Vel heppnuð aðgerð gegn fjögra ára fasista

Fimmtudagmorgunn í Vinnytsia. Irina Dmytriyeva horfir brosandi á Lizu litlu sem er ennþá steinsofandi. Henni dettur ekki í hug á föstudegi verður Liza heimsfræg, litla fjögra ára stelpan sem finnst fjólublár fallegasti liturinn og leikur sér við bangsa. Þegar Rússar réðust á Úkraínu bjuggu þær mæðgur í Kænugarði, en Irina ákvað að flytja á öruggan stað fjarri átökunum. Enginn hefði áhuga á Vinnytsia.

Liza er augasteinninn hennar mömmu sem setur inn margar myndir af henni á Instagram reikninginn sinn. Hún er hreykin af litlu stúkunni sinni, sem á að fara í talkennslu í Lego klúbbinn þennan morgun. Litla stúlkan vaknar glöð eins og aðra morgna og brosir framan í mömmu og knúsar bangsann sinn. Hún veit ekki hvað er að vera frægur og hún veit ekki hvað það er að vera dáin.

Fimmtudagsmorgunn í Moskvu. Sköllóttur maður sefur djúpum svefni í rúmi með gylltum rúmgafli. Umhverfis rúmið eru gegnsæ tjöld dregin allan hringinn til þess að halda frá flugum. Engin fluga mun gera honum mein. Enginn vekur hann. Enginn þorir að vekja hann.

Þegar hann loksins vaknar teygir hann úr sér. Það er sólskin úti og einn geislinn nær að þröngva sér inn milli gluggatjaldanna. „Ég verð að reka þennan bjálfa sem kann ekki að draga fyrir“ hugsar hann í svefnrofunum. Þegar hann reisir sig við verður honum af tilviljun litið á skuggann sinn sem fór á fætur á sama tíma. „Þeir segja að ég sé smár, en skuggi minn er langur og hann á eftir að hanga yfir Evrópu um áratugi.“ Hann er ánægður með orðsnilldina og hugsar á sama tíma til hernaðarsnilldarinnar. „Venjulegt stríð vinnst aldrei nú á dögum, en með því að dreifa sprengjum hér og þar um landið brýt ég fasistana niður.“ Hann er búinn að þylja þessa lygi svo oft að hann trúir henni næstum sjálfur.

Fimmtudagur í Vinnytsia. Irina og Liza litla ganga glaðar yfir Sigurtorg. Himinninn er heiður og þeim finnst þetta góður dagur. Áður en þær lögðu af stað spjölluðu þær um hvað það yrði gaman að koma til talkennarans. Irina setti myndskeiðið á Instagram, ekki til þess að þær yrðu frægar, heldur vegna þess að hún var hreykin af litlu stelpunni sinni.

Liza fær stolt að ýta fjólubláu kerrunni með bangsa. Henni finnst gaman að sjá hvernig skugginn af þeim mæðgum eltir þær. Allt í einu heyrist hljóð sem litla stúlkan hefur aldrei heyrt áður og á aldrei eftir að heyra aftur. Loftvarnarflautur gjalla. Börnin í Lego klúbbnum eru öll send í skjól í kjallaranum. En Liza og mamma hennar eru ekki komnar í klúbbinn. Þær ganga úti í sólskininu á Sigurtorginu þegar sprengja klýfur loftið og lendir í miðri mannþrönginni.

Föstudagur í Moskvu. Ekkert er minnst á Lizu litlu í fréttatilkynningunni sem segir frá því að Rússar hefðu skotið hárnákvæmum eldflaugum á fund úkraínska hersins og erlendra erindreka sem hefðu verið að ræða um afhendingu vopna. Aðgerðin hafði heppnast fullkomlega.

Liza og bangsinn hennar vissu ekkert um vopnasölu. Irina liggur meðvitundarlaus á spítala og veit ekki enn að dóttir hennar er orðin heimsfræg. Hvernig á að færa foreldrum slíkar sorgarfréttir?

Sköllótti maðurinn var ánægður með afrek dagsins. Hann er sannfærður um að þetta sé rétta leiðin til þess að brjóta fasistana á bak aftur. Fasista eins og Lizu og átta ára strákana tvo sem þvældust inn á vopnasölufundinn.

Föstudagur á Íslandi. Roskinn maður veltir fyrir sér leiðara dagsins. Hann fjallar oft um sérstaka hernaðaraðgerð Rússa með sínum hætti. Aldrei yrði viðfangsefnið Liza og mamma hennar, fólk sem hann hefur aldrei hitt.

Veiklundaðir leiðtogar Vesturlanda urðu umfjöllunarefni sem oft áður. Leiðarinn endar svona: „Vesturlönd hefur rekið illilega af leið og verða að breyta um kúrs.“ Enda eru engir sterkir foringjar eftir þegar bæði Boris og Donald hefur verið ýtt út með rangindum.

Sá sköllótti virðist sem betur fer óhagganlegur.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.