Að frádregnu monti og innantómum mikilmenskudraumum er ég ekkert (BJ)

Um bænadagana varð ég fyrir því óláni að lasnast, en á móti fyrir því láni í óláninu að ná að lesa nokkrar bækur sem beðið höfðu mislengi. Ein þeirra var Ferðalok Jóns Karls Helgasonar. Glöggir lesendur sjá eflaust að Jón stelur titli sínum frá Jónasi Hallgrímssyni, enda fjallar bókin um ferðalok Jónasar sjálfs, og þá ekki ótímabært fall hans í stiganum eftir kvöldstund á Hvids vinstue, heldur afdrif líkamsleifa hans. Margir verða frægir eftir dauðann, en Jónas varð reyndar þekkt og vinsælt skáld í lifanda lífi. En það er óvenjulegt að bein mann verði til þess að heilt þjóðfélag komist í uppnám.

En ekki skyldi gert lítið úr mikilvægi grafa. Það er frægt að Mozart er grafinn í fjöldagröf sem enginn veit nákvæmlega hvar er. Það finnst mörgum unnendum snillingsins súrt í broti þó að reyndar sjái aðrir ekki að það skipti meginmáli. Menn vilja geta fundið nálægðina við eilífðina með því að standa yfir moldum höfuðsnillinganna.

Jón Karl Helgason skrifar bók sína sem skýrslu og tekst lengst af að setja hana fram sem hlutlaust plagg, upptalningu atburða, kenninga, afbakana, lýsinga, sem hver um sig varpar nokkru ljósi á söguna um bein Jónasar. Þeim sem ekki eru staðreyndir málsins kunnar skal hér með sagt að Jónas lést árið 1845 og var grafinn í Kaupmannahöfn. Eitthundrað og einu ári síðar var aftur grafin upp kista (eða leifar af kistu) með beinum (eða leifum af beinum) sem talið var að væri kista og bein Jónasar. Hvort tveggja var flutt til Íslands, en þar var meiningin að grafa þau í þjóðargrafreitnum á Þingvöllum. Þegar hingað kom var þeim hins vegar stolið, þau flutt norður í land, og við lá að þau yrðu grafin í heimasókn Jónasar. Því ,,hneyksli“ tókst að afstýra og kistan og beinin (ef eitthvað er þá eftir enn) eru við hlið jarðneskra leifa Einars Ben. á Þingvöllum.

Þessi saga er skemmtileg út af fyrir sig og vel þess virði að rifja hana upp öðru hverju sem Jón Karl Helgason gerir skilmerkilega í bókinni. En það sem menn deila um enn þann dag í dag er hvort það séu raunverulega leifar Jónasar sem hvíli í gröfinni á Þingvöllum. Jón Karl blandar saman sögum héðan og þaðan, bæði úr bókmenntum og eigin upplifun, og tekst þannig að fá lesandann til þess að skynja vel hvernig menn gætu hafa verið að hugsa um þetta mál.

Sú kenning er vinsæl að í raun hafi það alls ekki verið Jónas sem var grafinn upp heldur Dani (sem er náttúrlega líklegt þegar grafið er í dönskum kirkjugarði) og þá helst danskur bakari eða slátrari. Jón Karl skýrir ekki nákvæmlega hvernig starfsheiti beinanna varð til, en líklegt má telja að þeim Íslendingum sem vildu gera grína að beinaflutningunum (og erfitt er að lá þeim það, svo upplögð sem sagan er) hafi fundist það lágkúrulegast af öllu að Íslendingar stæðu yfir moldum þessara ómerkulegu (dönsku) iðnaðarmanna. Sjálfur minnist ég þess ekki alls fyrir löngu að íslenskur stjórnandi í atvinnulífinu neitaði að láta taka mynd af sér með bakarahúfu með þeim orðum að aldrei skyldi hann leggjast svo lágt að verða bakari.

Jón Karl segir frá því að bandrískur samsæriskenningasmiður hafi sagt frá því á fyrirlestri, að 95% samsæriskenninga séu rétt. Þessi athyglisverða regla fær engan dóm í bókinni fremur en margt annað. Það er einmitt aðalsmerki stílsins. Með fullkomnu hlutleysi tekst höfundi að draga menn sundur og saman í háði. Jafnframt því sem Jón Karl rekur söguna sjálfa segir hann frá hinum ýmsu kenningum. Margir munu minnast þess þegar Björn Th. Björnsson stóð ábúðarfullur í sjónvarpi yfir gröf þar sem hann sagði Jónas hvíla enn, því að menn hefðu ekki gert sér grein fyrir því að merkingum hefði verið breytt frá því Jónas var grafinn niður þar til hann var grafinn upp aftur (eða ekki). Jón Karl segirfrá því að merkingabreytingarnar hafi verið skýrðar í grein Matthíasar Þórðarsonar þjóðminjavarðar árið 1905, en það var einmitt Matthías sem stjórnaði uppgrefrinum 1946. Jón Karl rekur svo með skipulegum hætti uppgreftrarskýrsluna og eftir að hafa lesið hana getur leikmanni ekki virst annað en að grafið hafi verið á réttum stað og líklegustu leifarnar teknar. Með sömu kurteisinni og lýsingu þeirra staðreynda sem þekktar eru, gerir Jón Karl grín að kenningu Ágústs Sigurðssonar (sem kann að hafa verið sett fram sem grín) um að hluti af beinum Jónasar hafi verið skilinn eftir fyrir norðan.

Jón Karl hlífir engu, og heggur að mörgum í senn með eftirfarandi klausu: ,, Með svipuðum rökum má halda því fram að þeir einstaklingar eða fyrirtæki sem verja fjármunum, tíma eða mannafla í íslenska menningu eða einstök svið hennar öðlist sértakan afnotarétt á fyrirbærum sem eru þó almennt talin sameign íslensku þjóðarinnar. Hér má taka dæmi af Mjólkursamsölunni en hún hefur á liðnum árum tryggt sér tiltekin táknræn réttindi gagnvart íslenskri tungu, bæði með fjárhagslegum stuðningi við Íslenska málstö og öflugu markaðsstarfi undir kjörorðinu: ,,Íslenska er okkar mál.“ “

Jón Karl setur beinamálið í menningarsögulegt samhengi sem einnig er fróðlegt fyrir þá sem vilja kynnast þessum tímum sem nú eru hraðbyri að fjarlægjast okkur. Þar leika þeir Halldór Laxness og Jónas frá Hriflu aðalhlutverk. Öllum er það ljóst enn þann dag í dag hve umdeildur Hriflu-Jónas var. Til dæmis er það talið stjórnmálamönnum til hnjóðs að færa umræðu niður á Hriflustigið með dylgjum og ómálefnalegum málflutningi. Halldór Laxness er miklu nær því að vera þjóðardýrlingur. Eftir að hann fékk Nóbelsverðlaunin varð hann þjóðareign og menn hvar í flokki sem þeir standa geta verið sammála einhverju af því sem í verkum hans stendur.

Jón Karl Helgason varar við hættunni af mikilmennskudýrkuninni og gefur í bókarlok dæmi um samskipti sín við útgefanda á verkum Halldórs, sem fannst Jón velja texta á mjólkurfernu og veggspjald (og bol) sem sýndu Nóbelsskáldið ekki í nægilega virðulegu ljósi. Textarnir eru báðir úr Dögum hjá múnkum. Sá sem á bolinn átti að fara er ,,Að frádregnu monti og innantómum mikilmenskudraumum er ég ekkert.“ Á fernuna átti að fara lengri tilvitnun um ástleitin augu konu sem vildi fá Halldór til að syndga með sér með augunum. Tilvitnunin er skemmtileg en þó fer Jón Karl hér kannski eilítið út af spori hlutleyisstefnu sinnar með því að gera gys að samkeppnisforlagi Bjarts, sem er hans forlag. En hliðarsporið er tilvitnunarinnar virði og þess að við minnumst þess að mikilmennin eru fyrst og fremst menn.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.