Ísland úr NATO er teygjanlegt hugtak

Nóbelsverðlaunahafinn Paul Krugman segir molna hratt undan evrunni og myntbandalagið vera að líða undir lok. Krugman er enginn aukvisi þannig að eðlilega leggja margir við hlustir þegar hann talar. Í sama streng tekur Marta Andreasen, þingmaður á Evrópuþinginu: „Evrópusambandið er að líða undir lok þar sem það ræður ekki við efnahagsvandann.“ Þekktir Íslendingar eru sama sinnis.

Að vísu sagði Krugman þetta árið 2011 og Andreasen árið 2013 og enn ber ekkert á upplausn bandalagsins. Um orðasambandið „er að líða undir lok“ gildir líklega sama og „strax“. Hugtökin eru teygjanleg. Nema náttúrlega að til séu samsíða heimar: Í heimi Krugmans, breskra Íhaldsmanna og ritstjóra Morgunblaðsins eru evran og Evrópusambandið horfin. Hjá okkur hinum lifa þau góðu lífi.

Katrín Jakobsdóttir virðist vera ein þeirra sem halda að ef Ísland yrði fullgildur aðili að Evrópusambandinu breyttist það í Grikkland. Í viðtali í Morgunblaðinu ber hún löndin saman og telur að Íslandi hafi vegnað mun betur en Grikkjum eftir hrun, „standandi utan Evrópusambandsins og án evru“. Samanburðurinn byggir á rökvillu.

Forsætisráðherra gleymir því að staða Grikkja og Íslendinga var gjörólík fyrir hrun. Ríkissjóður stóð vel á Íslandi meðan Grikkland var þá þegar skuldugt upp fyrir haus. Skuldir Íslendinga ruku upp þegar gengi krónunnar hrundi. Skuldir Grikkja jukust vegna þess að ekki var hægt að fela þær lengur.

Krónan var sökudólgurinn á Íslandi (með dyggri hjálp útrásarvíkinga). Ábyrgðarleysi Grikkja í ríkisfjármálum olli viðvarandi kreppu þar. Evrópusambandið afskrifaði skuldir og veitti landinu lán á lágum vöxtum. Svo lágum að lengi vel var vaxtabyrði gríska ríkisins minni en þess íslenska, þrátt fyrir miklu hærri skuldir. Þetta dugði ekki til.

Skoðanir fylgja sjaldnast rökhugsun eins og sést síðar í viðtalinu. Þá segist ráðherrann bæði styðja stefnu VG um úrsögn Íslands úr NATO og öryggisstefnu Íslands sem felur í sér aðild að varnarbandalaginu. Í eðlisfræði væri þetta líklega kallað skoðun Schrödingers, til heiðurs eðlisfræðingnum fræga, sem setti fram hugsanatilraun þar sem köttur getur verði tvennt samtímis, lífs og liðinn.

Ráðherrann getur „vel fellt sig við“ það kerfi veiðigjalda sem hefur fært útgerðarmönnum hundruð milljarða króna á silfurfati undanfarinn áratug á sama tíma og meira en 85% flokksmanna hennar eru hlynnt markaðsgjaldi fyrir afnot af fiskimiðunum. 

Slík afstaða er auðvitað skiljanleg hjá formanni flokks sem kennir sig við vinstri stefnu, en er samtímis aðalhaldreipi Sjálfstæðismanna til þess að koma í veg fyrir vinstri stjórn eftir kosningar. Hamlet kvaldist yfir því hvort hann ætti að vera eða ekki. Okkar ágæta forsætisráðherra finnst bæði betra.


Birtist í Morgunblaðinu 10.9.2021.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.