Þessi frásögn gæti byrjað á ýmsum tímum, en ég ætla að byrja um páskana. Undanfarin ár, líklega allmörg ár, hef ég haft það fyrir venju að fara á fjöll á hverjum degi um páskana. Oft hefur það verið byrjun á gönguárinu hjá mér, en seinni árin hef ég líka gengið að vetrinum til svo það á ekki við lengur. Samt hefur þessi siður ýtt ágætlega við mér að fara að hreyfa mig almennilega. Þess vegna var ég með mikið samviskubit þegar ég afsakaði mig með veðurofsa bæði föstudaginn langa og laugardaginn þar á eftir og hélt mig að mestu heima. Hætti mér þó út í búð og þóttist heppinn að koma ólaskaður heim.
Þess vegna ýtti það óþægilega við mér þegar ég sá að gamall bekkjarbróðir minn og félagi, Ingi Bogi Bogason og kona hans Hallgerður Bjarnhéðinsdóttir settu færslu á FB laugardaginn fyrir páska: „Gengum á 7 fjöll Mosfellsbæjar á 7 dögum: Úlfarsfell, Mosfell, Helgafell, Æsustaðafjall, Reykjaborg, Reykjafell, Grímmannsfell. Mikið blautt, mikill vindur, mikið gaman.“ Því til sannindamerkis birtu þau myndir af sér á hinum ýmsu fjallstindum, en Mosfellsbær hefur merkt tindana með nafni og hæð, auk þess sem lagðir hafa verið göngustígar sem flestir eru til fyrirmyndar. Ekki hefði mér dottið í hug að efast um orð Inga Boga, en myndirnar báru með sér að hávaðarok og hellirigning settu mark sitt á margar göngurnar, sem gerði afrek þeirra auðvitað enn meira.
Fyrir mörgum árum settum við Björn, mágur minn, okkur það markmið að ganga á alla tinda Mosfellsbæjar. Við komumst á þrjá, minnir mig, en eftir göngu á Grímmannsfell í nýjum skóm fékk Björn svo illilegt hælsæri að hann gat sig hvergi hreyft í langan tíma og þessi góðu áform urðu að engu. Samt tókst mér á endanum að komast á alla toppana sem ég þekkti, sem eru nokkurn veginn þau fjöll sem þau hjón nefna.
Til þess að gera langa sögu stutta ákvað ég að reyna að endurtaka þetta afrek þeirra hjóna, þó að ég gæti vissulega ekki pantað rokið og rigninguna (sem ég sætti mig bærilega við). Ákvað samt að hafa ekki hátt um áform mín ef mér skyldi mistakast að feta í fótspor þeirra hjóna í bókstaflegri merkingu. Spegill drottningar stjúpu Mjallhvítar sagði frá því að Mjallhvít hefði farið yfir fjöllin sjö áður en hún hitti dvergana sjö. Sjö fjöll eru því heillandi markmið. (Nú má eflaust ekki segja dvergar lengur, þannig að sagan heitir væntanlega Mjallhvít og lágvöxnu meðalmennirnir sjö).
Á páskadag fór fyrri hluti dagsins í að skipuleggja og stjórna páskaeggjaleit þannig að ég var ekki laus í göngu fyrr en um sexleytið. Ég ákvað að byrja á Helgafelli, því það er fremur létt. Enn blés nokkuð, nóg til þess að páskaunginn sem einhver skemmtilegur festir á alla nafnastaura í sveitarfélaginu var fokinn. Mér datt í hug að leita að honum, en ákvað að það gæti verið feigðarflan. Gangan hófst á bílastæði sem er við afleggjara af veginum til Þingvalla. Hún er um 2 kílómetrar upp og niður og tók mig um 40 mínútur í þetta sinn. Stígurinn upp er yfirleitt greiðfær, en í frosti getur hann verið varhugaverður því það er uppspretta sem vætlar úr fremur ofarlega í honum og þar myndast hálkublettur.

Líklega hef ég gengið fyrst á Helgafell einhvern tíma á síðustu öld með Vigdísi minni. Við gengum þá hinum megin frá í skarðinu sem liggur yfir í Reykjadal. Það er lengri leið og að mörgu leyti fjölbreytilegri.

Á annan í páskum var stefnan sett á Grímmannsfell. Þá byrja ég á stæðinu rétt ofan við Helgufoss, en það er við afleggjara sem er hægra megin við veginn, líklega um kílómetra ofan við Gljúfrastein. Fyrst gengum við niður að fossinum sem er fallegur og hefur nú losnað alveg úr klakaböndum sem hann var í fyrir nokkrum vikum. Leiðin liggur svo upp stíg rétt norðan við fossinn og upp að brú yfir Köldukvísl. Svo er stikuð leið upp á topp, en hún var heldur leiðinleg núna, víða for og á einum stað var erfitt að komast yfir læk, sem oftast er lítill farartálmi. Ég ætlaði að fara ofar, en þegar göngufélagi minn fór klakklaust yfir á snjóbrú ákvað ég að gera það líka.

Það reyndist óskynsamleg ákvörðun, því þegar ég var kominn langleiðina gaf snjóhengjan sig og ég fór með henni í lækinn, sem var óvenju djúpur eftir vatnveðrin og ég stóð í vatni upp að hnjám. Með sameiginlegu átaki tókst að koma mér á hinn bakkann. Félaginn vildi snúa við og gerði það reyndar, en þá var stutt eftir á toppinn og ég kenndi mér einskis meins þannig að ég hélt ótrauður áfram og komst á tindinn. Þar var ungi hnýttur við staurinn sem var reyndar hélaður.

Niðurleiðin var tekin með stórum sveig fyrir upptök lækjarins og allt gekk vel. Þræddum þá leið nokkurn veginn beint á bílastæðið þegar við komum yfir brúna. Þessi ganga tók vegna aðstæðna 2 tíma og 10 mínútur, sem er frekar langt.
Fyrst gekk ég á Grímmannsfellið fyrir um 20 árum með félögum mínum í gönguhópi Vilhjálms Bjarnasonar. Þá fórum við upp úr dalnum við minkabú sem var heldur illa lyktandi. Helgufossleiðinni vissi ég fyrst af fyrir nokkrum árum. Haustið 2020 gekk ég þessa sömu leið, en hélt svo áfram upp á Flatafell, sem er í raun annar toppur á Grímmannsfelli, niður og yfir Æsustaðafell og svo sem leið liggur upp á Reykjafell og niður að Hafravatni. Þetta var 13 km ganga sem tók um fjóra tíma. Ég mæli með henni, en Raggi vinur minn benti mér á hana.

Á þriðjudegi, sem bar nafn með rentu í gönguferðum mínum fór ég svo á Reykjaborg. Ég ók upp að Hafravatni og lagði við réttina. Gekk svo eftir stikuðum stíg upp að Borgarvatni. Fljótlega þurfti ég að fara yfir læk sem var óvenju vatnsmikill og ég tók á mig krók til þess að finna greiðfærustu leið yfir hann. Annars var helsti farartálmi bleytan, en oft varð ég að stikla steina og ástunda þúfuhopp í von um að sleppa við mestu keldurnar. Gekk þó misjafnlega, en upp komst ég og niður aftur. Veðrið var ekkert sérstakt þegar ég lagði af stað, en varð svo þokkalegt. Frá Borgarvatni er yfir mýri að fara að Reykjaborg, meira að segja á sumrin. En allt gekk vel. Oft geng ég niður með fjallsbrúnum og fer á lítinn tind sem heitir Lali og á Hafrahlíðina, sem er fjallið ofan við Hafravatn, en þessu sleppti ég núna. Gangan var rétt tæplega 5 km og tók tæplega tvo tíma sem er óvenju langt. Á sumrin og haustin er þetta ágæt tilbreyting frá Úlfarsfellinu.

Fyrst gekk ég á Reykjaborg með Ragnari Jóhannessyni árið 2008, og næst Vilhjálmi Bjarnasyni fyrir um það bil átta árum. Þá gengum við upp úr Mosfellsdalnum. Það er í sjálfu sér ágæt leið, en mér finnst þessi skemmtilegri.
Á miðvikudag gekk ég svo á Reykjafellið sem er ofan við bæinn Reyki í Mosfellsbæ. Nú er kominn góður stígur upp á það og gangan er létt. Eiginlega er Reykjafell bara áfangi á leiðinni áfram, til dæmis að Bjarnavatni þar fyrir ofan. Gangan var ekki nema 2,4 km og tók um þrjú kortér. Þetta er upplagt fjall ef maður vill ganga en nennir ekki (eða má ekki vera að) að ganga mikið.
Gekk fyrst á Reykjafell með Ragga árið 2008. Við fórum svo áfram upp á Þverfell og upp að Bjarnarvatni. Enduðum þá á Reykjaborg.

Vegna þess að gangan var létt og ég í stuði fór ég næst á Æsustaðafjall, sem er með minnstu fjöllum í sveitarfélaginu, en það eina sem er kallað fjall. Maður fer veginn til Þingvalla, en beygir þegar maður er kominn framhjá Helgafelli veginn sem merktur er Hlaðgerðarkot. Ekur svo upp í skarðið og þar er bílastæði og fínn stígur. Leiðin á toppinn er bæði stutt og létt, en falleg í góðu veðri. Á leiðinni er kross sem ég kann engar sögur af. Gangan tók um 40 mínútur og var um 2 km fram og aftur í bílinn. Önnur stutt ganga sem er góð til þess að fara með börn til þess að venja þau við göngur.

Æsustaðafjallið gekk ég fyrst á árið 2010. Frá upphafsstað er líka hægt að ganga á Helgafell og það gerðum við þegar við gengum á það í gamla daga.
Fimmtudagurinn leit út fyrir að vera mikill fundadagur hjá mér, þannig að ég fór af stað klukkan sjö um morgun á Úlfarsfell. Gekk bara á tvo tinda Litlahnjúk og Stórahnjúk, en ekki á Hákinn, sem er staðurinn sem flestir fara á og var áfangastaður minn hér áður fyrr. Núna var göngutúrinn bara 3,3 km en tók 56 mínútur.

Úlfarsfellið er það fjall sem ég hef oftast gengið á, en ég hef enga tölu á hve oft. Mörg hundruð sinnum. Ég gekk fyrst á það þegar ég var um það bil tíu ára með Agnari Kofoed Hansen flugmálastjóra, en hann tók okkur nokkra stráka með sér í göngu. Kosturinn við göngu á Úlfarsfellið er að hún tekur ekki nema 1 ½ til 2 tíma frá því að maður leggur af stað að heiman og þangað til maður er kominn heim að dyrum aftur. Esjan tekur um þrjá tíma með sömu mæliaðferð, en er auðvitað meiri ganga.

Á föstudag kláraði ég svo sjöunda toppinn, Mosfell. Það er skemmtilegt fjall að ganga á því maður getur valið um leiðir, hvort heldur bratta eða fremur létta. Nú tók ég léttu leiðina, ljúfu svo vitnað sé í bókartitil Péturs Eggerz um utanríkisþjónustuna. Niður fór ég aftur á móti nýja leið, að minnsta kosti fyrir mig, stikaða leið suður af fjallinu, skemmtilega tilbreytingu frá þeim leiðum sem ég hef farið áður, en fari maður ekki eftir stikum er auðvelt að komast í hálfgerða sjálfheldu. Þessi ganga er 4 km og tók mig klukkutíma og 20 mínútur.

Mosfellið held ég að ég hafi fyrst gengið á með Birni mági mínum upp úr aldamótum. Gangan hefst við kirkjuna fögru og það er gaman að sjá hana út undan sér á leiðinni niður.

Á leiðinni í bæinn stoppaði ég við Lágafellskirkju og gekk á Lágafell, sem er eiginlega bara hóll. Afar létt ganga, innan við kílómetri á lengd og tók um 20 mínútur.
Þessar stuttu göngur er auðvitað hægt að lengja og fara lengri spöl, sem ég mæli auðvitað með, en enn og aftur, þær eru líka góðar fyrir byrjendur.
Þá var ég búinn með fjöllin sjö og Lágafellið í viðbót og bara sex dagar liðnir. Við Björn mágur minn ætluðum að enda okkar afrek, sem ekki kláraðist, á því að ganga á Esjuna. Reyndar fórum við Esjuna endilanga fyrir nokkrum árum, en það var önnur áskorun, eins og nú er sagt um alla hluti sem ekki eru hversdagslegir.

Klukkan sjö á laugardagsmorgni hélt ég af stað í Esjuleiðangur í glaðasólskini. Fáir voru á ferli, en þó var ég ekki fyrstur á fjallið þennan dag. Ég fór brattari stíginn og leiðin var greið alla leið upp að steini, frost í jörðu og jafnvel hálkublettir hér og þar. Ég var ekki með broddana. Eftir að ég kom upp að steini ætlaði ég áfram niður hringinn, en þar lenti ég í hálku og sneri fljótlega við og fór sömu leið aftur til baka. Sagt er að maður sé í þokkalegu formi ef maður nær að steininum á færri mínútum en aldri og því náði ég, en kannski er það aðallega vegna þess að ég er sífellt að bæta við mig árum. Ferðin í heild var 6,2 km og tók tæplega tvo tíma.

Við Siggi bróðir gengum á Esjuna upp frá Esjubergi árið 1983. Það er fyrsta Esjugangan sem ég man eftir. Síðan hef ég farið margar leiðir upp og niður. Hún er skemmtilegt fjall.

Af því að ég hafði svindlað á Úlfarsfellinu og bara tekið tvo toppa fór ég aftur á sunnudagsmorgni í hávaðaroki og gekk nú á alla þrjá. Vikan hófst seinni partinn á sunnudegi þannig að morguninn féll innan hennar og fjöllin nú loks fullgengin. Þessi ganga var 3,7 km og tók rétt um klukkutíma.
Hringjarinn í Notre Dame og Esmeralda voru ferðafélagar mínir flestar göngurnar. Bók Viktors Hugo er fín og hæfði vel á þessari vegferð upp á fjöllin sjö – meira að segja átta – jafnvel níu, ef frjálslega er talið.