Það verður ekki sagt um íslenska stjórnmálamenn að þeir skammti naumt þegar þeir taka sig til. Hins vegar eiga þeir erfiðara með að lyfta höndum þegar að því kemur að samþykkja leiðir til þess að fjármagna „góðverkin“. Fjölmörg dæmi eru til um þetta örlæti þingmanna: Húsnæðiskerfi, námslánakerfi og það sem verður viðfangsefni þessarar greinar; lífeyriskerfi.
Lífeyriskerfi landsmanna er ekki gamalt. Það eru aðeins um tuttugu ár síðan samþykkt var að allir landsmenn skyldu vera í lífeyrissjóði. Sjö árum seinna var það „ákveðið“ í tengslum við kjarasamninga, að lífeyrissjóðir skyldu greiða verðtryggðan lífeyri, en eins og annað fé landsmanna hafði fé lífeyrissjóðanna brunnið á verðbólgubáli áttunda áratugarins. Það var þó ekki fyrr en tveimur árum seinna, eða árið 1979, að lífeyrissjóðirnir gátu verðtryggt það fé sem þeir höfðu til varðveislu og enn liðu nokkur ár þar til þeir nýttu sér allir þennan kost að fullu. Snemma á níunda ártugnum var ástandið þannig, að sjóðirnir höfðu rýrnað um nálægt helming á undangengnum áratug, en á þá höfðu verið lagðar auknar kvaðir.
Á þeim tíu árum sem síðan eru liðin hefur ástandið ekki versnað, en enn þann dag í dag er leitun að þeim lífeyrissjóði sem stendur undir þeim loforð- um sem sjóðfélögum hafa verið gefin. Einn gumar að vísu stundum af því í blöðum að hann standi við öll sín lífeyrisloforð. Þegar grannt er skoðað sést að þetta er líklega rétt, en ástæðan er sú að hann lofar svo litlu!
Núverandi iðgjaldagreiðslur eru einfaldlega of lágar
Algengast er að launþegar greiði 4% af launum sínum í lífeyrissjóð, en á móti komi framlag atvinnurekenda, sem oftast nemur 6% af launum. Ástæðan fyrir því að lífeyrissjóðirnir standa svo illa sem raun ber vitni er ekki sú að þeir reyni ekki að nýta þau tækifæri sem þeim gefast til þess að ávaxta sjóðina sem best. Ástæðan er heldur ekki sú að rekstrarkostnaður sumra sjóðanna er miklu hærri en hægt er að verja með nokkru móti. Skýringin er einfaldlega sú, að vilji sjóðirnir standa undir ellilífeyri, sem nemur 60 til 80 prósent af launum og sómasamlegum barna-, maka- og örorkulífeyri, þá er 10% af launum alls ekki nógu háar iðgjaldagreiðslur. Útreikningar, bæði hér heima og erlendis, hafa sýnt að til þess að ná þessum markmiðum þá þyrftu greiðslur til lífeyrissjóðs að vera mun hærri, eða á bilinu 15 til 20 prósent af launum.
Langt er síðan þetta rann upp fyrir stórum hóp manna. Nú hafa misstórar nefndir, flestar afar fjölmennar, starfað á annan áratug að því að endurskoða lífeyriskerfið. Um lausn á þessum vanda hefur enn ekki náðst samstaða. Ein meginástæðan er sú að lífeyriskjörum er mjög misskipt. Opinberir starfsmenn búa við betri lífeyri en aðrar stéttir. Ekki er einhugur um það með hvaða hætti eigi að jafna þann mun sem þarna er. Einkum er það vegna þess að almennt telja opinberir starfsmenn að þeir búi við lakari launakjör en aðrir og vilja að tekið sé á öllum þáttum samtímis.
Það verður reyndar að teljast ólíklegt, að allir verði sammála um að greiða hærri prósentu af launum til lífeyrissjóðanna. Þess vegna hafa menn fremur einbeitt sér að þeim kosti að draga úr þeim skuldbindingum sem sjóðirnir taka á sig, einkum með því að skerða makalífeyri að hluta eða öllu leyti. Konur ná að meðaltali hærri aldri en karlar og það eru því einkum þær sem njóta makalífeyris. Skerðingin er réttlætt með því að nú sé atvinnuþátttaka kvenna orðin almenn, og því sé óþarfi að þær njóti annars lífeyris en þess sem tengist þeirra launum. Þessi rök standast hins vegar ekki, því laun kvenna eru mun lægri en karla, af margvíslegum ástæðum. Verði eftirlaun kvenna aðeins byggð á launum þeirra, þá munu þær búa viðmun verri kjör í ellinni en í kerfi þar sem þær njóta einnig ekkjulífeyris.
Skattar hér, skattar þar, skattar alls staðar
Annað óréttlæti sem tengist lífeyrisgreiðslum er margsköttun. Þau 4% launa, sem launþeginn greiðir til lífeyrissjós, eru skattlögð eins og aðrar tekjur. Þegar lífeyrir er greiddur er hann skattlagður eins og venja er um tekjur. En ekki nóg með það. Hið opinbera hefur ákveðið að enginn ellilífeyrisþegi skuli vera undir ákveðnum tekjumörkum. Þess vegna fá margir aldraðir, auk venjulegs ellilífeyris, svonefnda tekjutryggingu, sem á að tryggja að enginn fái tekjur undir ákveðnu lágmarki. Þeir, sem hafa sýnt þá fyrirhyggju að borga sjálfir í lífeyrissjóð, fá hins vegar skerta tekjutryggingu; þeim er refsað fyrir forsjálnina. Með svipuðum hætti er farið um greiðslur þeirra sem dveljast á elliheimilum. Á allbreiðu tekjubili er það svo, að þeir njóta þess í engu að hafa meiri lífeyristekjur. Tryggingastofnun greiðir það sem á vantar til þess að lífeyrir og aðrar tekjur dugi fyrir vistgjaldi, en ráðstöfunarfé fer ekki að vaxa með tekjum fyrr en þær eru orðnar verulegar. Kerfið er því fjarri því að hvetja fólk til þess að sýna fyrirhyggju með því að greiða í lífeyrissjóði. Væri það ekki skylda, þá myndu flestir launþegar ekki sjá sér neinn hag í því að vera í lífeyrissjóði (nema ef vera skyldi vegna lánsréttinda sem til skamms tíma þóttu gulls ígildi).
Hvað er til ráða?
Lífeyrismálin verða ekki leyst nema með þeim hætti einum að framlag til lífeyrissjóðanna verði hækkað verulega. Einu gildir hvort það er látið heita svo að atvinnurekandi greiði gjöldin eða launþeginn, í raun er það alltaf launþeginn sem ber byrðina. Hins vegar er það sjálfsagt réttlætismál að lífeyrisgjöld verði aðeins skattlögð einu sinni og í nágrannalöndum er venja að undanþiggja iðgjöld skattgreiðslum. Einnig verður að afnema það óréttlæti að refsa fólki fyrir forsjálni, með því að láta lífeyrisgreiðslur skerða rétt til annarra bóta. Nýlega var lagt fram á Alþingi frumvarp sem gengur enn lengra í þá átt en áður. Í þessu frumvarpi eru tillögur um að tekjutengja hefðbundinn ellilífeyri. Hugmyndin er að spara ríkissjóði útgjöld, en hætt er við að það verði skammgóður vermir, vegna þess að með því dregur enn úr mönnum að leggja til hliðar til elliára.
Í þessari grein hefur ástandinu í lífeyrismálum þjóðarinnar verið lýst, en ekki farið út í það með hvaða móti ætti að standa að útfærslu á úrbótum. Um slíka tillögu mun ég fjalla í grein á öðrum vettvangi á næstunni. Það kemur í ljós að með auknu frjálsræði á þessu sviði mun lífeyriskerfið einfaldast á skömmum tíma, ellilífeyrir mun, aukast og þær tekjur sem ríkið verður af vegna afnáms margsköttunar, munu á nokkrum árum skila sér ríflega til baka með minnkandi útgjöldum til tekjutryggingar.
Morgunblaðið 16. apríl 1991