Hvaða Framsóknarflokk er best að kjósa?

Margir velta því nú fyrir sér hvaða flokk þeir eigi að kjósa, jafnvel fólk sem hefur aldrei áður þurft að hugsa sig um. Áður fyrr vissu kjósendur nokkurn veginn fyrir hvað flokkarnir stóðu. Líklega voru stjórnmálin einfaldari þá en núna. Úrslitaáhrif hafði hugmyndafræðileg afstaða með eða móti oki sósíalismans eða með eða móti tilgangslausum hernaði Bandaríkjanna í fjarlægum heimshlutum. Hér voru í meginatriðum fjórir flokkar í áttatíu ár.

Við sjáum að flokkar færast til og leita sér nýrra fylgismanna þegar kvarnast úr kjarnafylginu. Eftir að VG féllst í faðma við Sjálfstæðisflokkinn hefur Samfylkingin fært sig til vinstri til þess að höfða til óánægðra flokksmanna VG. Með svipuðum hætti er Miðflokkurinn nú að reyna að lokka til sín frjálshyggjumenn sem ekki treysta Sjálfstæðisflokknum lengur með slagorðinu Burt með báknið! sem hefur lengi legið ónotað á hægri kantinum.

Ríkisstjórnarsamstarfið hefur líka orðið mörgum umhugsunarefni, en það er auðskýrt með stuttum samtölum.

Spurt var: Hvers vegna í ósköpunum ákvað VG að leiða þessa hægri stjórn?

Svar: Sú ákvörðun var í fullkomnu samræmi við innsta eðli VG. Flokkurinn er þjóðernissinnaður íhaldsflokkur sem vill sem allra minnstar breytingar. Þar má nefna gjafakvótakerfið, landbúnaðarmálin, krónuna, stjórnarskrárbreytingar og afstöðuna til ESB. Flokkurinn hefur aftur á móti villt á sér heimildir með því að kenna sig við vinstrið. Ekkert er fjær sanni.

Viðbragð: Þótt mér finnist mjög erfitt að sætta mig við þessa lýsingu átta ég mig núna á því að hún virðist vera sönn.

Annað viðbragð: VG er bara Framsókn fyrir fólk sem er með endurvinnslutunnur heima hjá sér.

Spyrja mætti: Hvers vegna í ósköpunum ákvað Sjálfstæðisflokkurinn að ganga inn í þessa vinstri stjórn?

Svar: Sú ákvörðun var í fullkomnu samræmi við innsta eðli Sjálfstæðisflokksins. Flokkurinn er þjóðernissinnaður íhaldsflokkur sem vill sem allra minnstar breytingar. Þar má nefna gjafakvótakerfið, landbúnaðarmálin, krónuna, stjórnarskrárbreytingar og afstöðuna til ESB. Flokkurinn hefur aftur á móti villt á sér heimildir með því að kenna sig við hægrið. Ekkert er fjær sanni.

Viðbragð: Þótt mér finnist mjög erfitt að sætta mig við þessa lýsingu átta ég mig núna á því að hún virðist vera sönn.

Annað viðbragð: Sjálfstæðisflokkurinn er bara Framsókn fyrir fólk sem vill ríkisstyrk á morgnana, lága skatta á daginn og grillar á kvöldin.

Kannski spyr einhver: Hvers vegna ákvað Framsókn að fara í þessa ríkisstjórn?

Svar: Það voru ráðherrastólar í boði og samvinna við systurflokkana.

Viðbragð: Alveg rétt. Heimskuleg spurning.

Spurt er: Er þá ekki best að kjósa bara Framsókn?

Svar: Þú segir nokkuð. En hvaða Framsóknarflokk?


Birtist í Morgunblaðinu 20.9.2021. Myndin er eftir Halldór Baldursson. Birtist 1.7.21 í Fréttablaðinu.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.