„Þetta er ákveðinn endahnútur á að þetta verði að veruleika,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson þegar hann skrifaði undir samkomulag við Dag B. Eggertsson borgarstjóra. Ráðherrann bætti við að ráðuneyti hans hafi unnið hörðum höndum allt kjörtímabilið við að koma Sundabraut á dagskrá. „Sundabraut mun dreifa álagi, leysa umferðarhnúta og verður gríðarleg samgöngubót fyrir alla þá sem ferðast til og frá höfuðborgarsvæðinu – og fyrir alla ferðamáta. Brúin verður aðgengileg fyrir gangandi og hjólandi og verður kennileiti borgarinnar. … Sundabrautin er efst á verkefnalistanum mínum. Við kynntum legu brautarinnar í byrjun febrúar“
Margir urðu spenntir að heyra að nú væri kominn „ákveðinn endahnútur“ á þetta mál sem hefur verið á dagskrá í nærri 40 ár. Samkvæmt ráðherranum liggur fyrir að brautin liggi um brú. Nánast allt klárt.
Nánari skoðun bendir þó til þess að þetta sé hvorki „ákveðið“ né „endahnútur“. Orðabókin segir að endahnútur sé að „ljúka verkinu að fullu“. Samkvæmt ráðherranum „gætu“ framkvæmdir hafist eftir fimm ár.
Skoðum „samkomulagið“ betur. Í viðtali við mbl.is segir Sigurður Ingi: „Þessi viljayfirlýsing [ekki samkomulag?] okkar borgarstjórans í dag staðfestir sameiginlega sýn, að nú sé komin fram þessi leið, valkostir sem eru uppi og hvaða verkefni eru næst.“
Næstu skref samkvæmt yfirlýsingunni eru:
1. Félagshagfræðileg greining á þverun Kleppsvíkur.
2. Að henni lokinni verði hafist handa við að undirbúa breytingar á aðalskipulagi borgarinnar, sem feli í sér endanlegt leiðarval Sundabrautar.
3. Rýni á öllum umhverfisþáttum.
4. Rýni á mótvægisaðgerðum vegna hugsanlegra neikvæðra áhrifa af umferð fyrir nærliggjandi hverfi.
5. Skoðaðar líklegar breytingar á dreifingu umferðar.
6. Samtal við íbúa og aðra hagaðila.
7. Áframhaldandi hönnun.
8. Undirbúningur o.s.frv.
Dagur borgarstjóri er skýrmæltur að venju: „Ég fagna þessari yfirlýsingu. Það er mikilvægt að leiðarval og undirbúningur Sundabrautar sé í traustum og góðum farvegi og að verkefnið sé unnið í víðtæku samráði. Þessi yfirlýsing tryggir það og undirstrikar mikilvægi samráðs við íbúa og hagsmunaaðila í næstu skrefum. Sundagöng og Sundabrú eru áfram megin valkostirnir. Í kjölfar félagshagfræðilegrar greiningar tekur við frekari samanburður og rýni á öllum umhverfisþáttum og mótvægisaðgerðum vegna hugsanlegra neikvæðra áhrifa af umferð fyrir nærliggjandi hverfi.“
Sagt er að munnlegt samkomulag sé ekki pappírsins virði. Viljayfirlýsingar eru enn minna virði.
„Það er mikil vinna framundan þó að grafan birtist kannski ekki fyrr en árið 2026,“ segir Sigurður Ingi.
Kannski birtist hún aldrei.
Birtist í Morgunblaðinu 15.7. 2021