Þorgeir Kjartansson d. 1998

Ormur! Ég þrái þitt bit – mitt blóð
brennur af logandi þrá.
Í æðum mínum er ólgandi glóð,
sem enginn skal fá að sjá.
Bíttu mig fast, svo að blóð mitt renni
og bitsins innst við hjarta ég kenni!
Sveinn Jónsson

Það er freistandi að grípa til frasa þegar Þorgeir Kjartansson er allur. Einn er sá að hann var ekki allur þar sem hann var séður, eins og hann komst sjálfur að orði í ljóði um látið skáld. Þegar Þorgeir var upp á sitt besta flaug hann hærra en nokkur annar. En fáir sukku jafndjúpt þegar á móti blés. Minningar hrannast upp, sumar ljúfar, aðrar sárari.

Þorgeir var alinn upp í Vogunum, gekk í Vogaskóla og brallaði ýmislegt eins strákum er tamt. Eftir landspróf lá leiðin í Menntaskólann við Tjörnina og þá var gaman að lifa. Ég kynntist Þorgeiri fyrst sumarið 1972 í bæjarvinnunni, þótt við vissum hvor af öðrum áður. Bæjarvinnan var upplögð fyrir unga menn sem telja sig hafa margt að segja hver öðrum. Hressandi útiloft, Vogakaffi, glens, gaman og spaklegar umræður sitja í minningunni, sem ekki truflast af mörgum handverkum í þágu borgarinnar. Ég á það Þorgeiri að þakka að ég stalst inn í hóp góðra félaga úr Vogunum sem ég hef verið í síðan.

Ekki minnkaði skemmtunin næsta vetur á eftir þegar menntaskólinn tók við á ný. Og ekki skortir okkur heldur menntaskóla því þeir reyndust ekki færri heldur en tveir þótt báðir væru við sömu götuna. Við vorum sannfærðir um menntaskóli hefði verið stofnaður til þess að láta ljós okkar skína, ekki í kennslustofunum, því að það þótti merki um greindarskort að líta í námsbækurnar, heldur á fundum, í blöðum, í skólasjoppum og ekki síst á böllum. Þá var gaman að lifa. En það tekur sinn toll að lifa lífinu og Þorgeir greiddi fyrstu afborgun þegar kennarar komust að því að þrátt fyrir ársvist í Latínudeild kunni Þorgeir vart eina einustu beygingu á þeirri tungu sem honum var hvorki ástkær né ylhýr. En veturinn eftir, þegar Þorgeir gaf sér tíma til þess að fletta speki Sesars og Síserós (sem Latínugránar kölluðu reyndar Kesar og Kíkeró til þess að sýna yfirburði sína yfir menningarsnauða stærðfræðinga) þá kom í ljós að hann átti auðvelt með að tileinka sér þessa menningartungu, þótt hún hafi fljótlega vikið úr munni hans fyrir afsprengi sínu, frönskunni.

Þorgeir hreif fólk auðveldlega og var víða í fararbroddi. Síðasta árið í Menntaskólanum við Tjörnina var hann ármaður, formaður skólafélagsins. Að loknu stúdentsprófi var haldið út í heim. Nú átti að leggja París að fótum sér. En það fór öðru vísi en ætlað var. Eftir nokkur ár var haldið heim á leið án þess að sögur færu af námsafrekum. En Þorgeir hafði hins vegar drukkið heimsborgina í sig og það duldist engum að hún átti hug hans og hjarta. Og þótt hann setti ef til vill ekki mark sitt á borgina þá tók Íslendingasamfélagið eftir þessum hressilega unga manni.

Þorgeir fann það að hann og gleðiborgin þurftu að hvíla sig hvort á öðru og settist í sagnfræðideild Háskóla Íslands. Þaðan lauk hann prófi með miklum ágætum og mun hafa útskrifast árið 1983 með einhverja hæstu meðaleinkunn úr deildinni fyrr og síðar. Einmitt á þessum árum hefur hann líklega náð best að nýta frábæra hæfileika sína og beisla þá. Enn hélt Þorgeir til Parísar, nú með sambýliskonu sinni á þessum árum, Æsu Sigurjónsdóttur, og gerð önnur atlaga að þessari merku borg. Hann settist í háskóla og ætlaði að halda áfram sagnfræðinámi. En nú var margt fleira sem þurfti að brjótast fram á yfirborðið.

Þorgeir var listamaður. Honum var létt að skrifa og aðrir hrifust með þegar hann tók flugið. Hann samdi pistla fyrir útvarp og sem fréttamaður gat hann fengið heilu fjölskyldurnar til þess að líma sig þétt við útvarpstækið þegar hann breytti sorglegri sögu af dauða barns í franskri fjölskyldu í spennandi sakamálareifara í þriggja mínútna frásögn. Á þessum árum var hann sískrifandi. Hann samdi sögur, stuttar og langar, ljóð og ritgerðir, en fæst af því kom fyrir annarra sjónir og mun nú flest glatað. Vorið 1985 birtist eftir hann allstór ljóðabálkur, Veðraspá, í blaði sem Íslendingafélagið í París (líklega fyrst og fremst Þorgeir) gaf út. Þorgeir taldi sjálfur að þetta væri merkilegt verk en vinir hans sáu hins vegar í því breyttan mann, þótt auðvitað áttaði enginn sig á því þá hvert stefndi. Skömmu síðar yljaði það landsmönnum um hjartarætur að heyra frásögn Þorgeirs af því að íslenskur maður hefði fundið bók Gaimards, þess sem stóð á tindi Heklu háum, með undirskriftum margra þekktra Íslendinga fyrir miðja 19. öld.

Sólstöðudaginn 1985 kom Þorgeir til Íslands og þá þegar var ljóst að ekki var allt með felldu. Í stað hins snyrtilega, ljúfa pilts var kominn gjörólíkur maður, að sumu leyti andhverfa hins, sjálfskipaður snillingur sem ætlaði að leiða þjóðina út úr moldarkofum hugans. Hjá vinum hans og fjölskyldu tók við margra ára kennslustund í geðhvarfasýki. Og þótt þeir sem næstir stóðu Þorgeiri sæju hvers eðlis var, þá var ekki sömu sögu að segja um ýmsa aðra. Hann átti greiðan aðgang að fjölmiðlum um stund og ráðamenn þjóðarinnar fengu símtöl og heimsóknir til þess að kynna háleitar hugmyndir. Það er erfitt að lýsa fyrir þeim sem ekki hefur reynt sársaukann sem því fylgir að sjá hvernig geðveiki getur lagt líf manna í rúst. Verst er að veikin er þess eðlis að erfiðara er að greina sjúkdóminn frá manninum en marga kvilla aðra.

Sumarið 1985 hitti ég Þorgeir nær daglega og fékk einstakt tækifæri til þess að sjá hvernig óheft orka flæddi frá honum. Sólarhringum saman var hann svefnlítill en þuldi upp úr sér frumorta bragi, heilar drápur, með stuðlum og höfuðstöfum ef sá var gállinn á honum, stundum órímaða ef það átti betur við. Frumsamin stef flæddu úr saxófóninum og undarlegar en seiðandi teikningar fylltu alla veggi. Peningar voru ekki vandamál, þeir voru til þess að eyða þeim og það gerði hann óhikað án þess að eiga þá. Haustið 1985 birtist neðanmáls í dagblaðinu NT framhaldssaga eftir Þorgeir undir höfundarnafninu Jón  Jónsson. Í henni segir frá manni sem fékk æxli í meltingarvegi, en það reyndist vera „snillihnúkurinn“ sem gerði söguhetjuna að yfirburðamanni uns hann var farinn að valda óbærilegum vanda. Þessi saga var kannski sú besta sem ég sá frá Þorgeiri, því hann skorti oft þann aga sem þarf til að breyta snjallri hugmynd í gott verk.

Eftir langa mæðu tókst að fá hann til þess að fara í meðferð „í þágu vísindanna“ þannig að menn gætu rannsakað þennan einstaka heila. Við tók löng og erfið læknismeðferð þar sem Þorgeir og hans nánustu fengu að kynnast svartasta þunglyndi, ranghugmyndum, ofsafengnum uppsveiflum og margs konar lækningatilraunum. En þótt oft væri lífið erfitt þá birti til á milli. Hann var ákveðinn í að ná sér á strik á ný þegar hann kom til sjálfs sín, fór í áfengismeðferð og var í reglulegu sambandi við sérfræðinga. Um tíma vann hann ýmis störf fyrir fyrirtæki mitt, Talnakönnun, og þegar allt var í lagi vann þau betur og af meiri kostgæfni en nokkur annar. Þá var aftur gaman að spjalla.

En það líf sem best hefði hentað viðkvæmum huga Þorgeirs, skrifstofuvinna og skriftir, heillaði ekki þegar manían kallaði á ný. Þá héldu honum engin bönd. Oft er erfitt að greina á milli leiftrandi sköpunargáfu listamanns og sjúkleika geðsveiflunnar. Ókunnugir telja þetta heillandi nálgun, fyrir þá sem til þekkja er hún sársaukafull. Þorgeir var alltaf hugmyndaríkur, gerði alvöru úr því sem aðrir töldu fráleitt og langsótt. En hann skorti úthald. Gleðisveitin Júpíters var vinsæl hjá hópi fólks og þar var Þorgeir framarlega í flokki með saxófón sinn og lagasmíðar. Þar var hópeflið látið njóta sín og því erfitt að vita nú hver átti hvaða hugmynd. En enginn vafi er á því að Þorgeir átti ríkan þátt í ferli þeirra, þótt í stórri sveit eigi kannski enginn meira en annar. Geisladiskur þeirra tja, tja kom út árið 1994, en auk þess mun eitt lag þeirra vera til á safndiski. Það þurfti hugmyndaflug til þess að semja lag sem hét Heiðar dansar Cha, Cha, Cha og fá svo Heiðar Ástvaldsson til þess að dansa með sveitinni á dansleik.

Þorgeir kenndi í nokkur ár í Menntaskólanum við Sund og var úrvalskennari sem vakti áhuga nemenda sinna. Hann lauk námi í uppeldis- og kennslufræði við Háskólann og var sem fyrr í fremstu röð meðan hann hafði áhuga á.
Vorið 1997 var Þorgeir í mjög erfiðu veikindakasti og leiðin lá til útlanda sem fyrr. Hann komst þó aftur heim með hjálp góðra manna og á endanum undir læknishendur. Þótt Þorgeir vonaði sjálfur og tryði að veikindum hans myndi ljúka, þá var þeim sem honum stóðu næst ljóst að sveiflurnar minnkuðu ekki með árunum. Hann var líka hræddur við að leita sér meðferðar, því að hann þekkti vel þunglyndið sem fylgdi í kjölfar ofsagleðinnar og óttaðist það. En þegar neyðin er stærst þá er hjálpin stundum næst. Að þessu sinni birtist hamingjan Þorgeiri í líki ungrar stúlku, Rúnu Knútsdóttur Tetzschner, sem kom inn í líf hans þegar hart blés á móti. Hún var honum stoð og stytta og þau fluttu saman í lítið hús. Fyrir jólin kom út lítil og tregafull ljóðabók Þorgeirs, Þar sem það er séð. Þeir sem muna gleðitóna Júpíters sjá í bókinni hina hliðina á Þorgeiri.

Skömmu síðar átti Þorgeir að fara í aðgerð sem talin var lítil, fjarlægja átti hnúð bakvið eyrað. En þá kom áfallið mesta. Þorgeir var með krabbamein og þrátt fyrir hetjulega baráttu mátti hann ekki sköpum renna og lést þann 6. nóvember. Síðustu mánuðirnir voru erfiðir en Rúna náði að flytja birtu í líf Þorgeirs sem gerði honum veikindin bærilegri. Haustið skilur eftir sér góðar minningar um Þorgeir eins og hann var í raun. Að sönnu líkamlega veikur en andlega heill. Fyrir líkn Rúnu verður seint fullþakkað.

Þorgeir átti ástríka foreldra sem áttu erfitt þegar veikindin háðu honum sem mest. En um það getur enginn efast að Þorgeir bar virðingu fyrir föður sínum, Kjartani Jóhannessyni, og athugunum hans á Kötluhlaupinu 1918 og þótti mjög vænt um Valgerði móður sína.

Það líf sem best hefði hentað Þorgeiri fyrirleit hann. Hann þráði líf bóhemsins, listamannsins lífsglaða. Og því er ekki að neita að hvassir vindar lífgleðinnar geta feykt erninum fugla hæst. En í þeim finnur spörfuglinn heldur ekkert skjól þegar hann þarf á að halda. Þorgeir sneri einhvern tíma út úr þekktu spakmæli og sagði: Enginn veit hvað misst hefur fyrr en endurheimt hefur. Vissulega bárum við gæfu til að endurheimta Þorgeir aftur og aftur. Nú gerist það ekki aftur en eftir situr minning um góðan dreng sem sannaði að ekki fer alltaf saman gæfa og gjörvileiki. En gæfan lét hann ekki alveg afskiptan, hún gleymdi honum bara annað slagið. Kannski mátti Þorgeir ekki vera að því að taka hana með sér.

Valgerði móður Þorgeirs og Rúnu, unnustu hans sem og öðrum ættingjum votta ég samúð mína og Vigdísar konu minnar á erfiðri stund.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.