Ég boða yður mikinn fögnuð (BJ)

Þegar ég ég ákvað að venda mínu kvæði í kross og leggja fyrir mig stjórnmál gerði ég það vissulega með þeim ásetningi um að láta gott af mér leiða. Fyrir nokkrum árum var landið í efnahagslegri og siðferðilegri rúst. Á þeim tíma hugsaði ég með mér: Nú verður eitthvað að breytast. Eins og aðrir landsmenn minnist ég dimmra daga haustið 2008. Á þeim tíma skrifaði ég:

„Mér er þungt í sinni þessa daga. Allajafna eru bjartsýnin og gleðin mínar fylgikonur en þessa dagana er margt mótdrægt. Það er sérkennilegt að í garðinum kringum húsið heima hefur sífellt verið fuglasöngur. Meira að segja í svartasta skammdeginu hefur maður heyrt tístið inn um gluggann. En í haust hafa raustir fuglanna hljóðnað og inn um opinn gluggann heyrist ófagurt surg í bílvélum.

Þegar ljóst var að heimskreppa væri að skella á óttaðist ég það strax að hún leiddi til stjórnleysis, öfgaskoðana og ófriðar. Sumir litu á mig og töldu að ég hefði misst dómgreindina. En einmitt þetta var lærdómurinn af kreppunni á fjórða áratug aldarinnar. Eyðileggingarmátturinn er ólýsanlegur þegar hugafarið verður eitrað.

Ég velti því fyrir mér hvort allt sem gerst hefur leiði til þess að Ísland verði verra land. Þjóð sem finnst það allt í lagi að kastað sé skyri og eggjum í lögregluþjóna er ekki með sjálfri sér.

Börn sem ráðast að Alþingishúsinu með eggjum og ávöxtum vantar virðingu fyrir helstu gildum frelsis og lýðræðis. Því að þinghúsið er fyrst og fremst sameiginlegt tákn baráttunnar fyrir því að lýðræðislega kjörnir fulltrúar þjóðarinnar setji henni lög en ekki einvaldur eða æstur múgur.“

Nú eru liðin átta ár frá hruni. Þjóðin hefur rétt úr kútnum peningalega, en tortryggnin er enn mikil. Auðvitað verða dýrin í skóginum aldrei öll vinir, en það er mjög alvarlegt þegar meira en fimm af hverjum sex landsmönnum vantreysta Alþingi. Það er verðugt viðfangsefni að byggja upp það traust á ný, en þar verður hver einasti stjórnmálamaður að leggja sitt lóð á vogarskálarnar. Virðing Alþingis er sjaldnast meiri en virðing þess þingmanns sem minnsts álits nýtur.

Ég beið eftir því að stjórnmálin breyttust, en ekkert gerðist. Þá var það sem ég ákvað að snúa mér sjálfur að pólitíkinni.

Þó að nú sé margt um að vera þá er nú ekki verri tími en annar að velta fyrir sér stöðu stjórnmála og stjórnmálamanna.

Sjá, ég boða yður mikinn fögnuð!

Í aðdraganda jólanna er vel viðeigandi að vitna í jólaguðspjallið. Engill drottins sagði þessi orð til þess að róa hrædda hjarðmenn. Oft heyrum við þennan boðskap, auðvitað í öðrum búningi, í allt öðru samhengi. Stjórnmálamenn boða kjósendum betri tíð, bara ef þeir gefa réttum flokki atkvæði sitt. Kjósendur eru auðvitað veraldarvanir, en samt finnst mönnum gott að heyra að betri tíð er í nánd, betri vegir, bættir skólar, besta heilbrigðisþjónusta í heimi, allt ókeypis fyrir alla. Þetta hljómar sannarlega vel og einhvern af hinum ágætu frambjóðendum kjósa þeir sem á annað borð mæta á kjörstað til þess að velja einhvern flokk.

Svo líður kjördagur og sólin heldur áfram sinn vanagang, dagarnir styttast og fréttamenn segja okkur nýjar fréttir af því að ekkert nýtt sé að frétta úr heim stjórnmálanna.

Hverfum um stund út í heim. Vandfundinn mun sá staður í veröldinni þar sem lífsgæði eru ekki meiri en þau voru fyrir 100 árum eða 50 árum. Auðvelt er að mæla að sífellt geta menn búist við því að lifa lengur.

Á sínum tíma var sagt: „Blindir fá sýn, haltir ganga, líkþráir hreinsast og daufir heyra, dauðir rísa upp og fátækum er flutt fagnaðarerindi.“

Allt gerist þetta á okkar dögum. Auðvitað læknast ekki allir af sínum meinum, en það sem áður þótti mikil undur og kraftaverk er nú daglegur viðburður í heimi læknavísindanna.

Á Vesturlöndum búa flestir í húsnæði sem veitir skjól, menn hafa nóg af fæði og klæðum, mikill meirihluti lærir að lesa og skrifa, upplýsingar flæða um allt og menn geta nálgast alla þá afþreyingu sem hugurinn gæti girnst með því að seilast í vasann og taka upp símann.

Þrátt fyrir þetta finnst sífellt stærri hópum þeir vera afskiptir. Í þeirra hugarheimi hljómar stefið: „Allir eru að gera það gott nema ég.“ Einhver annar er að spilla þeirra góða lífi. Þessi „annar“ gæti verið innflytjandi eða útlendingur í Póllandi, Mexíkó eða Kína sem „stelur störfunum“ af innfæddum.

Í slíku andrúmslofti koma fram snjallir áróðursmenn, popúlistar, lýðskrumarar, stjórnmálamenn sem segja það sem fólk vill heyra. Þeir vilja reisa múra milli landa, stundum óeiginlegri merkingu, en jafnvel líka í raunveruleikanum. Og þeir segja:

„Verið óhræddir, því sjá, ég boða yður mikinn fögnuð, sem veitast mun öllum lýðnum.“

En í raun boða þeir engan fögnuð heldur ófögnuð. Og lýðurinn fagnar, að minnsta kosti eitt andartak, og hatursboðskapurinn nær yfirhöndinni. Úr fjarlægð horfum við á og erum smeyk. Jafnvel dauðhrædd. Sagan kennir okkur að lýðskrumið og hatursáróðurinn geta verið undanfari ógnvænlegra atburða.

Það er hollt að minnast orða Hindenburgs, forseta Þýskalands, í upphafi árs 1933:

„Meinið í þýskum stjórnmálum er að svo til hver einasti Þjóðverji hefir sína ákveðnu sérskoðun í landsmálum, og stendur í þeirri bjargföstu trú, að hann hafi hina einu réttu skoðun. En skortur á samheldni og samvinnu er sannarlega tilfinnanlegur. Því get ég ekki horfið frá því að brýna sífellt fyrir mönnum. Verið þið nú fyrir hvern mun samtaka.

Þeir menn, sem á annað borð vilja gera gagn, komast lengst með því að leita samvinnu við aðra, í stað þess að steyta sífellt hnefana hvorir framan í aðra.

Það er ekkert gagn í því, að sýna föðurlandsást á hátíðum og tyllidögum, en gleyma landi sínu og þjóð, alla aðra daga. Menn veiða að gleyma sér og hagsmunum sínum fyrir velferð föðurlandsins.“

Enginn sem les þessi orð gamla hershöfðingjans getur efast um góðan hug hans. Innan mánaðar frá því að hann mælti þau skipaði hann Adolf Hitler kanslara. Í kjölfarið fylgdu einhverjar mestu hörmungar og illska mannkynssögunnar.

Ekki vil ég spá því að sagan frá 1933 sé að endurtaka sig, en umburðarlyndi er á undanhaldi og hatur og einangrunarhyggja breiðast út eins og illgresi í vanhirtum garði.

Óvissan og tortryggnin hafa vissulega náð að skjóta rótum á Íslandi. Hér á Íslandi hafa nýir flokkar vissulega fengið mikið fylgi. Þriðjungur þingmanna er úr flokkum sem ekki voru til fyrir fimm árum. En við verið stolt af því að á sama tíma og aðrar þjóðir flykkja sér um fordóma og einangrun eru nýju flokkarnir á Íslandi umburðarlyndir og alþjóðasinnaðir.

Auðvitað eru ekki allir sammála. Þess vegna eru margir stjórnmálaflokkar þó að við séu ekki enn komin á þann stað að svo til hver einasti Íslendingur hafi sína ákveðnu sérskoðun í landsmálum, og standi í þeirri bjargföstu trú, að hann hafi hina einu réttu skoðun svo orð Hindenburgs séu umorðuð.

Þeir sem bara fylgjast með umræðu um stjórnmálamenn í fjölmiðlum eða á samfélagsmiðlum gætu talið að þeir sem legðu þetta starf fyrir sig væru beinlínis galnir. Af eigin reynslu get ég hins vegar sagt  með sanni að í raunheimum er upplifun mín öll önnur. Ég hef sannast sagna sjaldan átt skemmtilegri stundir en meðan ég ferðaðist um Norður- og Austurland fyrir kosningarnar nú í haust. Flestir voru afar vingjarnlegir og þeir fáu sem tóku mér kuldalega í fyrstu voru orðnir vildarvinir í loka samtalsins.

Um daginn var ég á leið út á fund og kvaddi fjögra ára dótturdóttur mína í dyrunum. Hún spurði hvert ég væri að fara og ég svaraði því að ég væri að fara á fund hjá Viðreisn.

„Hvers vegna?“ spurði barnið og ég hugsaði með mér að kannski væri gaman að fyrir hana að verða svolítið hreykna af afa sínum og sagði:

„Vegna þess að ég er aðalmaðurinn í Viðreisn.“

„Já“, sagði hún hugsi. „Ertu sá eini?“

Það er gaman að kynnast nýju fólki á nýjum vinnustað. Það er líka fróðlegt, þó að stundum megi deila um hve gaman það er, að sjá viðbrögð almennings við því sem gerist á þingi. Sumir vilja leggja allt út á versta veg, en ég fullyrði að langflestir þingmenn vilji láta gott af sér leiða. Þeir eru bara ekki allir sammála um hvernig á að gera það. Þó að ég hafi ákveðið að gæta mín á of mikilli bjartsýni og vilji temja mér raunsæi í staðinn, ætla ég samt að enda á erindi úr ljóðinu Bjartsýni úr Sumartungli, nýrri ljóðabók Aðalsteins Ásbergs Sigurðssonar.

Maður vaknar af draumi

vaknar um síðir og finnur

allt stefna að einstökum punkti

stefna til vegs og dáða

hvernig sem veröldin breytist.

Óska öllum lesendum gleðilegra jóla!

Benedikt Jóhannesson

Þessi pistill byggir á aðventuhugleiðingu í Guðríðarkirkju 4. desember síðastliðinn.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.