Vertu í tryggðum trúr – Uppgjör við liðna tíð

Á tímamótum veltir maður stundum fyrir sér tilgangi lífsins. Nú eru auðvitað áramót, en það vill svo til að ég á afmæli í dag. Fæðingardagurinn minn er reyndar ekki í janúar heldur í maí, en einmitt í dag er fylli ég 2/3 af öld, sem er ekki svo lítið. Sumir þeirra sem ná þessum aldri telja að þá sé kominn tími til þess að hvíla lúin bein. Mér finnst það frábært að fólk sem er farið að lýjast hvíli sig, hve gamalt sem það er, en jafnvitlaust finnst mér hitt að segja þeim að setjast í steininn helga sem búinn er að fylla ákveðinn árafjölda.

Reynir föðurbróðir minn vann þar til hann var að verða áttræður, en hann varð heldur aldrei nógu gamall til þess að ganga í Félag eldri borgara á Norðfirði og lifði góðu lífi fram á daginn sem hann dó. Ásgeir Jónsson leigusali okkar í Talnakönnun mætti á skrifstofuna á hverjum degi fram um nírætt. Hann hafði séð marga félaga sína veslast upp þegar þeir hættu að vinna. Í Almennum tryggingum unnu margir á áttræðis- og jafnvel níræðisaldri. Almennar voru gott fyrirtæki.

Við Vigdís héldum upp á þrítugs-, fertugs- og fimmtugsafmælin okkar með bravör og buðum vaxandi fjölda fólks. Svo fórum við til Grikklands á sextugsafmælinu og nutum lífsins tvö ein. Það var líka gaman, en ég fékk hálfgert samviskubit yfir hinum sem ekki komust og ætlaði að halda upp á 65 ára afmælið í fjölmenni. Ekki gekk það – guð almáttugur, Þórólfur og Víðir sáu til þess. Þá var 2/3 aldarafmælið næsti stóráfangi, en ég er ekki einu sinni viss um að þessir 20 (eða eru það bara 19?) sem hefðu leyfi til að koma myndu þora að sýna sig. Þannig að ég – og allir sem ég myndi bjóða – verða að bíða enn um stund.

Ég man að Unnur föðursystir mín sagði þegar hún var álíka gömul og ég er núna að hún fyndi ekki svo mikinn mun á sér þá eða þegar hún var 19 ára. Sumt fólk sem ég sagði frá þessu taldi að hún væri orðin elliær, skildi ekki að það gerist ekkert sérstakt þó að fólk eigi afmæli, jafnvel þó að þau séu mörg. Ég er skotinn í sömu stelpu núna og þegar ég var 19 ára.

Í fyrradag mætti ég 83 ára gömlum manni í Úlfarsfelli, eldhressum og staffírugum. Enda hvers vegna skyldi hann ekki vera það? Haft var eftir einhverri konu sem var orðin leið á að heyra jafnöldrur sínar þusa um það á hverjum degi að nú væri einum degi minna eftir: „Nei, þvert á móti; nú er ég búin að bæta einum dagi við lífið.“

Okkar er valið. Við getum ákveðið að verða eins og Láki jarðálfur sem byrjaði sérhvern dag á því að hugsa hvernig hann ætti að gera öðrum illt, eða við ákveðum að verða eins glöð og jákvæð og aðstæður leyfa hverju sinni. Stundum blæs á móti, stundum er dimmt, en élin birtir upp. Stofan verður ekki bjartari með því að draga fyrir gluggana.

Reikningshald á 2021. ári drottins

Eftir þennan inngang ætla ég að gera upp nýliðið ár. Það er liðið í aldanna skaut, en hér kemur það til baka, að minnsta kosti mitt uppgjör.

Í hittiðfyrra byrjaði ég átak til þess að lesa allar helstu heimsbókmenntirnar og kallaði það 100 bestu bækurnar. Auðvitað hafði ég lesið margar merkar bækur áður, meðal annars allar skáldsögur Laxness, en þetta var nýtt verkefni. Mér hefur gengið bærilega með það og reyni að gera skilmerkilega grein fyrir framvindunni, en þegar ég fór af stað fékk ég meira en 300 ábendingar frá vinum mínum á FB. Ekki náðu þær allar inn á listann og hann er satt að segja ekki kominn upp í 100 bækur enn, en þangað kemst hann ef mér endist líf og heilsa til.

Mér fannst ég ganga mun minna árið 2021 en árið áður, sem líklega er rétt, en samt held ég að gönguferðirnar séu hátt í 100. Það er skemmtileg afþreying.

Árás í vændum

Ég skrifaði minna en oft áður, en líklega um 40 greinar. Nú fór ég að skrifa aftur í Vísbendingu, sem ég skrifaði 2-4 greinar í vikulega í meira en áratug. Á móti kom að Mogginn vildi ekki lengur fá frá mér reglulega pistla.

Við Vigdís ferðuðumst vítt og breitt um landið en lítið til útlanda. Komumst þó til Sikileyjar, sem var einn af hápunktum ársins.

Svo þroskuðust barnabörnin og eitt bættist við. Ekkert jafnast á við það.

Blindur var bóklaus maður

Einu sinni átti þetta máltæki við, en nú fræðist fólk með ýmsum hætti, á netinu, með því að hlusta á útvarp, horfa á sjónvarp og það síðasta; með hljóðbókum. Sjálfur er ég slíkur bókavinur að ég var alls ekki viss um að ég yrði ánægður með að lesa bækur á lesbretti. Það væri ekki sama tilfinning og halda á bók, finna lyktina af pappírnum og strjúka kjölinn.

Ég var þeim eiginleikum gæddur að oft mundi ég svo vel eftir bókum að ég gat sagt nokkurn veginn hvar á blaðsíðu eitthvað stóð. Ekki svo að skilja að ég hafi kunnað bækurnar utan að heldur hitt, að ef ég var spurður þá gat ég svaraði á þessa leið: „Þetta er, minnir mig, á vinstri blaðsíðu, neðarlega, líklega í kafla 4 eða 5.“ Oft stóðst þetta. Núna man ég oft eftir samræðum sem ég hef átt og get sagt Vigdísi frá þeim frá orði til orðs, en man ekkert við hvern ég var að tala.

Þetta var útúrdúr, en það kom mér á óvart að mér fannst ágætt að lesa bækur í kindlinum og núna les ég margar bækur í símanum mér til ánægju. Fyrir fjórum árum reyndi ég svo að hlaða niður Karamasov bræðrunum sem hljóðbók þegar ég var að fara í langa flugferð. Það er reyndar ekki góð hugmynd, því að ég margsofnaði yfir lestrinum í fluginu, en á gönguferðum eru Dostojevski, Tolstoy, Dickens og Hómer góðir ferðafélagar.

Mér tókst að klára Little Women eftir Alcott. Ágætis bók um ástir, vonir og örlög. Vinnur samt seint femínistaverðlaunin, ****

Persuation eftir Jane Austin hélt athyglinni ekki vel hjá mér. Það er þriðja bókin eftir Jane Austin sem ég klára og sú sísta (Hroki og hleypidómar er best). Þær eru reyndar ekkert mjög ólíkar, en hugurinn fór oft að reika og ég missti þráðinn. ***

Ég er búinn með þrjár og hálfa bók eftir Charles Dickens. Mér finnst þær allar góðar. Hann er meistari mannlýsinganna og það gerist líka sitthvað í bókunum. Mágur minn heldur því fram að það sé vegna þess að þær voru skrifaðar sem framhaldssögur í tímarit og þurftu að halda athygli og áhuga lesenda. Nokkuð sem mörgum ævisöguriturum tekst illa við og salan fer niður á við eftir fyrsta bindi. Bleak House og Glæstar vonir fannst mér fimm stjörnu bækur og Nicolas Nickelby fékk fjórar. Nú er ég rúmlega hálfnaður með Little Dorrit sem er líka ágæt og endar líklega í fjórum stjörnum.

Glataðir snillingar eftir William Heinesen finnst mér afar góð bók sem ég skil varla í að hafa ekki verið löngu búinn að lesa. Hún er þægileg og skemmtilega skrifuð. Gerist í Færeyjum, þó að það sé hvergi sagt og gæti auðvitað hafa gerst víða. Hiklaust *****

Í mínum huga hafa Hemmingway og Steinbeck verið jafningjar. Eftir þann fyrrnefnda hafði ég bara lesið Gamla manninn og hafið og Veislu í farangrinum. Fínar bækur. Hverjum klukkan glymur var aftur á móti ekki skemmtileg, afar illa þýdd þar á ofan. ** Ég finn ekki Vopnin kvödd í þýðingu Halldórs Laxness, svo ég á hana inni. Þá verður þýðingin að minnsta kosti góð.

Svo fór ég í gegnum Steppenwolf eftir Herman Hesse. Mér fannst samnefnd hljómsveit mjög góð, en bókina náði ég engu sambandi við, þula af setningum sem skildu lítið eftir sig. **

Hómer klikkaði ekki með Ódyseifskviðu, en hún er svolítið flúruð fyrir minn smekk. ****

Hlébarðann eftir Giuseppe di Lampedusa las ég vegna þess að hún gerist á Sikiley. Kannski ekki besta ættarsagan, en samt ágæt. ****

Anna í Grænuhlíð er líklega barnabók, en ég hafði ekki lesið hana, sennilega vegna þess að hún væri „stelpubók“. Það voru mistök að missa af henni. ****

Dagur í lífi Ívans Denísovítsj eftir Solzhenítsyn var umtöluð bók á sínum tíma, í kringum 1960. Foreldrar mínir áttu hana, en ég las hana ekki. Hún er ekki beinlínis skemmtilestur, en ekki mjög löng og vel skrifuð. Veit samt ekki hvort ég legg í Gúlag eyjaklasann, sem er miklu lengri. Mér finnst það mikill kostur að bækur séu stuttar, því ef þær eru leiðinlegar hefur maður ekki kastað miklum tíma á glæ ****

Steinbeck er snillingur, ekki fjarri Dickens. Ég kláraði Mýs og menn (loksins) **** og Tortilla flat sem á íslensku heitir Kátir voru karlar. Hún er skemmtileg og svipuð Ægisgötu (Cannery Row). Þægilegar sögur. Báðar *****. Þrúgur reiðinnar eru líka góð bók, en svo löng að ég er ekki búinn með hana. Auðvitað alls ekki jafn þægilegur lestur, en í sjálfu sér ekki óþægilegur heldur.

Stórvirki ársins var auðvitað Stríð og friður eftir Tolstoy. Hún er firnalöng og dró mig ekki áfram í spenningi eins og til dæmis Anna Karenina (sem er löng líka). Stríðið fær fjórar stjörnur og Anna fimm. Ég get næstum sagt eins og Woody Allen: S & F er um Rússland.

The Enchanted April eftir Elísabetu von Arin flokkast væntanlega undir guilty pleasure, mér fannst hún skemmtileg og auðlesin. Þori samt ekki að gefa henni nema fjórar stjörnur.

A handful of Dust eftir Evelyn Waugh kom út á íslensku undir heitinu Hnefafylli moldar. Enska útgáfan varð fyrir valinu hjá mér og hún er skemmtileg. Ekki stórkostleg, en skemmtileg. ****

Mér hefur lengi fundist Virginia Wolf áhugaverður höfundur, en To the Lighthouse greip mig ekki. Ég hef líka reynt að byrja á Mrs. Dalloway, en ekki komist langt. Líklega þarf maður að vera í sérstakri stemningu fyrir þessar bækur. Las einu sinni bókina The Hours sem er svokölluð Meta bók, það er bók um bók, en hún fjallar um Frú Dolloway og Virginíu. Hún fannst mér góð. En vitinn ekki nema **.

Ég byrjaði á The Sound and the Fury eftir William Faulkner, sem menn halda vart vatni yfir og ausa hana lofi, líklega flestir af því að þeir hafa lesið að öðrum þótti hún góð. Svipað og bækurnar eftir James Joyce, Portrait of the Artist as a Young Man [sem ég kláraði á sínum tíma) og Ulysses, sem ég ætla ekki að lesa. Margir listar um bestu bækurnar eru samdir af fólki sem hefur alls ekki lesið þessar bækur en vill sýna hvað það sé intellektúelt og setur alls kyns leiðindarit á sinn lista.

Svo las ég Birting og Umhverfis jörðina á 80 dögum á frönsku, en hafði lesið báðar sem strákur eða ungur piltur. Mér fannst þær enn skemmtilegar. Á frönsku las ég líka Un Secret eftir Phillippe Grimbert og La Petite Bijou eftir Nóbelsverðlaunahöfundinn Patrick Modiano. Þær síðustu falla ekki undir stóra verkefnið og líklega hefði ég aldrei lesið þær ef ég væri ekki að reyna að læra frönsku. Ekki slæmar bækur, en ekki alveg að mínum smekk. Námið mætti ganga hraðar.

Las lítið af íslenskum höfundum nema upprifjun. Er reyndar langt kominn með barnaníðinginn Kristin E. Andrésson.

Upp á fjallsins brún

Mér sýnist að ég hafi farið í hátt í 100 alvöru göngur í ár. Flestar eru í Mosfellssveit, 45 Úlfarsfell, 7 Esjur, Helgafell í Mosfellssveit og Hafnarfirði fimm sinnum alls, Reykjafell og önnur fjöll í kringum Hafravatna annað eins, Grímmannsfell, Tröllafoss, Hrafnhólar. Toppurinn var auðvitað gosið, en að því fór ég átta eða níu sinnum.

Svo fór ég austur á land og gekk á Vindfell og Mosfell milli Stöðvarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar, Goðaborg inni í Norðfirði en af honum sér maður ofan í Mjóafjörð. Svo Teigagerðistind milli Reyðarfjarðar og Eskifjarðar, en efst á honum er skemmtilegur steinbogi. Auk þess gekk ég svo á Goðatind við Oddsskarð, en framangreind fjöll eru öll hluti af gönguvikunni Á fætur Fjarðabyggð, sem ég get eindregið mælt með. Ég endaði svo vikuna með því að fara á Hellisfjarðarmúla og Lolla sem eru gegnt byggðinni í Norðfirði. Það hafði mig lengi langað til þess að gera, en í stofunni heima var málverk af Hellisfjarðarmúla eftir Svein Þórarinsson.

Lollinn í Norðfirði

Við Vigdís gengum á Vindbelg við Mývatn og fórum líka í langa göngu að lóninu við Morsárjökul, inn af Skaftafelli. Aftur á móti náðum við ekki að klára göngu á Kaldbak milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar í ár vegna þoku á fjallinu. Komumst að surtarbrandsgilinu ofan við Brjánslæk á Barðaströnd eftir miklar rökræður við starfsmann Umhverfisstofnunar sem taldi það af og frá því gangan í fylgd fararstjóra frá stofnuninni væri hafin, en annar starfsmaður sömu stofnunar brást ljúfmannlega við og beið okkar skammt frá gilinu.

Merkigilsfjallið virtist ókleift úr fjarska, en við sigruðumst samt á því. Svo fórum við í Vatnshelli á Snæfellsnesi sem ég mæli óhikað við. Auðvitað líka Páskahellinn austur á Norðfirði. Hann er fallegur, en allt annars konar hellir. Jón Eyjólfur mágur minn hefði orðið sjötugur og ætlaði að halda upp á það með bravör, en svo voru fjöldatakmarkanir, þannig að við gengum nokkrir með honum yfir Hellisheiði frá virkjuninni í Hveragerði. Hann verður þá bara sjötugur í alvöru næsta sumar.

Svo gegnum við auðvitað í Etnuhlíðum á Sikiley. Okkur var ekki hleypt upp á topp því það var eldgos í gangi (sem hefði auðvitað ekki stoppað okkur).

Við Villi Bjarna ætlum að ganga Leggjabrjót næsta sumar. Öðrum er frjálst að slást í för með okkur. Svo ætlum við líka að ganga á Tröllakirkju úr Hítardal, en það ætla ég meira en hann.

Pistilinn las …

Pistlarnir mínir féllu í misjafnan jarðveg eins og oft áður. Sem betur fer. Nokkrir þeir vinsælustu voru:

Aðallinn veiðir sér til gamans

Spilling skekur landið

Hvaða Framsóknarflokk er best að kjósa?

Sá sem samþykkir þetta er samherji í raun

Svo skrifaði ég um tvo merkismenn sem féllu frá, þá Ólaf B. Thors sem var mikill örlagavaldur í mínu lífi og Jón Sigurðsson, sem var frjálslyndur Framsóknarmaður, eins þversagnakennt eins og það hljómar.

Tveir eldri pistlar eru líka mikið lesnir:

Fegursta ástarljóð á íslensku? og

Allar bestu bækurnar

Það er gaman að listirnar veki ekki minni áhuga en pólitíkin.

Svo var auðvitað pólitíski áramótapistillinn: Án réttlætis verður samfélags einskis virði.

Eitt finnst mér skemmtilegt þegar fólk fjasar um pistlana mína sem annað hvort hefur ekki lesið þá eða ekki skilið þá. Kannski er það bara brengluð kímnigáfa mín. En auðvitað finnst mér vænt um þegar einhver hefur samband sem hefur lesið það sem ég skrifa. Sjaldnast eru það margir (þrír eru margir þegar einhver segir að margir hafi „komið að máli við sig“), en stundum eru allmargir ánægðir í alvöru.

Alvöru gleði

En þótt vinnan hafi verið skemmtileg og margt sér til gamans gert þar fyrir utan, er þó góð heilsa, farsæl fjölskylda og vinátta mests virði. Sem betur fer komst ég að raun um sanna vináttu margra sem ég hafði ekki hugmynd um að hugsuðu hlýlega til mín. Það vermir hjartaræturnar.

Það er líka gott að hitta góða vini og ættingja, þó svo að umhverfið hafi ekki alltaf verið hentugt til heimsókna og mannamóta. Þá hjálpa síminn og jólakortin (það rættist úr þeim í lokin).

Vona að okkur takist að spila vel úr þeim spilum sem við fáum á hendi á nýbyrjuðu ári, þannig farnast okkur best.

Hyggindi þín
láttu að haldi koma
þér og þínum vinum.
Æðri sýslu
máttu eigi hafa
en kenna nýtt og nema.

Úr Hugsvinnsmálum.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.