Snilli, sviti og tár

Nú eru bráðum þrjú ár frá því að ég einsetti mér að lesa allar merkilegustu bækur heimsins, bækur sem allir ættu að hafa lesið. Þetta er auðvitað fráleitt markmið, því hver ákveður hvaða bækur eru merkilegar? Enginn hefur lesið allar bækur í heiminum, ekki einu sinni allar bækur á íslensku. Hvaða bækur verður maður að hafa lesið?

Ég hóf vegferðina á því að tilkynna áform mína á FB og bað um aðstoð eða ábendingar. Skemmst er frá því að segja að ég hef sjaldan fengið önnur eins viðbrögð. Alls fékk ég á fjórða hundrað ábendingar af ýmsu tagi og úr þeim bjó ég til lista sem á voru 66 bækur (af því að ég er stærðfræðingur átta ég mig á því að það eru ekki 100, en einhvers staðar verður maður að byrja) og þar af 31 sem ég hafði ekki lesið.

Á þessum þremur árum hef ég kynnt mér marga lista um klassískar bækur og hef bætt við minn lista. Staðan er þannig núna að á listanum eru 114 bækur. Ég er búinn að lesa 106 þar af og byrjaður á flestum hinna.

En þetta er ekki efni pistilsins í dag, heldur hvernig miklir rithöfundar vinna. Ég var nefnilega að ljúka bók eftir núlifandi rithöfund sem mörgum finnst býsna merkilegur, en ég hafði aldrei áður klárað að lesa nema örfáar blaðsíður í. Mig minnti að hann héti Hakamura, en hann heitir víst Haruki Murakami. Hann er japanskur og einhverjar bóka hans hafa komið út á íslensku. Ég hef reynt við tvær af bókum hans áður, en þessi er sú fyrsta sem ég klára. Og hún er ekki einu sinni skáldsaga heldur um það hvernig starf það er að vera rithöfundur.

Ég hef gaman af því að lesa um sköpun, hvernig listamenn vinna. Mér fannst gaman að lesa Sköpunarsögur eftir Pétur Blöndal frænda minn, en hann talaði við 12 rithöfunda um það hvernig þeir skrifuðu. Það fannst mér gaman að lesa. Ég las líka einu sinni bók, sem ég eignaðist af tilviljun og datt í sundur og hefur líklega endað í rusli hjá mér, en í henni var talað um hvernig tónlistarmenn sköpuðu sín meistaraverk. Ég man ekkert hvað hún heitir.

En bók Murakamis, sem á ensku heitir Novelist as a vocation, keypti í Edinborg í desember, um mánuði eftir að hún kom út í enskri þýðingu. Bókin er svolítil karlagrobbssaga sem talar um hve góðum árangri hann hafi náð, hafi unnið fjölda verðlauna og selt bækur í milljónum eintaka, en blandar inn hógværð til málamynda. En líklega hefði ekki verið hægt að skrifa svona bók án þess að segja okkur lesendum frá þessu.

Höfundur segir frá því að hann hafi frá unga aldri verið sílesandi, helst skáldsögur, ekki síst á ensku sem var honum reyndar ekki mjög töm því að hann var latur í skóla og hafði sáralítinn áhuga á námsbókum, því að það voru til óteljandi bækur sem voru skemmtilegri en þær. Það var ekki fyrr en hann var orðinn 29 ára að hann fann hjá sér þörf til þess að skrifa skáldsögu, en hafði þá ekkert efni og hafi ég skilið rétt er það einmitt efni sögunnar. Svo vel tókst til að sagan fékk verðlaun í einhverri samkeppni sem hann sendi hana í.

Einn vinur hans sagði við hann, eftir að bókin fékk verðlaun: „Ef svona bók getur unnið til verðlauna gæti ég eins skrifað verðlaunabók.“ Murakami hefur eflaust sárnað, því þetta mundi hann meira en 40 árum seinna. Segist samt núna hafa hugsað: „Það er ekki svo langt síðan ég hefði ekkert skrifað. Þó að þessi vinur minn segi þetta eflaust til þess að gera lítið úr þá er þetta kannski satt. Hann hefði líka getað skrifað svona ef hann hefði undið sér í það.“

Frumleiki er aðalsmerki mikilla listamanna. Sumir skrifa aftur og aftur sömu bókin, meira eða minna, semja sama lagið, sem er kannski ágætt, en eftir svolítinn tíma fá flestir leið á því, nema kannski harðasti kjarni. (Mér detta í hug Rolling Stones eða Rod Stewart). Halldór Laxness skrifaði alltaf nýja bók, skipti um efni, efnistök og stíl. Mér fannst honum takast misvel upp, en hann þorði að vera frumlegur, þurfti ekki að endurtaka sig.

Murakami nefnir Bítlana þegar hann talar um frumleika. Hann hafi orðið bergnuminn af Please, please me. Beach boys voru líka snjallir í Pet sounds. Í næstu andrá talar hann um Vorblót Stravinskis og Gustav Mahler. Á sínum tíma hefðu einhverjir fengið hjartaáfall og fundist það ganga guðlasti næst að nefna þessa listamenn í sömu andrá. Bítlarnir voru ekki hátt skrifaðir í Þjóðviljanum í nóvember 1963: „Þeir kalla sig „The Beatles“ (framborið Bítils) og helzta auðkenni þeirra auk háralagsins og annarlegs klæðaburðar er sagt það að hljóðin úr þeim séu svo ferleg að annað eins hafi ekki heyrzt á Bretlandi síðan loftvarnalúðrarnir þögnuðu í stríðslok.“ En Murakami, 14 ára gamall, var ekki jafnforpokaður og blaðamenn gamla kommablaðsins.

Minnisbókin er nefnd af sumum rithöfundum sem jafnnauðsynleg og nærbuxur. Sagt er að Halldór Laxness hafi sífellt haft með sér kompu til þess að hripa í einkennilegt orðalag og snjallar setningar. Murakami segist sjaldan hafa skrifað slíkt hjá sér. Sé það eftirminnilegt þá muni hann það. Hann vitnar í að Einstein hafi svarað þegar hann var spurður hvort hann hefði ekki blað og blýant við höndina ef honum dytti eitthvað snjallt í hug: „Nei, það er óþarfi, það gerist svo sjaldan.“

Áhrifavaldarnir eru auðvitað ýmsir þekktir rithöfundar. Hemingway hafi skrifað frábærar bækur snemma á ferlinum: Sólin rennur upp og Vopnin kvödd. Hann talar aftur á móti ekki um Gamla manninn og hafið, sem ég gæti trúað að hefði haft meiri áhrif á hann. Svo tekur Murakami sérstaklega fram að ekki sé nauðsynlegt að starfa sem stríðsfréttamaður eða skjóta fíla (eins og Hemingway gerði) til þess að verða mikill rithöfundur. Hemingway hafi verið orðinn uppgefinn af því að lifa ævintýralegu lífi þannig að um sextugt hafi hann skotið sig. Ég efast um að þetta hafi verið svona einfalt, en Murakami virðist satt að segja hafa lifað heldur óáhugaverðu lífi eftir að hann hætti að reka djassbarinn, skömmu eftir að hann ákvað að verða rithöfundur.

Hann segist ekki taka mark á gagnrýnendum og svara svo flestu sem um hann hefur verið sagt. Rithöfundar segjast vera komnir með þykkan skráp, en eru jafn hörundsárir eins og pólitíkusar sem segja það sama. Einn gagnrýnandi megi þá gefa sitt álit; konan hans. Um hana segir hann: „Álit konunnar minnar er svolítið eins og gömlu hátalararnir mínir, þeir eru ekkert sérstaklega góðir, stórir og fyrirferðarmiklir og með takmarkað tónsvið miðað við nýja hátalara. Tóngæðin eru heldur ekkert sérstök. Maður gæti kallað þá forngripi. En ég er orðinn svo vanur þeim að þeir eru staðallinn sem ég miða tónlist við. Þeir eru orðir hluti af mér.“ Ég er ekki viss um að hún hafi tekið honum hlýlega þegar hún las þessa einkunn, jafnvel þótt hann hafi bætt við (fyrirgefðu ástin mín) innan sviga.

Fyrst og fremst segist hann skrifa fyrir sig. – Það hjálpi auðvitað þegar bækurnar seljast í milljónum eintaka, fá verðlaun, eru ofarlega á sölulistum, eru þýddar á tugi tungumála og fá hrós gagnrýnenda og lesenda. Hann viðurkennir að hafa verið heppinn. En hvað er að því að hafa gaman og njóta þess að skrifa? spyr Murakami. Hann talar ekkert um að hafa blekkt einhverja til þess að kaupa bækur eftir sig með því að kalla þær Norwegian Wood eftir bítlalaginu og Kafka á ströndinni um einhvern strák sem heitir Kafka en á ekkert skylt við hinn eina og sanna.

En hann vinnur agað og skipulega. Skrifar á hverjum degi 40 arkir á japönsku sem hann segir að séu um tvær og hálf blaðsíð á ensku. Aldrei meira eða minna. Svo hleypur hann að minnsta kosti klukkutíma á dag. Laxness vann alltaf ákveðinn tíma á hverjum degi og fór í gönguferðir. Boðskapurinn er að starf rithöfundarins sé ekki innblástur eða snilligáfa, að minnsta kosti ekki ein og sér, heldur fyrst og fremst skipulag og vinna. Þetta mætti verða mörgum innblástur, til dæmis stjórnmálamönnum.

Ég hef ekkert sérstaklega mikinn áhuga á því að lesa aðrar bækur Murakamis eftir þessa. Kannski einhverjar smásögur. Eftir situr að til þess að ná árangri þarf áhuga og aga. Þegar hann byrjar að skrifa lifir hann sig inn í persónurnar sem nánast öðlast sjálfstætt líf. „Ég móta persónurnar og þær móta mig.“

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.