Enginn pistill barst (BJ)

Það hlýtur að vera martröð sérhvers ritstjóra að einn góðan veðurdag komi blaðið hans út eins og fyrri daginn en í því sé ekkert efni. Og þá er ekki átt við hinar venjulegu innihaldsrýru greinar, heldur hreinlega ekkert efni. Það blasti við í dag þegar enginn pistill barst frá Sigurði og voru þá góð ráð dýr.

Í útvarpi hefði verið brugðist við með því að setja lag á fóninn og halda því áfram þangað til einhver kæmi sem eitthvað gæti sagt. Í sjónvarpi myndu menn brosa vandræðalega og segja: Jæja Elín, nú er tæknin eitthvað að stríða okkur.

Það er ekki hægt að gefa sama blaðið út aftur dag eftir dag, hversu gott sem það nú annars er og Netið sem á að vera nútímalegast allra miðla þarf að endurnýja sig helst oft á dag ef mönnum á á ekki að leiðast þófið. Að vísu er varla hætta á því að þjóðfélagið fari í baklás þó að pistil Sigurðar vanti, en það veldur þó þeim fjölmörgu (miðað við lesendahóp pistlanna) vonbrigðum sem segja að pistlar Sigurðar séu langbestir. Þetta er okkur hinum að sjálfsögðu mikil uppörvun, því að þar með höfum við að því að keppa að skrifa jafngóða pistla og hann. Þeir eru líka stystir að jafnaði og því ákjósanleg fyrirmynd.

Í Ameríku voru í gamla daga tvær gamlar konur sem sameinuðu í einum dálki hlutverk Víkverja og Velvakanda hér á landi. Önnur nefndist „Dear Abby“ og hin „Ann Landers“.  Þær voru svo firnalíkar að maður hugsaði með sér hvort svona konur væru fjöldaframleiddar í Ameríku og það reyndist reyndar svo vera, því að þær voru eineggja tvíburar. Menn gátu skrifað þeim bréf og þær reyndu að leysa úr vanda manna. Stundum birtu þær heilræði og ljóð og þá grunaði mann stundum að ekki hefði verið mikið í póstkassanum þann daginn. En það kom fyrir að þær birtu aftur sama ljóðið eða heilræðabálkinn, vegna þess að einhver sagðist hafa týnt þessum gamla dálki, sem hann hefði annars alltaf verið með í veskinu.

Allt var þó í góðu lagi þar til glöggur lesandi, sem líklega hefur klippt út alla dálkana, sá að Ann kerlingin Landers hafði farið út í það að endurbirta 20 ára gömul bréf og ráð, án þess að geta þess að þau hefðu birst áður. Þetta þótti hinn mesti skandall og áhangendur „Dear Abby“ töldu sig góða að fá glæný ráð á hverjum degi. En Abby var ekki lengi í Paradís og einhver fjárans rannsóknarblaðamaðurinn fann að hún hafði stundað sama leik. Þannig voru þessar systur, sem Bandaríkjamenn treystu betur en nánustu ættingjum sínum, staðnar að svindli sömu vikuna.

Þannig að ekki vil ég að við bræður lendum í svipuðum ógöngum og verð því að játa að enginn pistill barst, þannig að lesendur vita ekkert hvar við stöndum í Kárahnjúkum, skattahækkunum eða þenslu á þessum þriðjudegi. (meira næsta þriðjudag).

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.