Mörgum finnst eflaust að í fyrirsögninni felist þversögn. Það fari ekki saman að vera frjálslyndur og Framsóknarmaður. Enda var Jón Sigurðsson örugglega víðsýnasti maður sem hefur verið formaður Framsóknarflokksins. Þegar Halldór Ásgrímsson ákvað skyndilega að hætta sem forsætisráðherra árið 2006 kom Jón inn í stjórnmálin, öllum á óvart. Þá skrifaði ég:
„Halldór Ásgrímsson bar af hópnum og er í raun eini framsóknarmaðurinn sem hægt er að taka alvarlega. En hann vill burt af þingi og það er enginn til þess að taka við.
Nú er Jón Sigurðsson kallaður til leiks. Hann er mætur maður en verður aldrei pólitíkus ef hann heldur áfram að tala um að vera kallaður til ábyrgðarstarfa, hlýða kallinu eða hvað það nú er sem hann segir. Þetta minnir á Pál postula sem fékk vitrun og breytti öllu sínu lífi. Halldór kom og sagði: ,,Fylg þú mér.’“ Jón er skemmtilegur maður og þó að hann komi nú út úr skápnum sem framsóknarmaður þarf hann ekki að taka upp framsóknarlundina.“
Þegar þetta var þekkti ég Jón ekki mikið. Hef verið málkunnugur honum eins og mörgum, en minnist engra samræðna við hann. Einhver gerði athugasemd við það að ég gæfi skyn að hann hefði verið Framsóknarmaður á laun. Hann hefði verið ritstjóri Tímans frá 1978 til 1981 og varð þá skólastjóri Samvinnuskólans á Bifröst. Svo varð hann líka framkvæmdastjóri Vinnumálasambandsins um stund. Engin af þessum stöðum hefði farið til annarra en innmúraðra flokksmanna, en þessu hafði ég greinilega gleymt árið 2006. Jón hampaði heldur ekki þessari fortíð á þessum árum.
Tengdamóðir mín vann reyndar um árabil hjá Vinnumálasambandinu og var svo fjarri Framsóknarflokknum að hún var heldur kaffilaus í vinnunni en að drekka Bragakaffi, en ekki var boðið upp á aðrar veigar á þeim bæ. Hún talaði alltaf fallega um Jón. Líklega hefur hann líka verið frjálslyndari í kaffimálum en forverar hans.
Jón passaði ekki alltaf vel í hlutverk stjórnmálamannsins. Hann var oft hátíðlegur í tali og minnti stundum í viðtölum á skólastjóra sem var að hirta nemanda. Kannski féll hann í sömu gryfju og mjög margir stjórnmálamenn, að fara að leika eitthvað hlutverk í stað þess að vera hann sjálfur. En hann var með skýra stefnu og frjálslynda. Ferill hans var stuttur í framlínu stjórnmálanna og Guðni Ágústsson tók við af honum. Framsóknarmenn voru í miklu hallæri og höfðu ekki mikið mannval eftir þá Halldór og Jón.
Þótt ég hefði ekki mikil persónuleg kynni af Jóni á þessum árum vissi ég að hann og Haraldur Blöndal frændi minn höfðu verið góðir vinir. Jón flutti minningarræðuna um Halla í kaþólsku kirkjunni árið 2004 og gerði það prýðilega. Þetta varð til þess að mér þótti svolítið vænt um Jón.
Opinber stjórnmálaferill Jóns varð stuttur og að honum var sjónarsviptir. Sumir vilja helst hafa lélega foringja í flokkum sem þeir styðja ekki, en það er misskilningur. Þó að menn greini á um leiðir er mikilvægt að mótstöðumaðurinn sé skynsamur og heiðarlegur.
Jón studdi fulla aðild Íslands að Evrópusambandinu, rétt eins og Halldór Ásgrímsson. Eftir að þeir hurfu af leiksviði stjórnmálanna hefur sú skoðun ekki átt fylgi að fagna innan Framsóknarflokksins. Í upphafi þessa árs birti hann prýðilega grein um sambandið á Kjarnanum. Svo vill til að meðan hann var að skrifa hana áttum við samtal um stjórnmálin, framtíðina og efni þessarar löngu greinar. Skoðanir okkar fóru saman um margt. Greinin endar svona: „Innan ESB geta Íslendingar eflt og þroskað þjóðlíf sitt, með eigin miðju og miðstöð í ættlandi sínu. Gott verður betra.“
Ég hef, held ég, engum sagt frá samtölum sem ég átti við Jón sumarið og haustið 2016. Viðreisn var þá formlega nýstofnuð, en aðdragandinn var langur. Við höfðum haldið marga fundi og fengum þá marga frjálslynda fulltrúa til þess að tala, þó að ekki væru þeir allir virkir.
Árið 2012 héldum við fund á hótel Hilton allmargir áhugamenn um að lífskjör á Íslandi yrðu sambærileg og í nágrannalöndum sem við vildum tryggja með því að ljúka aðildarviðræðum við Evrópusambandið með farsælum hætti. Við vildum meðal annars: „Agaða hagstjórn sem samræmi stefnuna í ríkisfjármálum og málefnum atvinnuveganna markmiðinu um fjármálastöðugleika og upptöku nothæfs gjaldmiðils.“ Jón var einn þeirra sem skrifaði undir yfirlýsingu fundarins.
Í framhaldinu héldum við fund í Hörpu árið 2014 undir yfirskriftinni: Samstaða um þjóðarhagsmuni. Þar talaði Jón fyrir fullum sal. Ég var fundarstjóri og sagði í kynningu á Jóni: „Við vildum fá mann sem hefði verið ritstjóri, ráðherra, flokksformaður og Seðlabankastjóri. Mér datt enginn í hug annar en Jón Sigurðsson.“ Þessi kynning féll í góðan jarðveg hjá þeim sem skildu hana.
Jón talaði einarðlega gegn tillögu Gunnars Braga utanríkisráðherra sem vildi slíta aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Hann sagði meðal annars: „Þjóðin þarf á því að halda að fallið verði frá lokunarstefnu en framfylgt í staðinn varkárri opnunarstefnu sem miðar að virkri þátttöku Íslendinga með öðrum þjóðum í sameiginlegri framtíð.“ Síðar sagði hann og hæðnin leyndi sér ekki: „Annar þáttur í umræðunni er sá að þjóðargjaldmiðli okkar er þakkað, já honum er þakkað, fyrir almenna kjaraskerðingu og hrun í lánakerfi landsmanna.“
Hann endaði svona: „Sagan sýnir að íslensk menning nær mestri reisn þegar straumarnir leika þvingunar- og hindrunarlaust. Metnaðarfull opnunarstefna eflir umburðarlynda kristna þjóðmenningu og íslenskt þjóðerni á tímum sívaxandi alhliða samskipta og menningaráhrifa. varnarmúrar lokunarstefnu verða aðeins flótti, frestun og undanhald. Aðeins opnunarstefna getur orðið grunnur undir öflugu sjálfstæðu þjóðríki til framtíðar.“
Þess vegna var það ekki út í loftið þegar ég spurði Jón hvort hann vildi ekki ganga til liðs við okkur í Viðreisn haustið 2016. Jón tók mér vel, þá sem fyrr, útilokaði ekki neitt, en sagðist vilja bíða niðurstöðu flokksþings Framsóknarflokksins sem var haldið í Háskólabíói í byrjun október.
Ég vissi vel hvað hann var að hugsa. Þegar Sigurður Ingi felldi sitjandi formann, mann sem hafði komið Íslandi rækilega á kortið þegar Panamaskjölin svonefndu voru birt, vissi ég að Jón myndi vilja styðja nýjan formann og ræddi málið ekki frekar.
Samtöl okkar eftir þetta leiddu þó í ljós að skoðanir okkar féllu enn saman í stórum málum. Málum sem flestir stjórnmálamenn vilja ekki taka á dagskrá eða ýta út af borðinu. Það hefði orðið þjóðinni og Framsóknarflokknum til gæfu ef víðsýn sjónarmið Jóns Sigurðssonar hefðu orðið ofan á í stefnu flokksins.
Ég mat Jón Sigurðsson mikils og mun sakna samræðna við hann.