Heiðursmaður genginn

Það var stórviðburður í mínu lífi þegar Ólafur B. Thors hringdi í mig í fyrsta sinn. Ég var kennari við Verzlunarskólann og stundakennari við Háskólann, stráklingur sem var sjálfur nýútskrifaður úr skóla. Ólafur var virtur stjórnmálamaður og forstjóri Almennra trygginga. Hann sagði mér í símtalinu að fyrirtækið hefði fengið athugasemdir frá Tryggingaeftirlitinu sem segði að það vantaði milljón dollara upp á bótasjóði þess í erlendum endurtryggingum. Félagið byggi ekki yfir þekkingu til að meta hvort þetta væri rétt, gæti ég hjálpað við slíka útreikninga?

Ég vissi lítið um tryggingar, en lét eins og milljón dala dæmi væru eitthvað sem ég fengist við með morgunmatnum. Mig grunaði samt ekki hve mikil áhrif þetta símtal myndi hafa á mitt lífshlaup. Næstu áratugi átti ég eftir að fylgja Almennum tryggingum og síðar Sjóvá-Almennum og sökkva mér í alls kyns útreikninga tengda vátryggingum.

Ólafur sat lengi í borgarstjórn fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Hann var gæddur eiginleikum sem prýða mega góðan stjórnmálamann: Traustur og heiðarlegur, varfærinn en þorði að taka ákvarðanir, vel máli farinn, fljótur að setja sig inn í mál, alúðlegur, alvarlegur ef það átti við, en hverjum manni fyndnari í tækifærisræðum. Það var skaði stjórnmálanna en ávinningur vátryggingaheimsins, að hann skyldi einbeita sér að viðskiptum. Fyrir mig var það gæfa að fá að kynnast vátryggingamönnum af gamla skólanum og ég var upp með mér þegar Ólafur sagði við mig, eftir að ég hafði unnið með honum nokkra hríð: „Nú ertu farinn að hugsa eins og tryggingamaður.“

Árin sem við Ólafur unnum saman voru ævintýri líkust. Deilunum við Tryggingaeftirlitið, sem um tíma ógnuðu tilveru Almennra, lyktaði með farsælum hætti fyrir félagið og viðskiptavini þess árið 1985. Þremur árum síðar kallaði Ólafur mig til sín til að ræða trúnaðarmál. Fulltrúar Sjóvá höfðu haft samband og spurt hvort áhugi væri á sameiningarviðræðum milli félaganna. Við tóku nokkurra vikna, kannski mánaða, leynifundir á hótelherbergi. Viðræðurnar fóru furðu hljótt, þótt margir ættu leið um hótelið. Ég man eftir tveimur mönnum sem við gengum í flasið á. Annar var Mikael Tal, fyrrverandi heimsmeistari í skák, sem hafði engan áhuga á okkur. Hinn var Guðjón Eyjólfsson endurskoðandi, sem var reyndar einn örfárra innvígðra, svo það kom ekki að sök. Loks urðu viðræðurnar opinberar og félögin sameinuðust, öllum til heilla. Nú á dögum er það nánast regla að einn forstjóri stýri fyrirtæki. Í Sjóvá-Almennum voru þeir tveir, Ólafur og Einar Sveinsson, en þeir stýrðu félaginu samhentir. Öllum lá gott orð til þeirra og félagið dafnaði vel.

Með Ólafi B. Thors er heiðursmaður genginn, vinur sem þeir sem honum kynntust minnast með virðingu og hlýju.


Birtist í Morgunblaðinu 6.7. 2021. Mynd Morgunblaðið Júlíus Sigurjónsson 1995.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.