Króníkan af kirkjunni fögru

Mosfellskirkja er falleg og sómir sér vel í sveitinni sem er nafna hennar. Hún er líklega ein af fáum kirkjum, ef ekki sú eina á Íslandi, sem um hefur verið skrifuð saga. Af biskupssetrunum á Hólum og í Skálholti eru margar sögur, en þær eru fremur af biskupum og þeirra afrekum og knyttum en húsunum sjálfum. Fræg er bókin af Vorrar frúar kirkju í París, Notre Dame, sem á ensku er kennd við kroppinbakinn sem þar klingdi bjöllum, en heitir á frönsku einfaldlega Notre Dame de Paris. Sagan af Mosfellskirkju var sögð af sjálfu Nóbelsskáldinu og kaþólikkanum, Halldóri Laxness, sem gerir henni góð skil í Innansveitarkróniku, sem Reynir frændi minn taldi bestu bók Halldórs. Hún var reyndar líka sú eina sem Reynir hafði lesið og hefur þann kost að vera styttri en þær flestar. Ekki var ég viss um að Reynir hefði rétt fyrir sér og dró ég þó álit hans sjaldan í efa, því hann var sá sem ég leit mest upp til af frændum mínum, enda voru flestir sem til hans þekktu sammála um að hann væri skemmtilegasti maður á Íslandi og Ólafur Hansson sagnfræðingur, sem vissi allt, sagði að Reynir væri gáfaðasti maður á Austurlandi. En mig minnti að króníkan væri skelfing leiðinleg, en núna þegar ég glugga í hana sé ég að hún er ekki svo galin.

Því dettur mér hún í hug, að ég lagði leið mína einu sinni sem oftar að Mosfelli sem kirkja dregur nafn af. Halldór segir að Stefán nokkur Þorláksson, sem kom munaðarlaus í Mosfellssveit drengur og dó frá auðæfum, hafi gefið til hennar fjármuni. Sigurbjörn Einarsson, sem í huga flestra jafnaldra minna er hinn eini og sanni biskup, skipaði byggingarnefnd árið 1960 og lagði fyrir hana „að kirkjan ætti að vera í hreinum stíl og beinum.“ Með þetta veganesti var efnt til verðlaunasamkeppni sem tugir arkitekta tóku þátt í. Ormar Þór Guðmundsson, sem síðar var á stofu með Örnólfi Hall, og ég sendist fyrir sem strákur, vann keppnina með Birgi Breiðdal, sem ég kann ekki frekari deili á. Svo fór samt að ekki þótti fært að nota teikningu þeirra félaga heldur leitað til Ragnars Emilssonar, sem vann hjá Húsameistara ríkisins og var líka sonur Emils Jónssonar, formanns Alþýðuflokksins og ráðherra. Um hans tillögu sem ekki hlaut náð fyrir augum dómnefndar var sagt að hún  „ … féll flestum í Mosfellsdal best í geð bæði að svip og gerð …“ Þar naut hann varla föður síns, því ekki hafði frést af neinum Alþýðuflokksmanni í sveitinni, en bændur hafa hreinlega haft góðan smekk og 53 bændur skrifuðu upp á teikninguna til marks um sitt samþykki. Íbúalýðræði hefur ekki risið jafnhátt síðar hér á landi. Pétur Ármannsson kemst svo að orði: „Öðrum þræði ber byggingarlist kirkjunnar merki sinnar samtíðar, áratugar geimferða, vísinda og framfara þegar allt átti að verða mögulegt með hjálp nýjustu tækni.“

Halldór talar ekkert um Messuna á Mosfelli, kvæði Einars Benedikssonar, um drykkfellda prestinn á þessum forna merkisstað sem biskup og hans legátar ætluðu að setja af einn sunnudaginn um hásláttinn þegar var messufall. Presturinn sá segir í kvæði Einars um gömlu kirkjuna:

Mín kirkja er lágreist og hrörlegt hof,
en hver sá sem gefur hér sjálfum sér lof,
hann stendur með stafkarls búnað.
Vesalings hroki af veraldarseim,
með visnandi hendur þú þjónar tveim,
því guð metur aldrei annað í heim
en auðmýkt og hjartans trúnað.

Halldóri var ekkert um Einar gefið, hvers vegna sem það nú var. Honum hefur kannski þótt hann skyggja á sig. Hann var heldur ekki hrifinn af Knúti Hamsun, sem mér fannst skrifa snilldarsögur. Sjálfstætt fólk, sem varð til þess að sveitamenn fyrirlitu Kiljan, eins og hann var kallaður þá, var svar Halldórs við sveitarómantík Hamsuns í Gróðri jarðar. Það er ekki óvenjulegt að stórmennum sé lítið um kollega sína.

Heima hjá mér var búið að taka Halldór í sátt þegar ég man eftir að um hann væri talað. Foreldrar mínir voru ekki hrifnir af Rússadekri og Stalínsdýrkun, en við því sneri hann blaðinu í Skáldatíma og sagði loksins söguna af Veru Hertz sem var leidd burt af leyniþjónustunni fyrir framan Halldór árið 1938, sem þagði um það þunnu hljóði í aldarfjórðung. En það var allt fyrirgefið og Sveinn, móðurbróðir minn, gaf okkur bræðrum, Sigurði og mér, Skáldatíma, hvorum sitt eintak. Gömlu kommarnir eins og Kristinn E. Andrésson, barnaníðingur og blindur stalínisti, töldu að Halldór hefði gengið í björg með þessari bók. Eftir þetta voru allar bækur Halldórs keyptar heima og lesnar af áfergju og ánægju. Bjarni, móðurbróðir minn, sem taldi Halldór á árum áður þjóðhættulegan mann, vildi árið 1967 freista þess að gera hann að forseta og sendi Matthías Johannessen, ritstjóra Morgunblaðsins á Gljúfrastein, til þess að spyrja hvort hann væri ekki til í að bjóða sig fram þegar Ásgeir Ásgeirsson hætti. „Er það gott djobb‘“ spurði Halldór og svo var ekki meira um það talað. Þegar Bjarni var jarðaður árið 1970 var Halldór einn þeirra sem stóð fyrir utan dómkirkjuna í jarðarförinni, en kirkjan var troðfull og mannþröng fyrir utan. Svona gátu menn slíðrað sverðin í gamla daga.

Í morgun skein sólin á kirkjuna og þá sem ákváðu að ganga á fellið á þessum drottins degi. Sagan segir að hauskúpa Egils Skallagrímssonar hafi fundist í kirkjugarðinum rúmlega 200 árum eftir að hausinn (og væntanlega Egill allur) var grafinn, undarlega mikill og báróttur sem hörpuskel. Séra Skafti Þórarinsson, sem þá var prestur í kirkjunni, freistaði þess að kljúfa hausinn með öxi, „en þar sem á kom, hvítnaði hann, en ekki dalaði né sprakk, og má af slíku marka, að haus sá mundi ekki auðskaddur fyrir höggum smámennis, meðan svörður og hold fylgdi. Bein Egils voru lögð niður í utanverðum kirkjugarði að Mosfelli.“ Þetta sagði Snorri í Egils sögu, en hausinn hefur ekki sést síðan fremur en silfur Egils. Þegar við fórum sáum við að hrafn krunkaði á kirkjuþakinu fjærst turninum, rétt eins og jarlsdóttir kvað til Egils í sögunni:

sáttaðu hrafn í hausti
of hræsolli gjalla,
vastaðu at, þars eggjar
á skelþunnar runnusk.

Ég læt lesendum eftir að taka saman og skýra vísuna. Það mætti segja mér að hér komi orðið „skelþunnur“ fyrir í fyrsta sinn í íslensku. Og lýk ég þar þessari króniku.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.