Feiti dópistinn, David Crosby, óklipptur

Á föstudagsmorgni sá ég í fréttunum að David Crosby væri dáinn. Ég lét það vera mitt fyrsta verk að láta klippa mig.

Kannski heyrði ég í fyrsta sinn í Crosby, Stills og Nash á Woodstock plötunni. Annars fylgdist ég ágætlega með í poppinu, keypti fyrstu Woodstock plötuna sem kom til landsins í Hverfitónum, lítilli plötubúð við Hverfisgötu. Síðar átti ég auðvitað Deja Vu og 4 Way Street. Allir alvöru töffarar þekktu Almost Cut My Hair eftir Crosby, en þó að mér finnist lagið flott verð ég að vera sammála því að það var textinn (eða nafnið) sem gerði það ógleymanlegt.

En svo hættu þeir í fyrsta sinn af mörgum. Neil Young var auðvitað flottur með After the Gold Rush og Harvest og Steven Stills var með sóló plötu sem hefur líklega bara heitið Steven Stills. Ég man ekki mikið eftir henni. Nash gerði eitthvað, en áhugaverðasta platan fannst mér koma frá David Crosby.

Áhugaverð er rétt orð. Hún heitir If I Could Only Rember My Name. Hvaða frík kallar plötuna sína svona nafni? David Crosby var sem sé furðufugl. Fyrsta lagið á plötunni er mjög flott: Music is Love. Svo er þarna líka lag sem ætti að vera þjóðsöngur paranojunnar: What Are Their Names? Textinn er svona:

I wonder who they are
The men who really run this land
And I wonder why they run it
With such a thoughtless hand.

What are their names and on what streets do they live?
I’d like to ride right over this afternoon and give
Them a piece of my mind
about peace for mankind
Peace is not an awful lot to ask.

Svo er þarna lag sem heitir Song With No Words. Textinn er svona: Dadadadada, didididididi … Mér finnst það fallegt lag. Textinn er svipaður í Tamalpais High (At About 3).

Eftir það endar platan á tveimur stuttum lögum. Orleans þar sem textinn sem er stutt upptalning á frönskum nöfnum. Crosby hefur ekki alltaf legið jafn mikið á hjarta.

Síðasta lagið I‘d Swear There Was Somebody Here varð hálfgert költ-lag. Kannski ekki stór söfnuður, en við Goggi, vinur minn, vorum hrifnir. Ég man líka að einhvern tíma komu einhverjir sem ég þekkti lítið og hef núna gleymt hverjir voru heim til mín í partí og töldu að þetta lag væri hápunktur plötunnar (og partísins).

Hér slitnaði þráðurinn. Ég man reyndar eftir Newsweek grein sem hét eitthvað á við: Ef þú vilt hræða börnin þín frá eiturlyfjum bentu þeim þá á David Crosby. Hann var þá í alls kyns neyslu og félagar hans, Stills og Nash gátu aldrei verið vissir um að hann væri með þeim, jafnvel þótt líkaminn væri við hliðina á þeim. Það fór reyndar ekki milli mála því hann var að minnsta kosti 130 kíló. Kannski þyngri.

Þegar ég var staddur í Boston árið 2002 frétti ég að vinir mínir ætluðu að sjá Crosby, Stills, Nash og Young í Fleet Center þá um kvöldið. Ég vildi ólmur sjá goðin, en hafði ekki hugmynd um hvernig ég ætti að fá miða. Þá var netið ekki orðið jafnskilvirkt og núna í miðasölu. En einhvern veginn fékk ég símanúmer hjá einhverjum skalper (scalper, a person who resells shares or tickets at a large or quick profit). Bjóst við að heyra í einhverjum gaur með djúpa rödd og ítalskan hreim, en sá sem svaraði var mjög kurteis og spurði hvar í salnum mig vantaði miða. Ég hafði skrifað hjá mér númerið á sætunum hjá vinum mínum og þegar ég sagði honum það svaraði hann: „Ég á miða þar nálægt.“ Ég varð auðvitað að vita hvað miðinn átti að kosta og bjóst við að þar færu mánaðarlaunin, en svarið var: „95 dalir“. Við mæltum okkur mót fyrir framan eitthvað almenningssalerni rétt hjá tónleikahöllinni klukkan hálfsjö. Þangað mætti ég með hálfum huga og bað vini mína að hafa auga með mér, svo þeir gætu bjargað mér þegar hann drægi upp hnífinn. En á mínútunni hálf kom ósköp venjulegur náungi upp að dyrunum að klósettinu, spurði hvort ég væri Benedikt og þegar ég játti því rétti hann mér miðann og ég seildist eftir hundrað dollara seðlinum í vasanum. Bjóst við að hann myndi taka hann og snúast á hæli, en það var ekki. Fimm dali varð ég að fá til baka.

Tónleikarnir sjálfir voru köflóttir. Crosby var ágætur, ekki var annað að sjá en hann væri á staðnum, andlega og augljóslega líkamlega. Steven Stills var reyndar líka orðinn akfeitur og ósköp daufur. Graham Nash var í svaka stuði, en ég fékk á tilfinninguna að hann væri kjáni. Neil Young var jafnskítugur og alltaf, en augljóslega aðalmaðurinn, langbestur og allnokkur af hans sólólögum tekin. Þeir spiluðu líka Almost Cut My Hair. Mér fannst þetta frábært kvöld.

Af rælni fletti ég upp á Crosby í kringum 2015 og sá þá að hann hafði gefið út plötu: Croz. Næstu árin fylgdu tvær í kjölfarið og mér fannst þær allar ágætar. Ekki frábærar, en ágætar. Hann var rúmlega sjötugur, en röddin var svipuð og áður.

Sumarið 2018 sá ég að Háskólabíó auglýsti David Crosby í ágúst. Ég hélt að þetta væri einhver tónleikamynd, en komst svo að því að þarna var kappinn sjálfur á ferð. Hafði samband við Smára, vin okkar, og úr varð að við fórum saman með okkar ágætu eiginkonum.

Byrjuðum á Kaffi Vest sem þá var staðurinn sem aðalfólkið mætti á. Þar var líka Áslaug Kristín Zoega, frænka mín, að vinna. Ég fékk mér humarsúpu og Vigdís fisk. Afar heilnæmt.

Gengum svo yfir í Háskólabíó, en þegar þangað kom var bíóið ekki alveg fullt. Það hafa fleiri en ég misskilið þessa auglýsingu. En þar var góðmennt. Í anddyrinu hitti ég Gunnar Þórðarson sem auðvitað var eitt og sér viðurkenning á því að hér var um stórviðburð að ræða.

Goðið kom svo á sviðið með hljómsveit. Hann var reyndar ekki nema svipur hjá sjón frá því að ég sá hann í Boston, penn áttatíu kílóa (eða svo) maður. En Crosby hafði engu gleymt, var mjög kraftmikill og spjallaði mikið milli laga.

Hann spilaði lag sem heitir Morrison og fjallar um Jim Morrison í Doors. Maður heyrði að þeir voru engir vinir. Í textanum segir meðal annars:

And I have seen that movie
And it wasn’t like that
He was mad and lonely
And blind as a bat.

Síðar sagði hann: „Munið þið eftir öllum flottu lögunum með Crosby, Stills, Nash og Young?

Salurinn fagnaði ákaflega.

Crosby: „Ég samdi ekki neitt af þeim.“

En svo tók hann nokkur CSN&Y lög. Ekki samt Almost Cut My Hair.

Sonur hans spilaði með hljómsveitinni. Hann var gefinn og ættleiddur nýfæddur, en í fyllingu tímans náðu þeir feðgar saman í tónlistinni.

Í hléi fórum við fram og fengum okkur rauðvínsglas. Háskólabíó seldi ekki klassarauðvín.

Þarna voru margir vinir og kunningjar. Bo sjálfur var mættur og þegar ég sagðist vera ánægður með konsertinn, en hefði reyndar fylgst með ferli Crosbys að undanförnu. Þá sagðist goðið hafa gert það líka. Við vorum sammála um að hann væri frábær.

Þarna voru líka frændfólk mitt, Helgi Gunnlaugsson og Hólmfríður, systir hans. Með þeim var einhver stór náungi, sem ég kom ekki fyrir mig. Helgi sagði eitthvað á þá leið að ég myndi auðvitað heilsa nágrönnum og þá datt mér í hug að þetta væri Maggi af Kambsveginum, sem reyndist rétt vera. Mundi ekki til þess að hafa séð hann í nærri 50 ár. Það síðasta sem ég man var við vorum að tala saman niðri á Laugarásvegi og Maggi hafði heyrt nýjustu bítlaplötuna: Let It Be og sagði að hún væri fín. Ég hafði ekki heyrt hana þá og varð að taka hans orð trúanleg.

Þarna voru líka Siggi og Begga, vinir okkar, en við höfðum einmitt verið að tala um þessa tónleika skömmu áður. Bjarni mágur minn lét sig ekki vanta.

Við fórum svo inn í sal og ný og Crosby kom fram og sagði að þetta væri óvenjulegt hlé. Hann væri vanur að fá sér jónu í pásunni, en tónleikahaldararnir hefðu sagt að þeir gætu ekki útvegað neitt slíkt. Mér skilst menn hafi verið liprari við Dylan á sínum tíma.

En nokkrum lögum áður talaði hann reyndar um að hann hefði verið heróínsjúklingur og það væri kraftaverk að hann væri á lífi. Mig minnir að það hafi líka verið sagt í Newsweek greininni, þrjátíu og fimm árum fyrr. Þegar hann hefði verið eiturlyfjaneytandi hefði James Brown fengið hann til þess að klára lagið At the Edge.

Our grasp is so fragile the thread is so thin
I wonder each day if I’m blowing away
I know that I’m lucky
I wouldn’t be here at all if somebody’s hand
hadn’t been where I stand
at the edge of a very great fall

Tónleikunum lauk svo á Wooden ships, sem Crosby samdi með Stills og einhverjum þriðja manni. Hljómsveitinni var svo fagnað eins og við átti, en þegar hún kom fram eftir uppklappið sagði foringinn: „Nú höfum við ekki fleiri lög.“

Dauðaþögn og vonbrigði í salnum.

„En við getum stolið einu.“

Þau smelltu sér í Ohio eftir Neil Young, sem var samið eftir að þjóðvarðliðið skaut fjóra háskólastúdenta í Kent State í Ohio, ungmenni sem höfðu verið að mótmæla Víetnamstríðinu 4. maí 1970. Það var á afmælinu mínu. Ég held að þessi atburður hafi orðið til þess að ég, 15 ára íhaldsbarnið, áttaði mig á því hvað þetta var heimskulegt stríð.

Það kom mér á óvart hvað lögin voru mikið rokkuð, því að á nýlegu plötunum hafði Crosby einbeitt sér að rólegum lögum. Fyrir utan hnjóðið um Morrison var hann jákvæður og glaður.

Frábærir tónleikar og þeir sem ekki komu misstu af miklu.

Hárið var víst farið að þynnast á kollinum, en hann var með prjónahúfu alla tónleikana, en undan henni komu gráir, síðir lokkar. Hann hefur staðist freistinguna að klippa sig fram á gamalsaldur.

Færðu inn athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.