Hvað verður um þá sem verða gamlir?

Í grein sem birtist nýlega í Morgunblaðinu fjallaði ég um þann vanda sem felst í því að lífeyrissjóðir landsmanna standa hvorki undir þeim lífskjörum sem menn vilja njóta sitt ævikvöld, né þeim loforðum sem sjóðfélögum hafa verið gefin. Kerfið byggir á uppsöfnun og því er ljóst að allar breytingar til batnaðar taka langan tíma. Hitt er jafnljóst að menn verða að fara sér hægt og það væru svik við þá sem nú eru að nálgast eftirlaunaaldur að snúa við blaðinu í einu vetfangi. Þarna sem víðar stangast því á óskir og veruleiki.

Sjálfstæðisflokkurinn mótaði á landsfundi sínum í mars stefnu til breytinga á lífeyriskerfi landsmanna, þar sem hvort tveggja er virt: Samtrygging sú sem nauðsynleg er í öllum lífeyriskerfum og vilji manna til þess að spara sér og sínum nánustu til hagsbóta.

Stefnuskrá flokksins um lífeyrismál er stutt en skýr:

  • Flokkurinn hafnar hugmyndinni um einn lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn. Slíkur sjóður væri líklegur til þess að verða gróðrarstía spillingar og miðstýringar sem er andstæð grundvallarhugsjónum flokksins. Krafan um slíkan sjóð er sprottin af því misræmi sem ríkir í lífeyrismálum landsmanna, þar sem lífeyrissjóðir eru mjög misjafnlega reknir og mönnum er haldið gegn vilja sínum í óhagkvæmum sjóðum. Einn sjóður þýðir hins vegar að engin samkeppni ríkir og því enginn hvati til hagkvæmni.
  • Frjálst verði að ávaxta lífeyri sinn hjá hverjum þeim aðila sem til þess verður viðurkenndur. Þetta þýðir að launþegar geta ráðið sínum lífeyrissparnaði sjálfir og þurfa ekki að una því að greiða í sjóði sem sólunda fé. Sjóðum fækkar sjálfkrafa, því menn leita þangað sem best ávöxtun næst.
  • Greiðslur í lífeyrissjóð verði skattlausar þegar þær eru inntar af hendi, en skattlagðar sem tekjur þegar þær væru greiddar sem lífeyrir. Skattfrelsið er sjálfsagt réttlætismál, því þau eru lífeyrisgreiðslur margskattaðar. Það myndi einnig virka sem hvati til frekari lífeyrissparnaðar.
  • Lífeyriseign hvers og eins væri skipt í séreign og sameign. Séreignin gæti yerið tekin út á ákveðnu tímabili, til dæmis 10 til 15 árum. Hún væri eins og önnur séreign og erfðist til maka og barna. Sameignin væri til þess að mæta lífeyri hjá þeim sem lifðu lengur eða hlytu skerta starfsorku og einnig maka- og barnalífeyri. Með þessu blandaða kerfi væri komið til móts við þá sem hrífast af kostum séreignarinnar, þar sem hver og einn fær reglulega yfirlit um sína innistæðu. Hinum væri ekki gleymt, sem ná háum aldrei þannig að þeirra séreign hrykki ekki til, eða misstu starfsorku á unga aldri. Til þess að hvetja til frekari lífeyrissparnaðar gætu menn valið að leggja meira til hliðar en tilskilið lágmark. Lágmarksgreiðsla væri til dæmis 10%, en hámarksgreiðsla á bilinu 20 til 25%. Allur lífeyrissparnaður væri skattfrjáls sem fyrr segir, þangað til útborgunar kæmi.
  • Greiðslur úr lífeyrissjóðum skerði ekki ellilífeyri. Um árabil hafa skattgreiðendur greitt í sameiginlegan sjóð, í þeirri vissu að á elliárum myndu þeir fá ellilífeyri. Ellilífeyririnn er tæpar 12 þúsund krónur á mánuði, en ríkisstjórnin hefur nú séð sér leik á borði að ná þessari rausnarlegu fjárhæð af ellilífeyrisþegum. í frumvarpi sem heilbrigðisráðherra lagði fyrir Alþingi í þinglok nú í vor er lagt til að greiðslur úr lífeyrissjóði skerði ellilífeyri. Með þessu móti hyggst ráð- herra hegna þeim sem sýnt hafa fyrirhyggju enn frekar en nú er gert. Sjálfstæðisflokkurinn hafnaði þessari stefnu á landfundi.

Kerfi það sem hér hefur verið lýst hefur flesta þá kosti sem lífeyrissjóði eiga að prýða. Hver og einn getur fylgst með sinni séreign og gætt síns réttar með því að hefja sparnað annars staðar, telji hann sér það hagstæðara. Öryggisnet er haft fyrir alla, þannig að jafnvel þeim sem ekki velta málunum neitt fyrir sér verða með lágmarkssparnað og þeim er þannig tryggður lágmarkslífeyrir.

Með þessum breytingum myndi ellilífeyrir aukast því launþegar sjálfir hefðu hag af því að leggja meira til hliðar vegna skattfrestunar. Lífeyriskerfið einfaldast, því enginn verður eftir í óhagkvæmu sjóðunum og þeir myndu því sameinast öðrum. Með meiri sparnaði dregur úr erlendri lánsfjárþörf. Mjög fljótlega stórminnka útgjöld ríkisins vegna svonefndrar tekjutryggingar vegna vaxandi lífeyriseignar. Skattfrelsið á lífeyrissparnað skilar sér því til baka.

Það tekur nokkurn tíma þangað til þetta nýja kerfi verður að fullu virkt, en Sjálfstæðisflokkurinn mun ekki koma aftan að ellilífeyrisþegum með því að skerða þann lífeyri sem þeir eiga rétt á frá ríkinu. Hið nýja, frjálslynda kerfi mun hins vegar geta staðið til frambúðar.

Morgunblaðið 19.4. 1991

Færðu inn athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.