Fyrir og eftir ráðherradóm (BJ)

Fyrir utan Gerðarsafn voru útsendingarbílar frá sjónvarpsstöðvunum og þykkir kaplar lágu á jörðinni inn í kjallarann. Ég laumaði mér inn bakdyramegin til þess að lenda ekki í viðtali áður en kynningarfundurinn byrjaði. Á kaffistofunni var hópur fólks að borða og af því að ég kannaðist við einhverja í hópnum rölti ég til þeirra og kastaði á þau kveðju.

Kunningi minn útskýrði að þetta væri stúdentshópurinn úr MR ´73. Það fólk var bara tveimur árum á undan mér í skóla en ég sá engan í hópnum sem ég þekkti úr þeim hópi. Svo var þetta heldur eldra fólk vissi ég og spurði varfærnislega: „Sem sagt 1873?“

Því var auðvitað ekki svarað og líklegast eru þau stúdentar 1963.

Uppi var hópur almannatengla og aðstoðarmanna sem beindu mér inn í salinn hægra megin sem var vaktaður af vörpulegum manni sem hleypti mér inn eftir að hafa mælt mig gaumgæfilega út. Í salnum var rót og dót. Ég var ekki viss um hvort það væri listsýning eða kaupstefna sem væri í undirbúningi. Á miðju gólfi voru nokkrar gínur klæddar í einhvers konar jakka eða flíspeysur.

Fremst var förðunarborð og á örskammri stundu var ég púðraður upp þannig að ekki sást á mér nein misfella. Þeir Bjarni og Óttar komu líka í salinn og fengu sömu meðhöndlun.

Svanhildur aðstoðarmaður gaf fyrirmæli um hvernig við ættum að bera okkur til við næstu skref, í hvaða röð við skyldum ganga og hvernig við ættum að sitja, muna að brosa og ekki tala of lengi. Bjarni gekk um gólf og var greinilega að hugsa um sín upphafsorð. Svo kom viðbótarskipun frá Svanhildi: „Það má ekki taka nein viðtöl hér inni.“ Það fannst mér skiljanlegt, allt á rúi og stúi og ekki skemmtilegt viðtalslókal.

„Og alls ekki taka neinar myndir af ykkur við þennan vegg!“

Hún benti á suðurvegginn þar sem var sérkennilegt verk sem ég hafði ekki velt fyrir mér fyrr en hún vakti athygli á því. Það var röð af ljósmyndum sem allar voru eins. Tvær raðir reyndar. Á myndunum voru stafir, einn á hverri. Textinn var eitthvað á þessa leið:

„Það sama og síðast og þar áður.“

Ég varð að viðurkenna að þetta hefði ekki verið heppilegur bakgrunnur fyrir blaðamannafund nýrrar ríkisstjórnar.

Svo gengum við í næsta sal á slaginu hálf þrjú og settumst við borðið. Töluðum stutt, brostum hæfilega og svöruðum spurningum frá fullum sal af blaðamönnum. Það gekk allt vel. Svo var fundurinn búinn og við fórum í viðtöl hver og einn, allt eftir kúnstarinnar reglum með bakgrunn sem iðaði af lífi, jafnvægi og framsýni, rétt eins og ríkisstjórnin sem verið var að mynda.

Ekki get ég sagt að blásið hafi byrlega fyrir ríkisstjórninni í mínum FB-vinahópi. Fólk sem fyrir nokkrum vikum taldi það frábærar fréttir að Katrín Jakobsdóttir væri í samræðum við Bjarna Ben. titraði af reiði yfir því að við Óttar værum að leiða þennan hræðilega mann til valda. Virt og vel menntuð kona talaði um þessa „ömurlegu ríkisstjórn“ sem allt myndi færa til verri vegar.

Þegar ég þurfti að ganga gegnum miðbæinn um kvöldið til þess að fara á þingflokksfund var ég hálfsmeykur um að verða fyrir aðkasti. Það var öðru nær. Ókunnugt fólk kallaði yfir götuna og óskaði mér til hamingju og hvar sem ég hef farið síðan hef ég fengið mikla velvild. En svo er fólk flest auðvitað kurteist í raunheimum, sem betur fer.

Eftir þingflokksfundinn voru nokkur viðtöl og einn fréttamaðurinn sagði mér að einn flokksleiðtoginn hefði gefið út yfirlýsingu þar sem hann hefði lýst mikilli vantrú á stjórnarsáttmálann hálftíma áður en hann var kynntur. Pabbi sagði alltaf að sér fyndist DVömurlegt blað, enda læsi hann það aldrei.

Svo fór ég svo heim og spjallaði við Vigdísi sem var bara nokkuð ánægð með mig, bindið hafði verið í lagi og ég þokkalega greiddur í sjónvarpinu, þannig að ég sofnaði rólegur. Tók þó eftir því að inn um lúguna kom bréf sem ég lét liggja. Hver sendir bréf klukkan hálf ellefu um kvöld?

Svaf svefni hinna réttlátu í þetta sinn og vaknaði á skynsamlegum tíma, sem í mínu tilviki er sjö eða síðar (eiginlega alltaf sjö). Kom svo niður hreinn og strokinn og kíkti á bréfið sem reyndist vera frá forsætisráðuneytinu að boða mig á ríkisráðsfund klukkan hálf tvö. „Þér verðið sóttur klukkan 13.00 og yður ekið að Bessastöðum.“

Þessu hafði ég ekki átt von á. Ég man enn eftir því þegar Jón Baldvin kom á Citroën-bragga á Bessastaði um árið til þess að sýna hvað hann væri alþýðlegur. Kannski er verið að koma í veg fyrir það endurtaki sig, en ég á auðvitað engan bragga. Bjarta hliðin var auðvitað sú að ég losnaði við að þvo bílinn, sem auðvitað vó þungt í mínum huga.

En Magnús bílstjóri kom sem sé klukkan eitt og við ókum suður á Álftanes í miklu blíðviðri. Þar vorum við svo tímanlega að við urðum að fara hring á nesinu til þess að rekast ekki á fyrri ríkisstjórn sem var að kveðja.

Samt kom ég fyrstur og var vísað í fremri stofu þar sem ég beið einn og velti fyrir mér hvort ég ætti að fara lengra, en að því að ég passa mig að ganga aldrei of langt lét ég þar staðar numið. Svo tíndust ráðherrarnir inn, einn og tveir í senn. Flestir voru komnir fyrir tilskilinn tíma og á endanum allir.

Okkur var vísað í stofu þar sem gamla, lasna borðið  blasti við. Er ekki rétt að forsetaembættið fái aukafjárveitingu til þess að lappa upp á þetta borðskrifli? hugsaði ég, en þorði auðvitað ekkert að segja.

Öllum var raðað til borðs eftir kúnstarinnar reglum og forsetinn við endann. Svo upphófst ríkisráðsfundurinn sem var mikil seremónía þar sem þeir lásu hvor sína rullu, forsetinn og Bjarni, sem á fundinum varð forsætisráðherra. Ég þykist ekki vera mikið fyrir prjál af þessu tagi, en verð að viðurkenna þetta fannst mér allt mjög hátíðlegt og varð hálf klökkur, en þurfti sem betur fer ekkert að segja.

Mér varð hugsað til þess hvort maður væri ekki lentur í vitlausu leikriti. Nú sátum við þarna við endann, Guðni Th. og ég, rúmlega átta mánuðum eftir að ég spjallaði við hann og hvatti til forsetaframboðs með tilheyrandi plotti. Þá hafði hvorugur okkar nokkru sinni boðið sig fram til opinbers embættis. Svona er þetta líf skrítið.

Næst skrifaði ég undir yfirlýsingu um að ég myndi gegna embætti með guðs hjálp og hinnar helgu bókar. Það fannst mér líka skrítið, en þetta truflaði mig svosem ekkert. Á Alþingi er drengskaparheit látið nægja. Allir skrifuðu undir og þeir skiptust á línum úr kansellíinu forsætisráðherrann og forsetinn. Svo var allt búið, myndatökur og loks pönnukökur og kleinur. Betra gat það ekki orðið.

Nú er hægt að byrja að vinna.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.