Um daginn talaði ég við gamlan vinnufélaga minn sem rifjaði upp góða tíma hjá Sjóvá-Almennum, en félagið varð á sínum tíma til við samruna tveggja tryggingafélaga. Ég man vel eftir því að starfsmenn Almennra trygginga báru ugg í brjósti vegna sameiningarinnar, en hann reyndist ástæðulaus.
Nú þykir sjálfsagt að einn forstjóri sé í hverju fyrirtæki, en eftir sameiningu félaganna voru tveir við stjórnvölinn, sem var heillaspor. Saman unnu þeir sem einn maður, Ólafur B. Thors og Einar Sveinsson, og náðu að kalla fram það besta í fari starfsmanna. Samt held ég að hvorugur hafi legið yfir stjórnendabókum, þótt þeir hafið eflaust keypt þær nokkrar á flugvöllum gegnum tíðina. Hér voru einfaldlega vandaðir menn sem allir vissu að mátti treysta.
En hvernig eiga stjórnendur að vera? Líklega gildir það sama í stjórnmálum og í viðskiptum.
Hörður heitinn Sigurgestsson var forstjóri Eimskipafélagsins í meira en 20 ár og naut virðingar. Hann sagði að besta ráð til sín hefði verið: „Vertu vandlátur þegar þú velur þér viðskiptafélaga.“ Veldu félaga til lengri tíma, félaga sem alltaf er hægt að treysta, líka við áföll og þegar á móti blæs.
Hörður vildi aldrei sýnast: „Ég er ekki mikið á ferðinni um fyrirtækið og starfsmenn verða almennt ekki mikið varir við mig. Ég er ekki sá stjórnandi sem gengur um og lætur sjá sig, brosir og heilsar öllum og þekkir alla. Það hentar mér ekki – þótt það henti öðrum.“ Hann safnaði um sig harðsnúnu liði stjórnenda og gerði sér góða grein fyrir því að það er ekkert gagn að eintómum jámönnum, heldur vel menntuðum samstarfsmönnum með bein í nefinu:
„Þegar við vorum ekki sammála töluðum við okkur í gegnum hlutina. … Það var styrkur hópsins að hver hafði sína skoðun og það var tekið tillit til hennar. Ef samstaða náðist ekki var mitt hlutverk að taka af skarið og það þurfti ég stundum að gera.“
Síðar komu fram nýir stjórnendur sem töldu sig jafnan vita best og að leiðin til árangurs væri að „taka snúning“ á viðsemjendunum. Sú vegferð endaði með ósköpum.
Hörður var víðsýnn og íhugull maður sem áttaði sig á því að fyrirtæki eru hluti af ábyrgu samfélagi. Hlutverk stjórnmálamanna væri að búa til kerfi, eftirlit með markaði og viðskiptum, og gera þau virk: „Við eigum að búa til kerfi sem tryggir áframhaldandi frjálsræði og möguleika á því að láta nýjar framtíðarsýnir rætast.“
Lykillinn að árangri Harðar var einfaldur: „Það eina sem ég kann núna er að fást við vandamál – viðfangsefni – og leitast við að leysa þau. Auðvitað reyni ég að horfa mest á heildarmyndina, en ég hef líka lært að nauðsynlegt er að skipta sér af smærri málum.“
Góður stjórnandi fæst við vandamál og leysir þau óhræddur, en ýtir þeim aldrei á undan sér eins og margra er háttur.
Birtist í Morgunblaðinu 21.4.2021.