Nú eru breyttir tímar

Þegar þjóðin kaus til Alþingis fyrir liðlega tveimur mánuðum fengu flokkar sem ekki voru til fyrir fimm árum þriðjung þingsæta. „Gömlu flokkarnir“ fjórir fengu aðeins liðlega 60% atkvæða sem er minna en nokkru sinni fyrr. Ríkisstjórnin féll, en heldur þó enn velli vegna þess hve erfitt hefur reynst að mynda nýja meirihlutastjórn. Tólf flokkar buðu fram og fengu frá 33 atkvæðum upp í tæplega 55 þúsund. Atkvæði og þingsæti dreifðust með þeim hætti að erfitt hefur reynst að lesa út úr úrslitunum skýr skilaboð. Og þó. Stór hluti þjóðarinnar vill breytingar. Þegar sömu deiluefni hafa verið bitbein í langan tíma er kominn tími til þess að skoða nýjar leiðir. Neytendur spyrja hvers vegna þeir fái ekki að velja sér þá matvöru sem þeir vilja. Hvers vegna gilda samkeppnislög ekki um öll fyrirtæki? Er ekki rétt að sjávarútvegurinn greiði markaðstengt gjald fyrir veiðileyfin sín? Allir þurfa að þora að ræða nýjar leiðir en ekki sitja eins og hundar á roði óbreytts ástands.

Stöðugleiki – ekki stöðnun

Þversögnin sem við blasir er að þjóðin þarf á tvennu að halda. Breytingum og stöðugleika. Við þurfum að treysta jafnrétti á öllum sviðum, ekki síst rétt kynjanna til jafnra áhrifa og launa. Við þurfum að tryggja einstaklingum frelsi til orðs og athafna, jafnframt því sem þess verður að gæta að frelsi eins sé ekki á kostnað annars. Allir sem hafa vilja og getu til þess að vinna eiga að hafa rétt á því, óháð aldri. Hið opinbera og fyrirtæki á almennum markaði hafa sett sér reglur um að enginn skuli vinna eftir ákveðinn fjölda afmælisdaga. Þjóðfélagið tapar miklum mannauði og fjölda vinnufúsra handa á sama tíma og víða er skortur á vinnuafli.

Stöðugleiki í efnahagslífinu væri bylting á Íslandi. Þjóðin hefur vanist miklu meiri sveiflum í launum og gengi en flest önnur ríki í hinum vestræna heimi. Uppsveiflan er æðisleg, en fallið sem óhjákvæmilega kemur í kjölfarið ef menn fara of hátt er ömurlegt. Þess vegna er afar mikilvægt að áfram verði fetuð sú braut á vinnumarkaði sem nefnd hefur verið SALEK-samkomulagið. Þar þarf þrennt til: Aðhald í opinberum fjármálum, hóflegar launahækkanir og stöðugt gengi. Ný peningastefna með stöðugu gengi getur haft fjölþætt áhrif á daglegt líf og lífskjör, meðal annars með lægri vaxtakostnaði og stöðugra verðlagi en nú. Lausnir verða aldrei eign neins eins heldur verður að takast um þær víðtæk samstaða.

Frelsið er yndislegt

Frelsi er vandmeðfarið. Þó að lýðræði hafi breiðst út í heiminum undanfarin ár á frelsið, sem ætti að vera síamstvíburi lýðræðisins, í vök að verjast. Um allan hinn vestræna heim fara fordómar vaxandi. Fólk óttast það sem það þekkir ekki og sumir segja: Ef eitthvað er að hjá mér hlýtur það að vera einhverjum öðrum að kenna. Kannski er það Sýrlendingurinn sem var hleypt inn í landið sem flóttamanni, eða var það Pólverjinn sem gat flutt til landsins vegna frelsisins sem fylgir Evrópusambandinu? Það er reyndar ekki bara fólkið sem flytur milli landa sem „stelur“ störfum í huga þess sem finnst hann hlunnfarinn. Ódýrt vinnuafl í útlöndum leiðir til þess að enginn vill lengur kaupa innlenda vöru sem er miklu dýrari.

Lýðskrumarar eiga auðvelt með að ná eyrum þeirra sem muna gömlu, góðu dagana þegar löndin voru sjálfum sér nóg. Þess vegna er auðvelt að hrífa fólk með upphrópunum um höft og múra milli landa. Lýðræðið getur komið til valda mönnum sem vilja draga úr frelsi og það gerðist á yfirstandandi ári. Víða um heim vex fylgi öfga- og hatursflokka. Íslendingar geta verið stoltir af því að á sama tíma fara þeir aðra leið. Harðri þjóðernishyggju var algerlega hafnað og fylgi frjálslyndra flokka jókst í kosningunum nú í haust.

Traust er það sem þarf

Þegar efnahagslífið hrundi árið 2008 brast strengur meðal þjóðarinnar. Í stað trausts kom tortryggni. Þjóðfélag byggir á trausti manna á milli og ekki síst á stofnunum þjóðfélagsins. Það er grafalvarlegt mál þegar innan við 20% þjóðarinnar segjast treysta Alþingi. Dómskerfið, fjölmiðlar, borgarstjórn og bankakerfið vekja einnig ótrú mikils meirihluta landsmanna. Auðvitað má spyrja sig hvort þetta vantraust sé bundið einstökum mönnum eða ákvörðunum. Einstaka þingmenn geta með framgöngu sinni valdið því að álit á Alþingi rýrnar. Það er talsvert til í því að stundum felst meiri viska í því að þegja en gaspra. Besta leiðin til þess að skapa sér góða ímynd er að hegða sér vel. Sáttfúsir og lausnamiðaðir þingmenn og ráðherrar byggja í sameiningu upp traust þjóðarinnar.

Nú hefur ræst úr efnahagsmálum þjóðarinnar og líklegast er bjart framundan ef við kunnum okkur hóf. Upp úr aldamótum var skipt um áhöfn í bankakerfinu. Versta ákvörðun stjórnvalda var að hverfa frá stefnu um dreift eignarhald og handvelja þess í stað „kjölfestufjárfesta“ sem litu á bankana sem framlengingu á eigin buddu. Bankar sem áður höfðu verið þunglamalegar þjónustustofnanir skiptu út flestum „gamalmennum“ yfir fertugt og inn stigu djarfhuga menn sem vildu „láta peningana vinna“. Bankarnir hættu að vera þjónar atvinnulífsins og aðhaldssamir ráðgjafar. Þess í stað urðu þeir beinir þátttakendur í fyrirtækjum og atvinnulífið skiptist í fylkingar sem tengdust bönkunum og eigendum þeirra. Bankarnir voru eins og spilavíti, spilað var djarft og Ísland sett að veði. Síðasta spilið tapaðist og þjóðin sat eftir í rústunum. Nú þegar ríkið hugar að sölu á eignarhlut sínum í bönkunum verður að hafa í þessa sögu í huga, því að hún má ekki endurtaka sig.

Nýtt og ferskt

Oft eigum við erfitt með að meta hvað er merkilegast í okkar samtíð. Þegar horft er um öxl yfir stjórnmálasögu Íslendinga eru það oft frekar mennirnir en atburðirnir sem koma upp í hugann. Á 20. öldinni koma margir merkir stjórnmálamenn í hugann: Hannes Hafstein, Hriflu-Jónas, Ingibjörg H. Bjarnason, Einar Olgeirsson, Ólafur Thors, Bjarni Benediktsson og Vigdís Finnbogadóttir. Þau höfðu áhrif á marga og voru frumkvöðlar, hvert með sínum hætti. Fjarlægðin gerir fjöllin blá og mennina mikla. Eflaust metum við samtímamenn sjaldnast að verðleikum og gerum minna úr þeim sem við þekkjum vel en efni standa til.

Reynslan er ekki hátt skrifuð í heimi stjórnmálanna nú um stundir. Á Alþingi sitja aðeins tveir þingmenn sem voru fyrst kosnir á þing fyrir aldamót. Áður fyrr var algengt að menn sætu á Alþingi áratugum saman. Nú er öldin önnur og nær annar hver þingmaður er nýr á Alþingi. Nýir vendir sópa best, segir máltækið, en hvort er vegur þyngra; reynsla eða ferskar hugmyndir?

Fyrir um ári sýndi skoðanakönnun Viðskiptablaðsins að meirihluti landsmanna vissi ekki hvað Viðreisn var. Flokkurinn mældist ekki í skoðanakönnunum og hafði reyndar ekki verið formlega stofnaður, þó að stofnun hans hafi lengi verið í bígerð. Hópur fólks sem vildi breytingar hafði komið saman reglulega með það í huga að bjóða fram við Alþingiskosningar vorið 2017. Skyndilega breyttust þau áform þegar boðað var til kosninga haustið 2016. Hundruð manna fylltu salinn þegar flokkurinn var stofnaður í Hörpu 24. maí síðastliðinn. Næstu mánuði bættust fjölmargir í hópinn og í lok september voru tilbúnir framboðslistar í öllum kjördæmum, listar með 63 konum og 63 körlum. Svo fór að flokkurinn sem var aðeins fimm mánaða gamall á kjördag fékk liðlega tíu prósent fylgi og sjö þingmenn kjörna. Enginn annar flokkur sem ekki hefur haft að minnsta kosti einn sitjandi þingmann í sínum röðum hefur náð jafngóðum árangri í kosningum. Aðeins munaði örfáum tugum atkvæða að Viðreisn fengi mann kjörinn í öllum kjördæmum.

Kosningarnar voru samt aldrei annað en áfangi á leiðinni. Markmiðið er að hafa áhrif til góðs, koma af stað breytingum samfélaginu til heilla. Hvassir vindar blása í alþjóðamálum og Íslendingar verða að huga vel að stöðu sinni í alþjóðasamfélaginu. Evrópusamvinnan innan Evrópska efnahagssvæðisins hefur reynst þjóðinni vel, en mikilvægt er að fylgjast með þróun mála þar innan dyra þar sem Ísland er í raun aukaaðili og tekur upp stóran hluta lagarammans, án þess að eiga sæti við borðið þar sem ákvarðanir eru teknar. Viðreisn er þeirrar skoðunar að rétt sé að þjóðin taki ákvörðun um það hvort aðildarviðræður verði teknar upp að nýju við Evrópusambandið.

Það þarf að bæta heilbrigðiskerfið. Þó það sé fjarri öllum sannleika að segja kerfið í rúst er víða pottur brotinn. Stór hluti landsmanna hefur ekki reglulegan aðgang að sérfræðilæknum, til dæmis geðlæknum eða kvensjúkdómalæknum. Hraða þarf uppbyggingu Landspítalans við Hringbraut þannig að meðferðarkjarna verði lokið á næstu sex til sjö árum. Gott heilbrigðiskerfi er dýrt og því skiptir miklu máli að farið sé vel með peningana. Markmiðið á alltaf að vera að fá sem mest fyrir takmarkaða fjármuni án þess að slá af gæðakröfum.

Mikilvægt er að farið verði í kerfisbreytingar í landbúnaði og sjávarútvegi, sem og kannað hvernig stöðugleiki í gengismálum verði best tryggður. Skynsamlegt er að byggja upp innviði, bæta fjarskiptakerfið, laga vegi og leggja nýja. Það sem sumum þótti áður umdeilanleg byggðastefna sýnir sig nú að vera snjöll uppbygging fyrir arðbæra ferðaþjónustu auk þess að bæta lífsgæði þeirra sem á svæðunum búa. Við gerum samt ekki allt í einu. Oft hafa stjórnvöld haft háleitar hugmyndir, en færst of mikið í fang og reynt að þvinga í gegn breytingar án þess að leita sátta. Það er óskynsamleg aðferð og lítt vænleg til varanlegs árangurs.

Þegar Íslendingar fagna nýju ári er ástæða til að bjartsýni og raunsæi haldist í hendur. Með gleði og sáttfýsi að vopni munum við ná miklu lengra en ella. Vonandi verður árið 2017 upphafsár breytinga til góðs. Fyrir hönd Viðreisnar óska ég öllum landsmönnum gleðiríks og farsæls nýs árs og þakka góða samfylgd á líðandi ári.

Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar

Áramótagrein í Morgunblaðinu, 31. 12. 2016

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.