Teitur Finnbogason – Minning

Það er svo með suma menn, að í hvert skipti sem hugsað er til þeirra hlýnar manni um hjartarætur. Teitur Finnbogason var slíkur maður. Þeim sem hittu hann tók hann vel og stutt var f gamanyrði. Þau Dúna frænka mín og Teitur komu oft heim í Laugarásinn til foreldra minna og það var sérstakt tilhlökkunarefni þegar von var á slíkri heimsókn. Stundum komu þá fleiri ættingjar og kátt var á hjalla. Það sem gerði Teit sérstaklega ævintýralegan í huga mínum á þessum árum var, að mér var sagt að hann gæti dansað kósakkadans og vekti þá mikla lukku. Það var ekki laust við að mér fyndist, að maður sem gæti boðið þyngdarlögmálinu þannig birginn væri hálf göldróttur.

Móðir mín hefur stundum sagt frá því þegar hún kom á Háteig sem barn. Af frásögninni leynir sér ekki að yfir húsakynnum og húsráðendum hefur verið óvenjuleg reisn. Háteigur er ekki stórt hús á nútíma mælikvarða, en ekki varð reisnin minni eftir að þau Dúna og Teitur tóku þar við búi. Þar hefur alla tíð verið tekið vel á móti gestum og þeir látnir finna að þeir væru velkomnir. Ég kynntist Teiti á öðrum vettvangi eftir að Sjóvá og Almennar tryggingar sameinuðust fyrir nokkrum árum. Teitur sat í stjórn Sjóvátryggingarfélagsins í 25 ár og stjórn Sjóvá-Almennra eftir sameiningu félaganna. Á þeim vettvangi kom í ljós að Teitur hafði glöggt auga fyrir tölum og var tillögugóður. Hann var rólegur og yfirvegaður, en gat verið fastur fyrir ef honum þótti þess þurfa með. Félagið sér því á eftir farsælum stjórnanda.

Fyrir nokkrum árum kenndi Teitur sér þess sjúkleika sem Ioks varð honum að aldurtila. Gagnstætt því sem ýmsir aðrir hefðu gert var Teitur ekki á því að leggja árar í bát heldur hagaði hann sér eins og hann ætti langt líf fyrir höndum. Hann vann í starfi sínu í Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar þangað til fyrir hálfu öðru ári. Alltaf var hann duglegur við að dytta að ýmsu á Háteigi og í fyrra ákváðu þau hjón að reisa sér sumarbústað.

Síðustu dagana sýndi hann enn sömu vinnugleðina og starfsþrekið. Hann lagði síðustu hönd á ársreikninga Sjóvá-Almennra og ýmissa dótturfélaga þeirra og sat þar sinn síðasta stjórnarfund föstudaginn áður en hann lést. Ekki var nóg með það, heldur sat hann um helgina landsfund Sjálfstæðisflokksins og tók þar meðal annars virkan þátt í starfi utanríkismálanefndar. Á laugardag bauð hann nokkrum félögum í kaffi heim til Dúnu á Háteigi. Þar var margt skrafað við eldhúsborðið eins og oft áður. Á sunnudag gekk hann enn til starfa og kom heim að kvöldi ánægður eftir viðburðaríka daga. Á mánudag var hann allur. Teitur Finnbogason var maður sem átti skilið að kveðja þetta líf með slíkum glæsibrag.

Teitur var barngóður maður og þau Dúna eignuðust þrjú börn sem öll hafa hlotið gott veganesti úr foreldrahúsum. Barnabörnin hafa einnig verið mikið heima á Háteigi og notið þar afa síns og ömmu. Ég færi Dúnu frænku minni og afkomendum þeirra hjóna samúðarkveðjur mínar og minna.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.