Ég dreif í því að lesa bókina eftir Einar Kárason, Passíusálmana. Áður en lengra er haldið er rétt að vara fólk við. Þessi bók fjallar ekkert um passíusálma, hvorki eftir Hallgrím Pétursson eða nokkurn annan. Hún er eiginlega ósjálfstætt framhald bókarinnar Stormur sem kom út fyrir nokkrum árum. Af tillitssemi við lesendur sem finnst Stormur hafa komið út í hitteðfyrra ætla ég ekki að segja hve nokkur ár eru mörg.
Bókin er færð í þann búning að hún sé leiðrétting á þeirri fyrri, sögð af Stormi sjálfum og nokkrum öðrum persónum í þeirri bók. Einar notar hér sem fyrr það stílbragð að láta persónur tala í fyrstu persónu. Hann hefur gert það áður, reyndar svo oft að ef hann játaði ekki skýlaust sjálfur að hafa stolið frásagnarhættinum gæti maður freistast til þess að halda að hann hefði fundið það upp. Hann hefur meira að segja bent á tvær fyrirmyndir, sem svo undarlega vill til að ég hef báðar lesið og er þó ekki víðlesinn á erlendar nútímabókmenntir. Önnur er um nokkra vini sem keppast við að koma ösku vinar síns (hann var sem sé brenndur eftir að hann dó) í lóg. Ég man ekki hina.
Svo kemur Einar sjálfur við sögu í bókinni. Því bragði hafa önnur andans stórmenni líka beitt. Martin Ames gerir þetta í einni bók sinni til þess að engum detti í hug að söguhetjan þar sé hann sjálfur (sem mig grunar samt að hún sé). Engum getur samt dottið í hug að Stormur sé Einar. Þeir eru einfaldlega svo gjörólíkir.
EINAR KÁRASON
Ekki veit ég hvers vegna Bensi, vinur minn, heldur að hann geti skrifað ritdóm um bók eftir mig. Hann hefur að vísu myndast við það áður, en gafst upp áður en hann byrjaði. Maður veit auðvitað að hann er með svolitla rithöfundarkomplexa sjálfur, skrifar pistla um hitt og þetta sem hann þykist hafa vit á, og gaf svo út smásagnasafn um árið. Ég botnaði nú aldrei mikið í þeim sögum.
STORMUR
Það er ekki einleikið hvað þessi Einar Kárason hefur grætt á sögum um mig. Að vísu fer hann ótrúlega frjálslega með sannleikann, sá ágæti maður, en samt má ég varla reka við án þess að Kárason sé mættur með segulbandið. Ekki að ég hafi neitt á móti því að einhver auðtrúa lepji upp bullið sem vellur út úr mér, sérstaklega ekki eftir að forlagið fór að borga mér prósentur af bókunum (ég má ekki segja frá því samkvæmt samningi, en það kemur örugglega fram í næstu bók Einars, so remember kids, you read it first here).
SNORRI STURLUSON
Það er undarlegur andskoti að hægt sé að skrifa fjórar bækur um um Sturlungaöldina án þess að geta um mig, nokkuð svo heitið geti. Ég á að vísu að hafa verið dauður mikinn hluta sögutímans, en það vita samt allir að ég var aðalmaðurinn á þessum tíma. Reynið að spyrja einhvern Norðmann að því hver Sturla Þórðarson hafi verið. Þið eruð heppin ef þið fáið svo mikið sem eitt hva‘ sem svar. Jafnvel á Íslandi er líklegast að menn myndu svara: Lék hann ekki með Þrótti hér um árið? Eða Þórður kakali. Börnin halda að verið sé að tala um kakkalakka, enda man ég ekkert eftir þeim drengstaula. En Snorre, þarf ekki einu sinni föðurnafnið með, hann þekkja allir.
Svo kemur þessi Einar þeirri bábilju af stað að Sturla frændi minn hafi skrifað flest allar fornsögurnar, meira að segja sögur sem er augljóst hverjum aula að eru eftir mig. Kárason virðist halda að enginn gæti hafa skrifað um Njálsbrennu nema hafa upplifað brennuna á Flugumýri. Heldur maðurinn að það hafi aldrei brunnið áður? Hvað var um að vera þegar Neró lék á fiðluna? Nei, þessir ungu uppskafningar halda að þeir viti allt.
BENEDIKT
Ég las bókina nokkurn veginn í einum rykk, með smáblundum á milli, en það var ekki vegna efnis bókarinnar heldur færðist yfir mig kjötværð eins og oft gerist á jólum. Þetta getur ekki þýtt nema tvennt: Annað hvort er bókin ágætislesning eða hún er mjög stutt.
Hún er reyndar ekki sérlega löng, rétt um 200 blaðsíður, en hún er líka lipur og létt. Sumt kannast maður við úr blöðum, annað úr fyrri bókinni. Svo er gaman að reyna að giska á hverjir séu fyrirmyndir að persónum öðrum en Einari sjálfum. Til dæmis Gottskálki, sorpblaðamanninum sem semur eftirminnilegar fyrirsagnir, eða Sigurbirni Einarssyni.
SIGURBJÖRN HEITINN EINARSSON
Ég vil að gefnu tilefni lýsa því yfir að samnefnd sögupersóna í bók Einars Kárasonar er alls óskyld mér og ég minnist þess ekki að hafa nokkurn tíma rekist á þennan alnafna minn, sem ég hlýt þess vegna að telja að sé uppspuni frá rótum.
STORMUR
Maður veltir því fyrir sér hvað ég get gert næst til þess að halda Einari og fjölskyldu hans uppi. Bókin endar reyndar á því að höfðingi í helsta gengi Árósa flutti í blokkina mína. Ég gæti kannski grætt svolítið á því að tengjast honum nánar, en ég hef skömm á þessu dópdrasli og mansali sem þessir gæjar stunda. Líklega er einfaldast að kynna þá Kahn og Kárason. Ég hlýt að fá prósentur af því.
BENEDIKT
Þegar ég var búinn með sálmana lagði ég strax í Sonnettu Sigurjóns Magnússonar. Hún er líka stutt og …
STORMUR
Heyrðu, þessi ritdómur er um bókina um mig. Við skulum ekki fara lengra út í þessa Passíusálma.