Illska (BJ)

„Sjáið eldinn! Sjáið logana! Logar alls staðar!“

Frú Schächter hafði misst vitið. Maðurinn hennar og tveir synir höfðu óvart farið með fyrstu lestinni og tíu ára gamall sonur hennar hnipraði sig saman í horni á lestarklefanum. Hinir farþegarnir reyndu árangurslaust að leiða vein hennar hjá sér. Þau höfðu byrjað ferðina nokkrum dögum fyrr í Sighet, litlum bæ í Rúmeníu. Eða Ungverjalandi – bærinn var undir stjórn Ungverja.

Eða eiginlega ekki.

Þjóðverjarnir komu nokkrum vikum fyrr.

Það byrjaði sakleysislega. Elía Wiesel og fjölskylda hans voru bara gyðingar – en kannski ekki venjulegir gyðingar. Hann var fimmtán ára og ætlaði að helga líf sitt Jave, fór reglulega að hitta rabbíann í bænum og lærði helga texta.

Þó að íbúarnir vildu lifa lífinu eins eðlilega og hægt er í miðri heimsstyrjöld, vissu auðvitað allir að eitthvað ógnvænlegt var að gerast. Ekki bara stríð; þorpið þeirra hafði sloppið og var fjarri öllum víglínum. Furðufuglinn í þorpinu hafði horfið í nokkra mánuði og þegar hann kom aftur var hann enn skrítnari en áður. Hann sagði að allir ættu að reyna að flýja meðan enn væri tími til – hann hafði séð hvað var um að vera. Samkvæmt því sem hann sagði hafði hann lent í höndum nasista og átti líf sitt að laun einhverri undarlegri tilviljun þegar hann lifði af þegar hinir fangarnir voru skotnir úti í skógi.

Það setti að öllum óhugnað, en hann var nú einu sinni furðufugl …

Þýski hershöfðinginn var sannkallaður séntilmaður og færði borgarstjórafrúnni blóm. Allir sáu að það var ekkert að óttast. Í stríði myndast alltaf kjaftasögur.

Svo þurftu allir gyðingar að skrá sig. Ekkert stórmál samt.

Næst urðu þeir að bera armband með stjörnu. Hvað með það? Armband skaðaði engan.

Svo var þeim safnað saman á ákveðinn stað í bænum. Gettó. Fjölskyldurnar gátu samt verið saman. Vinnukonan hjá fjölskyldu Elías bauðst til þess að koma þeim í skjól, en pabbinn mátti ekki heyra á það minnst. Þau hjónin yrðu að minnsta kosti eftir með yngstu systurinni. Ekkert þeirra fór.

Þegar talað var um að allir yrðu fluttir burt sögðu nokkrir öldunganna að rétt væri að líta á þetta eins og ferðalag í fríið. Það var vor árið 1944.

Elía og fjölskyldan fóru saman í lestarklefa. Dögum saman hélt lestin áfram á óþekktan áfangastað. Nokkrar konur reyndu að róa konuna sem hafði misst vitið. Hún hélt áfram að hrópa: „Gyðingar, sjáið bálið! Logarnir umlykja allt.“

Loks missti einhver þolinmæðina og rotaði hana. Enginn sagði neitt.

Ungverjaland, Tékkóslóvakía, … Allt í einu hægði lestin á sér. Sá við gluggann las á skilti: Auschwitz. Enginn hafði heyrt um þann stað.

Úr lestinni voru gyðingarnir reknir og inn í móttöku.

„Karlar vinstra megin. Konur hægra megin.“

Ómerkileg orð þegar þau voru sögð og Elía og pabbi hans leiddust í vinstri röðinni. Honum datt ekki í hug að þetta yrði í síðasta sinn sem hann sæi móður sína og yngri systur. Hann horfði á móður sína strjúka lokka litlu stúlkunnar meðan þær fjarlægðust í röðinni. Svo hurfu þær.

Skrásetjarinn missti þolinmæðina þegar skilninginn skorti: „Vissuð þið ekki hvað biði ykkar hér?“

Nei, þeir höfðu ekki hugmynd um það.

„Sjáið þið ekki reykháfana? Og logana? Það er ykkar endastöð.“

Nokkrir ungir menn ætluðu að ráðast á verðina. Sumir höfðu enn hnífa á sér. Þeir voru margir sterkir og sögðust ekki ætla að láta fara svona með sig. En þeir eldri sögðu þeim að láta ekki svona. „Við eigum enn von …“, sögðu þeir.

Elía gleymdi aldrei þessari nótt.

Hann gleymdi aldrei reyknum.

Gleymdi aldrei andlitunum á litlu börnunum sem breyttust í ösku og reyk undir þöglum himninum.

Gleymdi aldrei þögninni sem eyddi lífslönguninni.

Gleymdi aldrei þessu andartaki sem myrti sálina og guð og vonina að eilífu.

Aldrei.

„Manstu eftir frú Schächter í lestinni?“ spurði pabbi hans.

Þetta var sífellt verra. Elía breyttist úr Elía í A-7713. Eftir það var hann ekki lengur maður heldur númer.

Baráttan var að halda sér á lífi. Halda pabbanum á lífi. Þeir voru nógu hraustir til þess að fá að vinna. Það var hægt að nýta vinnuafl. A-7713 var starfskraftur meðan hann hélt heilsu og orku.

Hann kláraði fyrsta matarskammtinn á augabragði og var enn svangur. Pabbinn gaf honum sinn skammt.

Gull í tönnum gat keypt smávægileg þægindi, en A-7713 missti sitt bótalaust. Það lá þannig á tannlækninum þá.

Elía var hýddur þegar hann kom að varðstjóranum með stúlku úr nágrenninu. Tuttugu og fimm svipuhögg fyrir að vera á röngum stað á röngum tíma.

Nokkrir voru hengdir að öllum ásjáandi. Allir tóku örlögum sínum með stóískri ró.

Sumir hurfu bara. Þeir sem stóðust ekki læknisskoðun voru aldrei aftur skoðaðir. Hurfu bara í reyk og liðu upp til skýja daginn eftir. A-7713 slapp í gegnum skoðun. En um áramót fékk hann ígerð í fótinn.

Rússarnir færðust nær og nær og loks var ákveðið að flytja allan hópinn.

Elía og pabbi hans gátu sloppið í öngþveitinu sem myndaðist í flutningunum. Þeir hefðu getað falið sig og orðið eftir.

En þeir ákváðu að fara með. Þeim fannst líklegast að allt yrði sprengt í loft upp áður en Rússarnir kæmu.  Og fóru með.

Löngu seinna frétti Elía að Rússarnir komu daginn eftir og björguðu þeim sem voru eftir.

En þeir feðgar áttu langa og illa göngu fyrir höndum. Það var veturinn 1945. Stríðið var að styttast í annan endann, en enginn vissi af því. Enginn velti fyrir sér austuríska liðþjálfanum sem gef skipanir úr byrginu í Berlín. Menn vildu bara komast áfram.

Skref fyrir skref. Dag og nótt í kulda og bleytu. Frosti og snjó. Elía var með alvarlega sýkingu í fætinum og gat varla gengið. En hann átti ekkert val.

„Ekki sofna, karlinn minn“, sagði pabbi hans. „Það er hættulegt að sofna núna.“

Þeir sem sofnuðu á víðavangi vöknuðu sjaldnast aftur. Sumir vöknuðu ekki heldur þó að þeir væru komnir í skjól.

Eina nóttina voru fjölmargir nær dauða en lífi. Allir skynjuðu dauðann. Þá rauf fiðluleikur kyrrðina. Julíek, ungur strákur hafði ákveðið að nota síðustu kraftana til þess að spila fyrir hópinn. Dánarstundin varð bærilegri.

Á endanum komust þeir sem luku göngunni miklu til Buchenwald. Reyndar fengu þeir far með lest síðasta spölinn. Hundrað gyðingar fóru inn í lestina. Tólf komust á lífi á leiðarenda.

Þeirra á meðal voru Elía og pabbi hans. Kraftarnir voru litlir fyrir og nokkrum dögum seinna gat faðir hans ekki meira. Hann hafði nýtt síðustu kraftana til þess að koma syni sínum á lífi á endastöð. Það var engin lyf að fá. Engan mat. Hann dó 28. janúar 1945.

Enginn fór með bæn. Elía grét ekki einu sinni. Hann skammaðist sín fyrir það, en innst inni hugsaði hann: „Loksins frjáls.“ Hvernig gat hann hugsað svona ljótt?

Í stríði er líflöngunin ofar öllu. En hún fjaraði smám saman út. Hann dreymdi sjaldnast, en ef hann dreymdi þá var það um súpu.

Loksins slapp hann út í apríl. Enginn hugsaði um hefnd – eða fjölskylduna. Bara mat.

Bandamenn komu, en Elía fékk einhvers konar eitrun og lá á spítala í tvær vikur. Þegar hann komst loks á fætur náði hann að staulast á fætur og leit í spegil. Í fyrsta sinn síðan í maí 1944.

„Ég sá lík sem virti mig fyrir sér. Aldrei mun ég gleyma hvernig augun í því störðu á mig úr speglinum.“

Wiesel lifði af, náði að segja sögu sína og dó um mitt ár 2016. Hann fékk friðarverðlaun Nóbels árið 1986. Hann segir sögu sína í bókinni Nótt. Hún er ekki löng væri líklega kölluð novella á ensku, ef hún væri ekki sönn.

Þeir sem skipulögðu helförina voru ekki ómenntaðir villimenn. Þeir voru Þjóðverjar, af einni mestu menningarþjóð heims. Hatrið og heilaþvotturinn breyttu venjulegu fólki í dýr. Aðstæður geta breytt hópum, jafnvel heilum þjóðum. Það verða ekki allir vondir, en mesta hættan er þegar góða fólkið lætur illskuna óátalda. Þögn og samþykki eru þægileg viðbrögð. Það er vesen að bregðast við heimsku og illsku. Stundum verður það hættulegt.

Enn í dag finnast menn sem segja: „Ef Hitler hefði hrokkið upp af árið 1938 væri hans minnst sem þjóðhetju.“

Það versta er að líklega hafa þeir rétt fyrir sér.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.