Nokkrar góðar bækur og aðrar lakari

Fyrir nokkrum árum skráði ég mig á vefsvæði sem heitir Goodreads. Ég var ekki klár á því hvort hún væri í eigu einhvers auðhrings, en það er víst Amazon sem á það. Öðru hvoru hef ég séð að vinir mínir eru að skrá þar upplýsingar um bækur sem þeir hafa lesið, eru að lesa eða gætu hugsað sér að lesa.

Í fyrradag sá ég að ég hef gefið bókum stjörnur á þessu svæði og í afslöppun í bústað ákvað ég að skrifa nokkrar línur um hverja bók, sem rökstuðning við stjörnurnar. Þetta mun vinnast hægt og rólega, en til þess að leyfa öðrum að kynnast mínum fordómum ákvað ég að deila þeim hér líka.

Röðin á bókunum hefur enga sérstaka merkingu, hún er bara sú röð sem er á Goodreads. Stjörnugjöf er líka alltaf persónuleg, auk þess sem hún byggir á ýmsum þáttum sem koma bókinni ekki beinlínis við. Hvernig var maður stemmdur við lesturinn, hvar var maður á lífsleiðinni, hvaða bækur hafði maður lesið áður? Ég hef lesið margar bækur sem eru greinilega stælingar á öðrum og engar bækur eru skrifaðar án áhrifa frá nokkrum öðrum. Stundum gaf ég bókum sem mér fannst ekki mjög skemmtilegar margar stjörnur, af því að mér fannst þær frumlegar eða þær náðu að kalla fram einhver hughrif.

Bækurnar sem eru með 100 eru á listanum mínum um 100 bestu bækur allra tíma. Hann er breytilegur og enn ekki komnar 100 bækur á hann, en það kemur vonandi að því.

Hér byrjar þetta sem sé:

The Point of Honor eftir Joseph Conrad. **** 100

Mér fannst þessi bók skemmtileg. Hún fjallar um tvo hermenn þar sem annar móðgar hinn (eða ekki) og úr verður ævilöng senna þar sem sífellt þarf að hefna harma, sem kannski engir voru. En á milli þurfa þeir að berjast saman og ná báðir miklum frama í hernum. Á endanum er það svo spurning hvort það er ekki það versta sem þú gerir óvini þínum að sýna honum vinsemd. Stutt (122 bls.) Fjórar stjörnur.

The Heart of Darkness eftir Joseph Conrad. ****

Þetta er drungaleg bók um ferð manns inn í Afríku, líklega upp Kongófljótið, þó að það sé aldrei sagt. Lesandinn veltir því fyrir sér hvort þessi Kurt sé yfirhöfuð til og þá hvers konar furðufugl hann sé.

Ég náði ekki nógu góðu sambandi við bókina, kannski vegna þess að ég hafði séð bíómyndina Apocalypse Now, sem er byggð á hugmynd sögunnar. Kannski fannst mér hún bar ekki nógu skemmtileg. Flokkast undir bækur sem eiga að framkalla hugarástand fremur en skemmtilega sögu. Hún er ekki mjög löng sem er kostur. Fjórar stjörnur.

Veröld sem var eftir Stefan Zweig. **** 100

Bókin hefur öðlast vinsældir á ný eftir að einangrunarsinnum hefur vaxið fiskur um hrygg. Veröldin sem var áhyggjulaus og frjálslega þurfti að víkja fyrir þjóðernishyggju og mannhatri. Skemmtilegar lýsingar frá París og Englandi. Reyndar kom hann víða við.

Zweig skrifaði margar ævisögur og var alls ekki pólitískur rithöfundur, þó að hann væri einlægur Evrópusinni því alþjóðahyggjan fannst honum náttúruleg. Að lokum er hann útskúfaður frá Austurríki þó að hann sé heimsþekktur rithöfundur. Bók sem maður á að lesa, en misskemmtileg. Rúmlega 400 bls. Fjórar stjörnur.

Manntafl eftir Stefan Zweig. *****

Mér finnst Manntafl eiginlega vera smásaga. Kannski er hún Novella, stutt skáldsaga. Stórsnjöll bók um ferðalag yfir Atlantshafið og fund tveggja skákmanna, heimsmeistarans sem er furðufugl og margir hefðu talið byggðan á Bobby Fischer, sem gæti verið ef Fischer hefði verið fæddur þegar sagan var skrifuð og hins dularfulla B. sem sumir telja byggðan á íslenskum manni, Birni Kalman. Hvorugt skiptir máli, sagan er stórsnjöll og í ljós kemur að bakgrunnur B. er býsna átakanlegur. Skyldulesning. Mér tókst meira að segja að komast gegnum hana á þýsku. Um 100 bls. Fimm stjörnur.

Factotum eftir Charles Bukowski. ****

Bókin er eftir groddakarl, sem ég hef ekki lesið annað eftir, bókin datt í hendurnar á mér í bókabúð. Í raun er enginn söguþráður, á blaðsíðunum þvælist aðalpersónan á milli kráa, subbuhótels, fyllibyttna, dópista og vændiskvenna. Samt fannst mér þetta svolítið skemmtilegt og vel stílað. 200 bls. Fjórar stjörnur.

Nótt eftir Elía Wiesel. *****

Ein af þeim bókum sem er mjög erfitt að lesa vegna þess að hún er svo átakanleg. Ég skrifaði um hana á vefinn skömmu eftir að ég las hana. Wiesel segir frá því hvernig smám saman var þrengt að gyðingum í þorpinu þar sem hann bjó, þeir þurftu að skrá sig, svo að ganga með armband með stjörnu. Svo var þeim safnað saman í eitt hverfi. Loks voru allir fluttir í Auschwitz, stað sem enginn hafði heyrt nefndan. „Karlar vinstra megin. Konur hægra megin.“ Ómerkileg orð þegar þau voru sögð og Elía og pabbi hans leiddust í vinstri röðinni. Honum datt ekki í hug að þetta yrði í síðasta sinn sem hann sæi móður sína og yngri systur.

Wiesel lifði augljóslega af, annars hefði hann ekki skrifað söguna og aldrei fengið Nóbelsverðlaunin, en sagan er átakanleg og áhrifamikil. 115 bls. Fimm stjörnur.

A Room with a View eftir E.M. Forster. **** 100

Tiltölulega saklaus ástarsaga sem byrjar á Ítalíu og svo fara söguhetjurnar aftur til Englands. Mér bókin ekki leiðinleg, en verð að viðurkenna að söguhetjurnar eru mér ekki minnisstæðar. 120 bls. Fjórar stjörnur, tæplega þó.

Óbyggðirnar kalla eftir Jack London. **** 100

Þetta er saga um hund sem þvælist úr venjulegu lífi í Boston, minnir mig, yfir á vesturströndina eftir að honum var rænt og svo alla leið til Alaska. Hef ekki lesið mikið eftir Jack London og voru þó einhverjar bækur hans til heima í gamla daga. Þessi er bæði óvenjuleg og skemmtileg, fannst mér. Hundurinn er aðalsöguhetjan, en saga eigendanna blandast inn í frásögnina. 170 bls. Fjórar stjörnur.

Frú Bovary eftir Gustave Flaubert. *** 100

Þessi bók hneykslaði marga á sínum tíma og öðlaðist líklega þess vegna miklar vinsældir. En mér fannst hún langdregin og ekki sérlega skemmtileg. Vissulega brá fyrir góðum tilþrifum, en mér var nákvæmlega sama hvað varð um fólkið. Eiginmaðurinn var of einfaldur, elskhugarnir of flatneskjulegir, frú Bovary of ástsjúk, bókin of löng. Á eiginlega ekki heima á lista yfir allar bestu bækurnar. 330 bls. Þrjár stjörnur.

Glerhjálmurinn eftir Sylviu Plath. **** 100

Átakanleg saga sem lýsir örvæntingarsögu höfundarins, reyndar í skáldsögulíki, en Plath fyrirfór sér skömmu eftir að bókin kom út. Sylvía Plath var merkilegt ljóðskáld og Glerhjálmurinn varð ekki vel þekkt fyrr en eftir að höfundurinn svipti sig lífi. Saga hennar, Ted Hughes, mannsins hennar (þau voru skilin að borði og sæng þegar hún dó) og barna þeirra er eins og tilþrifamikil skáldsaga. Erfiður lestur og margir gefast eflaust upp þess vegna. Um 300 bls. Fjórar stjörnur.

Moby Dick eftir Herman Melville. **** 100

Bókin er allt of löng og margir þekkja hana eflaust í gegnum bíómyndir eða Sígildar sögur, sem voru teiknimyndahefti í gamla daga. Ég fór oft hratt yfir sögu og sleppti heilu köflunum, en mig grunar að hún komi oft út í styttum útgáfum. Samt áhrifamikið drama milli manns og dýrs og Melville var fínn rithöfundur. Bókin hefði haft gott af  miskunnarlausum ritstjóra, sem hefði strikað út marga kafla. Ég man ekki hve margar veiðiferðirnar í lokin eru, fleiri en tíu í endurminningunni. Mæli óhikað með því að hraðlesa stóra hluta. Um 600 bls. Fjórar stjörnur út á dramað og hvalinn, en hangir þó varla í þeim.

Greifinn af Monte Cristo eftir Alexander Dumas. ****

Best að viðurkenna það strax að ég las þessa bók í styttri útgáfu, fyrst á íslensku og svo á frönsku. Þannig að ég get fyrst og fremst dæmt um söguþráðinn sem er æsilegur, drama um  hefnd. Flestir átta sig á því að þetta er bara saga, en einn útrásarvíkingurinn, sem taldi sig eiga harma að hefna, tók hana svo alvarlega að hann kallaði eitt félaga sinna Monte Cristo. Lipur og skemmtileg frásögn. Fjórar stjörnur.

Drakúla eftir Bram Stoker. ***

Þessa bók las ég í íslenskri þýðingu sem Ásgeir Jónsson, nú seðlabankastjóri, gaf út fyrir nokkrum árum. Mér fannst hún ekki sérlega merkileg, en kannski geldur hún fyrir þær fjölmörgu lélegu hryllingsmyndir sem um hana hafa verið gerðar. 350 bls. en mig minnir íslenska útgáfan sé styttri. Þrjár stjörnur.

The Mysterious Stranger eftir Mark Twain. ****

Þessa bók las ég af algerri tilviljun þegar ég keypti heildarverk Twains fyrir dollar eða minna. Hún er allt öðruvísi en þær bækur sem flestir þekkja um Stikilsberja-Finn og Tuma vin hans. Satan birtist allt í einu og ruglar fólk í ríminu. Hún kom mér á óvart, en Twain gekk ekki frá henni í endanlegri útgáfu. Minnta að einhverju leyti á Meistarann og Margarítu. Fjórar stjörnur, en líklega ekki fyrir alla.

Life of Pi eftir Yann Martel. *

Bók sem hver át upp eftir öðrum að væri góð, en ég náði engu sambandi við hana. Tígrisdýr á ferð yfir Kyrrahafið er eflaust brilljant hugmynd og góð túlkun á núvitund, en ekki fyrir mig. Allt of löng líka, 460 bls. Ein stjarna.

Fahrenheit 451 eftir Ray Bradbury. **

Keypti þessa af því hún er á mörgum listum yfir góðar bækur, en hún kemst slíkan hjá mér. Eflaust góð fyrir fólk sem er hrætt við eitthvað, en ég man ekki hvað. Stríð? Einræði? Ofbeldi? Ritskoðun? 190 bls. Tvær stjörnur sem er ríflegt.

Franny and Zooey eftir J.D. Salinger. ****+

Ég las á sínum tíma allar bækur Salingers sem var ekki mikið afrek því hann hætti að gefa út sögur tiltölulega ungur og varð eftir það eins konar einsetumaður (að vísu ekki einn, en hafði lítið samband við umheiminn og vildi ekkert við blaðamenn tala). Sagt að hann hafi skrifað heilmikið í viðbót, en enn hefur ekkert komið út. Bjargvætturinn í grasinu og Franny og Zooey eru einu sögurnar hans, auk tveggja eða þriggja smásagnasafna. F&Z eru eiginlega líka tvær smásögur. Um 100 bls. Fjórar stjörnur plús.

Bartleby the Scrivener eftir Herman Melville. **** 100

Þetta er eiginlega löng smásaga um mann sem neitar að fara af skrifstofunni sem hann var ráðinn á sem skrifari. Mér fannst hún snjöll, en ósköp einföld. Hún var rifjuðu upp þegar Trump neitaði að hafa tapað kosningunum og vildi ekki fara úr Hvíta húsinu. Gjörólík Moby Dick, þekktasta verki Melvilles. 64 bls. Fjórar stjörnur.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.