á munninn og ulla upp í mig.“ Þetta atvik hefur höfundur Rauðra þráða ekki vitað um.

Af Rauðum þráðum er hægt að fræðast um marga kosti þeirra hjóna og galla. Ofmælt er að segja að Kristni sé hampað sem mikilmenni í ritinu, flestum sem það lesa mun ljóst að þau hjón voru að mörgu leyti gallagripir, en frásögnin tapar trúverðugleika þegar þagað er yfir ónáttúru söguhetjunnar, perversjón sem höfundur vissi af og hefði eflaust fengið leyfi Guðnýjar Bjarnadóttur til þess að segja frá þegar sagan loks kom út.

Ég heyri að það hlakkar í mörgum þegar menn með tengingar við stjórnmálaflokka eða hafa ákveðnar skoðanir verða uppvísir að óeðli, en engin ástæða er til slíkrar Þórðargleði. Margt bendir til þess að frægt og valdamikið fólk umbreytist og haldi að því leyfist allt, eins og fjölmörg nýleg dæmi sanna. Slík hamskipti eru óháð skoðunum eða bakgrunni.

Rauðir þræðir hurfu af metsölulistum strax og greinar þeirra Guðnýjar og Margrétar Rósu birtust. Hefði sagan öll verið sögð hefðu kannski fleiri viljað lesa frásögn þar sem ekkert væri undan skilið.

One comment

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.