Þú hefur ekkert vit á þessu, gæskur!

Málfrelsi er ein grunnstoðin í frjálsu lýðræðisríki. Engum dettur í hug að segjast opinberlega vera á móti því. Rökræður eru líka frábær leið til þess að kalla fram allar hliðar máls. Samt er það keppikefli margra að kæfa umræðu í fæðingu og hæðast að samráði. Notuð er andstæðan við skoðanaskipti, málefnið er lagt til hliðar og persónur settar í sviðsljósið og rakkaðar niður.

Í glænýjum dæmum er uppnefnum, háði og spotti beitt. Gísli Marteinn er í grein kallaður „pjakkur“ sem þurfi „að siða til“, „drjúgur með sig“ þótt hann sé „farinn að tapa minni“ og „skvaldrar“. Allt er þetta í fyrstu fimm línunum í greininni sem var nokkuð löng.

Bubbi Morthens lýsti sinni skoðun opinberlega og var tekinn föstum tökum. Hann fékk föðurlegar leiðbeiningar um að hafa ekki vit á málunum (ólíkt auðvitað leiðbeinandanum). Snúið var út úr þekktu orðtaki og sagt: „Það hefur alltaf gagnast að etja frægum á foraðið“ og lesendum eftirlátið að rifja upp hvernig máltækið var upprunalega. Í lokin er svo minnt á það undir rós að Alþingi og þeir sem þar sitja úthluta listamannalaunum. Boðskapurinn var: Mundu það Bubbi hvaðan peningarnir koma, áður en þú talar aftur um það sem þú hefur ekki vit á. Þú ert reyndar bara poppstjarna í eldri kantinum og allir vita að gamlingjar vita lítið í sinn haus.

Í sandkassanum í gamla daga var sagt: En hann byrjaði! Fullorðnir vita að það skiptir engu. Séu þeir ósammála eiga þeir að fjalla um málefnið, ekki lítillækka viðmælandann. Bubbi sagðist reyndar hafa verið varaður við því að blanda sér í málin. 

Það er líka skuggalegt þegar valdamiklir aðilar ráðast af krafti á starfsmenn sem vinna sína vinnu. Eftirlitshlutverk og aðhald er alltaf vandmeðfarið og alla má gagnrýna, sé það gert með málefnalegum hætti.

Stofnanir eru aldrei óskeikular fremur en einstaklingar. Bæði Ríkisendurskoðun og Fjármálaeftirlitið lögðu blessun sína yfir blekkingarleik Ólafs Ólafssonar sem beitti Hauck & Aufhäuser bankanum fyrir sig sem lepp, þegar hann keypti hlut í Búnaðarbankanum. Niðurstaða þessara aðila, sem almenningur átti að geta treyst, var notuð til ítrekaðra árása stjórnmálamanna á Vilhjálm Bjarnason sem sá í gegnum blekkingavefinn.

Árásir eru líka stundum nafnlausar á netinu og þeir sem fyrir verða eiga erfitt með að bera hönd fyrir höfuð sér.

Ég spyr eins og Nóbelsskáldið forðum daga: Getum við ekki lyft umræðunni upp á örlítið hærra plan?

Við búum í réttarríki, en ef klekkja þarf á óþægilegum gagnrýnendum gilda aðrar reglur. Þeir sem þora að tala sæta árásum sem valda þeim og þeirra vandamönnum ama og óþægindum. Markmiðið er að vara þá og aðra við. Ef þú þegir ekki, veistu á hverju þú átt von. Fólk ritskoðar sjálft sig eða þegir. Þá er tilganginum náð.


Birtist í Morgunblaðinu 30.4.2021

Færðu inn athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.