Enginn er eyland

Alþingi hefur ekki stigið mörg gæfuspor stærri en þegar aukaaðild að Evrópusambandinu var samþykkt. EES-samningurinn er gagnlegasti samningur sem Ísland á aðild að. Verður þeim Birni Bjarnasyni, formanni utanríkisnefndar, Jóni Baldvin Hannibalssyni utanríkisráðherra og Davíð Oddssyni forsætisráðherra seint fullþakkað fyrir að hafa leitt Ísland inn í sambandið og það frelsi sem því fylgir.

Alþjóðasamvinna og samstaða vestrænna þjóða var lengi hornsteinn stefnu Sjálfstæðisflokksins. Formenn flokksins, þeir Ólafur Thors, Bjarni Benediktsson (eldri), Geir Hallgrímsson og Þorsteinn Pálsson voru ávallt meðvitaðir um hve hættulegt það er smáþjóð að einangra sig frá umheiminum. Alþjóðahyggja og frjáls viðskipti voru grundvöllur þeirra lífsskoðunar.

Jónas Hallgrímsson kvað í Alþingi hinu nýja: Sterkur fór um veg, þá var steini þungum lokuð leið fyrir. Ráð at hann kunni, þó ríkur sé. Þjóðskáldið var sannarlega einn besti Íslendingur sinnar samtíðar og vissi gjörla að sjálfstæði jafngildir ekki einangrun. Lausnin er samvinna: Hefðu þrír um þokað.

Réttilega hefur verið bent á að mikill meirihluti allrar viðamestu löggjafar sem Alþingi afgreiðir á hverju ári á uppruna sinn í EES-sáttmálanum. Því fer samt fjarri að Íslendingar samþykki flestar tilskipanir frá Evrópu. Í byrjunarnámskeiðum í rökfræði er bent á að oft rugli fólk saman fullyrðingum. Til dæmis þýðir setningin: Flestir kjánar fara með fleipur alls ekki að flestir sem fara með fleipur séu kjánar.

Okkar ágæti utanríkisráðherra hefur verið duglegur að minna á að frá því að við tókum fyrsta skrefið inn í Evrópusambandið höfum við á degi hverjum tekið upp eina Evrópusambandsgerð. Helgar og aðrir frídagar meðtaldir.

Þetta vekur athygli. Í Morgunblaðsgrein spyr Arnar Þór Jónsson dómari: „Er ásættanlegt fyrir þjóð sem kallast vill sjálfstæð að við getum breytt öllum lögum sem eru í gildi hérlendis, nema þeim sem eiga stoð í EES-samningnum, vegna þess að við höfum engan aðgang að því valdi sem setur reglur á grundvelli EES?“

Þetta er eðlileg spurning. Herði heitnum Sigurgestssyni, forstjóra Eimskipafélagsins, fannst vandskilið „að menn vilji ekki sitja við borðið þar sem ákvarðanirnar eru teknar.“

Í greininni bendir dómarinn á fjölmargar hættur sem steðja að nútíma samfélagi: „Í öllu þessu samhengi eru ótaldar þær hættur sem þjóðaröryggi Íslendinga stafar af skipulagðri glæpastarfsemi, erlendu hervaldi, samkrulli valds og fjármagns, misnotkun fjölmiðla, njósnastarfsemi, veiku fjarskiptaöryggi o.fl.“

Upptalningin undirstrikar að Íslendingum ber að berjast með vinaþjóðum gegn óværunum sem engin landamæri þekkja. Við eigum að stíga skrefið alla leið inn í Evrópusambandið sem fullvalda þjóð meðal þjóða.


Birtist í Morgunblaðinu 12.4.2021

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.