Arnarhreiðrið. Ég heyrði þetta nafn fyrst sem heiti á spennubók eftir Alister McLean. Ekki man ég mikið af söguþræði, en í stríðslok var talið að þarna myndu foringjar nasista leita skjóls, sem hefði reyndar ekki verið mjög gáfulegt, því af fjallstindi er erfitt að flýja.
Claudio er frá Ekvador. Hann býr í Austurríki og sérhæfir sig í því að taka ameríska túrista upp á fjall í Þýskalandi. Þegar við Vigdís hittum hann spurði hann: „Hvers vegna ert þú að fara í þessa ferð? Var þetta eitthvað sem þú vildir gera áður en þú deyrð?“ Á ensku sagði hann reyndar: „Was it on your bucket list“, en það er frasi sem kemur úr kvikmynd um einhvern dauðvona mann sem ætlaði að klára allt sem hann langaði til að gera á nokkrum mánuðum sem hann átti ólifaða. Eða það held ég, en myndina hef ég ekki séð. Og satt að segja hefur það aldrei verið sérstök þörf hjá mér að sjá Arnarhreiðrið, hvað þá að ganga upp að því. En þegar ég sá ferðina auglýsta leist mér vel á hana og sannfærði Vigdísi um að þetta væri einmitt það sem hana langaði líka til þess að gera þegar við færum til Saltsborgar.

Rifjum aðeins upp söguna. Arnarhreiðrið er athvarf á toppi Kehlstein sem er fjall skammt frá Berchtesgaden. Hitler hafði verið við rætur fjallsins meðan hann skrifaði bókina frægu Mein Kampf, eða las félaga sínum Rúdolf Hess hana fyrir eða að minnsta kosti seinni hlutann, en þann fyrri skrifaði hann í fangelsi. Þegar hann var orðinn kanslari reisti hann sér hús fyrir höfundarlaunin af þessu meistaraverki sínu, en öll brúðhjón voru skylduð til þess að kaupa eintak. Árið 1937 stjórnaði Martin Bormann, sem var annar skúrkur, uppbyggingunni á þessu glæsihýsi er var ætlað til fundahalda, en það var sannarlega tilkomumikið að hittast í glæsihýsi í 1.834 metra hæð. Það var byggt á 13 mánuðum og nærri daglega slasaðist einhver. Tólf manns dóu líka, en meira virði þótti þó að verkinu lauk vel í tæka tíð fyrir fimmtugsafmæli foringjans, sem haldið var hátíðlegt í hreiðrinu þann 20. apríl árið 1939. Þjóðverjar kalla það Kehlsteinhúsið, en Arnarhreiðrið var nafngift frá franska sendiherranum sem kom þangað 1938.

Við hittum Claudio rétt fyrir klukkan 9 þann 1. október. Hann hefur búið í Saltsborg í 13 ár og datt hug að bjóða upp á sögu- og fjallaferðamennsku til þess að hafa ofan af fyrir sér. Ferðin hófst klukkan níu við Macdonalds hjá lestarstöðinni, en þar rétt við tókum við strætó sem gekk til Berchtesgaden þar sem við áttum að ná öðrum klukkan 10.15. Sá reyndist vera farinn og vorum við þó komin fyrir það. Ég varð fyrir nettó áfalli vegna þess að í fyrsta lagi hélt ég að stundvísi, punklicheit, væri aðalsmerki Þjóðverja og í öðru lagi var spáð rigningu, sem ég vildi gjarnan komast hjá. Klukkutímanum eyddum við á kaffihúsi og fengum okkur bita og vökva sem var reyndar nauðsynlegt því við höfðum gleymt að fá okkur pasta kvöldið áður. Töfin kostaði okkur klukkutíma og ég hugsaði öðru hverju: „Ef við hefðum komist í fyrri strætóinn þá værum við komin lengra.“ Sérstaklega þegar skýjahulan þéttist, sem hún sífellt gerði.

Sem betur fer reyndum við ekki að ganga af stað á þessum klukkutíma því að leiðin upp að hótelinu þar sem gangan svo byrjaði var bæði löng og brött. Vagninn kom svo 11.15 og allt gekk vel upp að Obersalzburg, en þar var á sínum tíma bæði sumarhús foringjans og Görnings, feita flugmarskálksins sem safnaði listaverkum sem hann keypti fyrir lítið (það mætti jafnvel segja að hann hefði stolið þeim). Í garði Görings sprönguðu ljón, en Hitler var hófsamari á þessu sviði sem öðrum.


Við fórum fyrst á hótelið Berggasthof, þar sem mjög glæsilegt útsýni blasir við út um stóran gluggann. Sagt er að Adolf hafi fyrst farið þangað árið 1923 og unað sér svo vel að hann reisti sér hús þar þegar hann var orðinn einræðisherra. Inni í skóginum gengum við að lítilli steypuplötu þar sem Claudio sagði að Hitler og Hess hefðu setið við að skrifa Mein Kampf. Þar er ekkert annað sem sýnir að þarna hafi verið kofi. Hvergi var neitt minnst á AH nema í Ipaddinum hans Claudios sem sýndi okkur margar myndir meðan hann sagði sögur. Á einni var foringinn tilvonandi í lederhosen, en sú mynd var ekki sýnd opinberlega fyrr en eftir stríð. „It shows he had great legs“, sagði Claudio.

Við örkuðum svo af stað, líklega um tólfleytið. Fallegir haustlitir á leiðinni, en þoka og rigning drógu úr útsýninu, sem þá var nokkuð. Claudio stoppaði á nokkrum stöðum þar sem við gátum fengið okkur smábita og sopa. Einn hópur ungra manna gekk hratt framhjá okkur, meðal annars einn sem var í stuttum bol og knöppum buxum þannig að við blasti fallegt tattú á bakinu og niður eftir rasskinninni. Mér hefði verið alveg sama þótt ég hefði farið á mis við þessa upplifun. Svo voru líka einn eða tveir hjólreiðamenn á uppleið, en fleiri fóru niður, það er líklega léttara. Claudio sagði að á sumrin væru stígarnir fullir af fólki. Hægt er að ganga fram í október, en núna í september snjóaði og fjallið var lokað í nokkra daga. Rúturnar sem allar voru á sumardekkum komust þá ekki þrönga vegina.

Eftir rúmlega tveggja og hálfs tíma göngu komum við upp á bílastæði. Hækkunin er um 800 metrar. Þar er snarbrattur hamar en maður fer í gegnum göng að lyftu upp í veitingahúsið sem er þar. Sagt er að foringinn hafi bara komið þangað 14 sinnum, en hann var miklu oftar í húsinu sínu sem er nálægt þeim stað sem við byrjuðum á. Göngin ná hálfri bíllengd lengra en að lyftunni, til þess að foringinn gæti gengið beint inn í hana. Þau eru um 100 metra löng, en ekki breiðari en svo að bílarnir urðu að bakka út aftur. Sagt er að húsið og vegurinn að því hafi kostað jafnvirði 28 milljarða króna að núvirði að frátöldum mannsskaðanum. Það eru tveir milljarðar á hverja heimsókn.

Rétt í lokin á göngunni fór að rigna og skjólið var kærkomið. Þarna uppi voru nokkrir svartir fuglar, en engir ernir. Líklega krákur, þó að ég hefði kallað þá hrafna, er ekki vel klár á muninum. Á veitingahúsinu fengum við okkur heita drykki, ég glögg og Vigdís heitt súkkulaði. Í veitingasalnum er fallegur arinn úr marmara sem talið er að Mussolini hafi gefið vini sínum. Fyrir utan veitingahúsið eru nokkur spjöld sem rekja söguna. Útsýnið þar er örugglega fallegt í sólskini en þegar þarna var komi sögu var komin hellirigning og ég hljóp upp að krossi þar fyrir ofan með óvenjulegu lagi. Þó ekki hakakross heldur keltneskur kross sem þeir voru líka hrifnir af drengirnir, en ég veit ekki hvenær hann var settur upp. Flýtti mér svo niður en steig í poll þegar amerískt par tróðst fram fyrir mig. Það er ekki gott að vera blautur í fæturna, en sem betur fer var mestur hluti göngunnar búinn. Fórum svo aftur niður í lyftunni, sem er mjög skrautleg, með gylltum römmum, gamalli klukku og síma.

Leiðin lá svo aftur niður að Berggasthof en þar fórum við í lokagönguferð að hótelinu Hotel zum Türken sem er skammt frá staðnum þar sem Berghof, hús Adolfs hafði staðið á sínum tíma. Hótelið er núna tómt, en var selt fyrir tveimur árum, en ekki vitað hver keypti. Borgarstjórinn hefur þó sagt samkvæmt Claudio að það verði: „In right hands“. Svo bætti hann við: „Let‘s hope they are not extreme right hands.“

Hitler hafði reist Berghof fyrir hagnað af Mein Kampf og húsið var stórt og glæsilegt á sínum tíma, en nú er ekki hægt að sjá nokkrar minjar um það. Bretar létu sprengjum rigna á það 26. apríl 1945 og eftir voru rústir, en það sem eftir var rifið árið 1952. Nú sést hvorki tangur né tetur af því nema kannski veggur bakvið húsið. Þarna er sagt að foringinn hafi vaknað seint, gengið svo niður í tehúsið og komið svo aftur heim, en lagt sig fljótlega. Þessu háttalagi hélt hann að sögn áfram hvað sem á dundi. Sjötíu árum eftir að húsið var jafnað við jörðu virðist skógurinn jafnþéttur þar og annars staðar. Betur að nasisminn hefði horfið jafngersamlega og þetta hús. Auðvitað komst maður ekki hjá því að hugsa á sama tíma og við værum að ferðast aftur á bak í tíma væri annað illmenni búinn að hefja nýja og tilgangslausa styrjöld í Evrópu, stríð sem kannski verður til þess að við hættum að tala um seinni heimsstyrjöldina og þurfum að gefa henni númer eins aðrar þjóðir.

Kannski sagði það einhverja sögu.