Allar bestu bækurnar

Föstudaginn 22. maí setti ég færslu á FB:

„Ég er núna með verkefni í gangi að lesa 100 bestu/merkustu klassískar skáldsögur frá 1700-2000. Í því skyni hef ég farið í gegnum ýmsa lista, en er opinn fyrir tillögum (ekki um núlifandi höfunda).

Meðal bóka sem ég er búinn að lesa eru þær sem koma hér á eftir. Nú spyr ég FB vini: Hvaða bækur vantar á listann?“

Í stuttu máli má segja að á listanum sem fylgdi færslunni hafi verið þær bækur sem eru í fyrsta listanum hér á eftir, sem ekki eru sagðar ólesnar.

Hugmyndin hjá mér var að finna þær bækur sem allir verða að lesa (en fæstir gefa sér tíma til). Ég tók það ekki fram, en ég var að fiska eftir erlendum bókum, en þó ekki eftir nýjustu höfunda. Ástæðan er sú að það tekur tíma að bækur verði klassískar. Rithöfundur kemst í tísku, en svo fá allir leið á honum og hann gleymist. Dæmi um þetta eru kannski Gunnar Gunnarsson í Danmörku og Þýskalandi fyrir 1940 eða Kristmann Guðmundsson í Noregi á svipuðum tíma.

Undirtektir voru fádæma góðar. Þegar þetta er skrifað eru ummælin við færsluna orðin 345. Tillögurnar nálgast 200.

Í svona verkefni verður maður að leita sér fanga og skoða lista sem aðrir hafa gert. Það er hætt við að bækur á ensku séu hátt skrifaðar á þeim listum sem mér eru aðgengilegastir. Svo er það vel þekkt að nýrri bækur ná lengra en þær eldri, samanber það sem sagt er hér að framan.

Eigin fordómar hafa alltaf eitthvað að segja. Þegar ég las öll skáldverk Halldórs Laxness á sínum tíma fór ég auðvitað stundum hratt yfir (til dæmis í Vefaranum) en sleppti bara einum kafla, fremst í einum hluta Sjálfstæðs fólks. Mér fannst hann langdreginn og tilgerðarlegur og hljóp yfir hann eftir fyrstu blaðsíðuna. Seinna sá ég að þetta var talinn besti texti sem Halldór hefði skrifað að mati einhvers bókmenntafræðings.

Ég sleppti nokkrum bókum sem ég las í barnaútgáfum á sínum tíma. Skyttunum, Greifanum af Monte Cristo, Ívari hlújárni, Óliver Twist og fleiri slíkum. Íslenskar bækur koma vonandi seinna á lista hjá mér. Ég er hrifinn af Halldóri Laxness, Þórbergi og Íslendingasögunum, svo dæmi séu tekin af bókum sem uppástungur komu um. Biblían er auðvitað merkileg bók, en ekki beinlínis skáldsaga, að minnsta kosti ekki frá 1700 til 2000.

Bækurnar sem ég set hér á listann eru bækur sem mér finnst að vel upplýst fólk eigi að lesa af klassískum bókmenntum. Þetta er ekki tæmandi listi um allt sem ég hef lesið eða vil lesa. Nick Hornby orðaði það svo að maður gæti verið sæmilega heima í tónlist, myndlist og leikritum, en það væri vonlaust að fylgjast með öllu sem væri að gerast í bókmenntum, jafnvel á því þrönga sviði sem við veljum okkur flest.

Það vantar fleiri þýskar, franskar, ítalskar og spænskar bækur, svo ekki sé talað um bækur frá Asíu, Afríku, Mið-Austurlöndum, Suður-Ameríku. En það þýðir ekki að fást um það, svona listar verða aldrei fullkomnir, hversu langir sem þeir eru.

Einn spurði: „Hverju skilar það að þú lesir allar þessar bækur?“

Það er góð spurning. Fyrir mig er áhugaverð bók eins og gönguferð á fallegan stað, eftirminnilegir tónleikar, ljúffeng máltíð, skemmtilegar samræður. Sem sagt upplifun sem ég bý að og get rifjað upp síðar (ef ég man hana).

Góður rithöfundur getur fært mann inn í tíma eða aðstæður sem maður hefði aldrei komist í á annan hátt. Hann skapar hughrif sem stundum hafa mikil áhrif á mann, jafnvel varanleg.

Svo er það spurning hvaða bók er góð. Ég held að það séu bækur sem eru þess virði að hugsa um þær þegar maður er búinn að lesa þær, ekki endilega lesa þær aftur.

Bóklestur er auðvitað fyrst og fremst fyrir mann sjálfan, en getur þó hjálpað öðrum, því að við getum talað saman um bækur sem við höfum báðir lesið (og voru nógu góðar til þess að við munum þær).

Við erum flest sammála um mikilvægi hreyfingar, að við hugsum um heilsuna. Bóklestur eflir hugann eins og góð gönguferð styrkir líkamann. Samfélagið græðir á fólki sem er heilbrigt til sálar og líkama, að ekki sé talað um að það verði víðsýnt líka.

Merkilegar útlendar bækur sem ég verð að lesa

Hroki og hleypidómar Austin
Ólesin Goriot gamli Balzac
Ólesin Tídægra Bocaccio
Jane Eyre Brontë Charlotte
Fýkur yfir hæðir Brontë Emily
Meistarinn og Margaríta Bulgakov
Útlendingurinn Camus
Lísa í Undralandi Carrol
Saga tveggja borga Dickens
Fávitinn Dostojevskí
Karamazov bræðurnir Dostojevskí
Glæpur og refsing Dostojevskí
Ólesin Sound and the Fury Faulkner
Hinn mikli Gatsby Fitzgerald
Frú Bovary Flaubert
Howard’s End Forster
Ólesin 100 ára einsemd Gabriel García Marques
Ólesin Middlemarch George Eliot (Mary Anne Evans)
Flugnahöfðinginn (Höfuðpaurinn) Golding
Ólesin Blikktromman Günter Grass
Gróður jarðar Hamsun
Viktoría Hamsun
To Kill a Mockingbird Harper Lee
Góði dátinn Sveijk Hašek
Ólesin Catch-22 Heller
Gamli maðurinn og hafið Hemingway
Ólesin Vopnin kvödd Hemingway
Ólesin Hverjum klukkan glymur Hemingway
Ólesin The History of Tom Jones, a Foundling Henry Fielding
Brave New World Huxley
A Portrait of the Artist as a Young Man Joyce
Hamskiptin Kafka
Réttarhaldið Kafka
Ólesin On the Road Kerouac
Being There Kosinki
Ólesin Búddenbrooks Mann
Ólesin Ditta mannsbarn Martin Andersen Nexö
Ólesin Tunglið og tíeyringurinn Maugham
Ólesin Homo faber Max Frisch
Ólesin Móðirin Maxim Gorki
Moby Dick Melville
Ólesin Bartleby, the Scrivener Melville
Lolita Nabokov
Ólesin The Scarlet Letter Nathaniel Haethorne
1984 Orwell
Dýrabær Orwell
Ólesin Sívago læknir Pasternak
The Bell Jar Plath
Bjargvætturinn í grasinu Salinger
Ólesin Frankenstein Shelly
Ólesin Kristín Lafransdóttir Sigrid Undset
Ólesin Lygn streymir Don Sjokolov
Ólesin Dagur í lífi Ívans Denísovítsj Solzhenítsyn
Ólesin Kátir voru karlar/Tortilla Flat Steinbeck
Ólesin Þrúgur reiðinnar Steinbeck
Ólesin Ægisgata Steinbeck
Ólesin Mýs og menn Steinbeck
Anna Karenína Tolstoy
Ólesin Stríð og friður Tolstoy
Stikilsberja-Finnur Twain
Birtingur Voltaire
Myndin af Dorian Gray Wilde
Ólesin Glataðir snillingar William Heinesen
Ólesin Frú Dalloway Woolf
Ólesin Veröld sem var Zweig

Af þessum bókum er Stríð og friður mjög ofarlega á baugi hjá mér, en ég óttast að hún muni einangra mig frá samfélaginu í margar vikur. Steinbeck og Hemmingway þarf ég að lesa, fyrir utan bókina sem fjölmargir nefndu, en ætti eiginlega ekki að komast á listann vegna þess að hún er ekki skáldsaga: Veröld sem var, eftir Zweig. En þetta eru um 30 ólesnar bækur, sem er ærið!

Merkilegar bækur sem ég hef lesið en ekki á topplistanum

Vonir og væntingar Austin
Plágan Camus
Gegnum spegilinn Carrol
Umrenningar Hamsun
Að haustnóttum Hamsun
Grónar götur Hamsun
Sultur Hamsun
Pan Hamsun
Veisla í farangrinum Hemmingway
Jakob ærlegur Marryat
Percival Keen Marryat
Drakúla Stoker
Sláturhús fimm Vonnegut
The Importance of Being Earnest Wilde
Manntafl Zweig

Flestar þessar bækur voru nefndar einu sinni eða oftar, jafnvel fleiri bækur eftir Hamsun sem fleiri en ég eru hrifnir af.

Bækur nefndar en fara ekki á topplistann í bili

Hér á eftir kemur langur listi af bókum sem ég er viss um að eru flestar afar góðar, en ég þekki þær ekki nógu vel af afspurn til þess að setja þær á listann. Svo treysti ég mér ekki nema í 30 bækur, því að ég veit af reynslu að ég mun lesa fleiri bækur næsta árið en þær sem eru á listanum.

Kíra Argúnova Ayn Rand
Undirstaðan Ayn Rand
Uppsprettan Ayn Rand
At Swim-Two-Birds Brian O’Nolan
The Third Policeman Brian O’Nolan
Kristur nam staðar í Eboli Carlo Levi
Brideshead Revisited Evelyn Waugh
At Swim-Two-Birds Flann O’Brian
Uppvöxtur litla trés Forrest Carter
Kæri herra guð , þetta er hún Anna Fynn
Ministry of Fear Graham Green
Brúin yfir Drínu Ivo Andric
Hringadróttinssaga J.R.R. Tolkien
Shogun James Clavell
Aulabandalagið ( A Confederacy of the Dunces) John Kennedy Toole
Heart of Darkness Joseph Conrad
Ulysses Joyce
Salamöndrustríðið Karel Capek
The Painted Bird Kosinski
Blind Date Kosinski
Tristram Shandy Laurence Sterne
Journey to the End of the Night Louis Ferdinand Celine
Anna í Grænuhlíð Lucy M. Montgomery
Justine Marquis de Sade
Ég lifi Martin Grey
Fjötrar Maugham
Loftslag Max Frisch
Vörnin Nabokov
Grikkinn Zorba Nikos Kazantsakis
Forty-seven rōnin Ōishi Yoshio
Grænn varstu dalur Richard Llewellyn
Kertin brenna niður Sándor Márai
Gösta Berling’s saga Selmu Lagerlöf
Don Kíkóti Servantes
A Simple Story Shmuel Yosef Agnon
Shira Shmuel Yosef Agnon
Allir menn eru dauðlegir Simone de Beauvoir
Hitt kynið Simone de Beauvoir
Effi Briest Theodor Fontane
Líf og örlög Vasílíj Grossman
Vesturfararnir Vilhelm Moberg
To the Lighthouse Virginia Woolf
Slagur vindhörpunnar William Heinesen
Turninn á heimsenda William Heinesen
Naked Lunch William S. Burrough
Berfætlingarnir Zaharia Stancu
Balzac Zweig

Bækur sem voru nefndar en höfundar lifðu á 21. öld

Þessar bækur eru örugglega flestar, ef ekki allar, fínar, en þær féllu utan tímabilsins sem ég var að skoða. (Já ég veit að ég setti 100 ára einsemd á listann sem ég verð að klára, en það er vegna þess að ég verð að klára hana).

The Color Purple Alice Walker
Galileos daughter Dava Sobel
Angelas Ashes Fred McCourt
Ástin á tímum kólerunnar Gabriel García Márquez
Minningar um döpru hórurnar mínar Gabriel García Márquez
The Discovery of Heaven Harry Mulisch
Norwegian Woods Haruki Murakami
Enduring Love Ian McEwan
Dóttir gæfunnar Isabel Allende
Sider house rules John Irving
Ástin og dauðinn við hafið Jorge Amado
Kingsbridge trilogy Ken Follet
Atburðir við vatn Kerstin Ekman
Óbærilegur léttleiki tilverunnar Kundera
Veisla geithafursins Mario Vargas Llosa
Karnak Café Naguib Mahfouz
The Coffeehouse Naguib Mahfouz
Ilmurinn Patrick Süskind
Book of Illusions Paul Auster
Zen og listin að viðhalda vélhjólum Robert Pirsig
Mannsævi Robert Seethaler
A fine balance Rohinton Mistry
Second hand time Svetlana Alexievic
Cloudstreet Tim Winton
Ástkær Toni Morrisson
Nafn rósarinnar Umberto Eco
The Human Stain Philip Roth
Neuromancer William Gibson
Short Cuts Raymond Carver

Loks er þess að geta að margir höfundar voru nefndir sem ég hef ekki fundið neina bók eftir, eða engin bók fylgdi. Einstaka uppástunga var um barnabækur, sem eru fínar, en ekki á dagskrá núna, fræði- eða sjálfshjálparbækur, ævisögur og svo framvegis.

Öllum sem hafa lagt þessu tiltæki mínu lið þakka ég einlæglega. Vonandi tekst mér að birta áfangaskýrslu um lestur síðar á árinu.

One comment

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.