Samherji biðst afsökunar – aftur

Fáir sem hafa fylgst með íslensku atvinnulífi undanfarna áratugi geta efast um að Samherja er stjórnað af mikilli einurð. Í tæplega 40 ár hefur félagið vaxið úr nánast engu í að verða alþjóðlegt útgerðarveldi.

Tvennt þarf til að ná slíkum árangri. Tækifæri og þann sem kann að nýta sér það. Tækifærið var kvótakerfið og Samherjafrændur gripu það. Einhver spurði á sínum tíma hvernig kvótakerfið hefði aukið verðmæti fiskimiðanna. Svarið er tvíþætt: Með kvótastýringu stemmdu stjórnvöld stigu við ofveiði sem ógnaði fiskistofnum. Í öðru lagi varð aðgangur að miðunum þar með takmörkuð auðlind. Sandur er einskis virði í Saharaeyðimörkinni, en vatn er gulls ígildi fyrir þann sem vantar það á miðri eyðimerkurgöngu. Verðmætin, sem til urðu, renna þó að litlu leyti til þjóðarinnar.

Til urðu geysilega sterk útgerðarfyrirtæki og mikill auður. Stór hluti þess gróða gufaði upp í hruninu, en á undanförnum áratug hafa milljónir oltið inn í fjárhirslur útgerðarmanna daginn út og daginn inn, um 130 milljónir á dag, líka um jól og helgar.

Of mikil völd og of miklir peningar hafa ruglað marga í ríminu. Margur stjórnmálamaðurinn fyllist hroka um leið og hann tyllir sér í ráðherrastólinn og þeir, sem skyndilega áskotnast fé, halda að þeir séu öðrum snjallari. Hofmóður og offors einkennir framkomu sumra þeirra sem áður voru hin blíðustu.

Ein leið til þess að þagga niður umræðu er að pönkast í blaðamönnum, eftirlitsstofnunum og óþægilegum stjórnmálamönnum. Innan Samherja starfaði sérstök „skæruliðadeild“ sem ætlaði meðal annars að „stinga, snúa og strá svo salti í sárið“ samkvæmt frásögnum fjölmiðla af ummælum eins skæruliðanna. Orðfærið gekk fram af mörgum, svipað því sem talsmáti sexmenninganna úr Miðflokknum á Klausturbar gerði á sínum tíma.

Ekki þarf að rekja frásagnir af Samherja erlendis og innanlands. Rauði þráðurinn virðist vera, að meðan dómarinn flautar ekki verður leikaðferðin sú sama. Ef dómarinn leyfir sér að flauta skal rokið í hann af offorsi.

Nýlega breyttist tónninn. Kannski var samið við nýjan almannatengil. Í lok maí birtist yfirlýsing á heimasvæði fyrirtækisins þar sem sagði að „stjórnendur Samherja [hafa] brugðist harkalega við neikvæðri umfjöllun um félagið og ljóst að of langt hefur verið gengið í þeim viðbrögðum. Af þeim sökum vill Samherji biðjast afsökunar á þeirri framgöngu.“

Nú fyrr í vikunni baðst forstjóri fyrirtækisins svo afsökunar yfir að „hafa látið þau vinnubrögð, sem [í Namibíu] voru viðhöfð, viðgangast. … Mér þykir mjög leitt að svo hafi farið og bið ég alla þá sem hlut eiga að máli, einlæglega afsökunar á mistökum okkar.“

Hvað sem öðru líður eru stjórnendur Samherja menn að meiri að biðjast afsökunar á framgöngu sinni og mistökum.


Birtist í Morgunblaðinu 26.6.21.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.