Verður veiran við völd til 2030?

Forsætisráðherra sagði einn daginn, þegar reglur voru hertar, eitthvað á þessa leið: „Auðvitað erum við öll pirruð. En þetta er vonandi að verða búið.“ Ég var reyndar ekkert pirraður, svona er lífið einfaldlega í bili. Fjarfundir henta mér ágætlega, þeir taka skemmri tíma og eru umhverfisvænni en þeir gömlu. Mér fannst ágætt að vera einn á skrifstofunni, þegar öllum var ráðlagt að vera heima og hinir fóru allir eftir því. Ég var hvergi öruggari en þar.

Frelsi er mikilvægt, en flestir eru til í að draga úr því tímabundið og fá öryggi í staðinn. En það helsi sem fer verst með fólk og ríkið sjálft, er ekki tímabundnar ferða- og samkomutakmarkanir, heldur skuldafjötrar.

Satt að segja hef ég persónulega aldrei verið sérstaklega hræddur við veiruna. Ég held samt að ég hafi farið bærilega eftir reglum, forðast margmenni og haldið mig í hæfilegri fjarlægð frá öðrum. Líklega var það bara meðfætt kæruleysi sem olli því að ég var ekkert mjög smeykur. En ég hitti líka fáa.

Sem betur fer sluppu flestir Íslendingar við smit og fæstir af þeim sem smituðust urðu mjög veikir. En nokkrir dóu og enn í dag eru sumir þeirra sem veiktust ekki fullbata.

Sumir hafa verið æfir yfir því að einhver önnur ríki hafi náð að bólusetja þegna sína hraðar en Íslendingar. Líklega var það frekar sótthræðsla en öfundsýki sem réði þeirri reiði. Sjálfur var ég bólusettur um daginn og hef sjaldan hrifist eins af skilvirkni landans og þann dag. Eftir nokkrar vikur verður búið að bólusetja nánast allt fullorðið fólk á landinu. Samt dettur mér ekki í hug að segja að þessu sé lokið.

Atvinnuleysi er ennþá mikið og verðbólga sú mesta í mörg ár. Ferðaþjónustan kemst ekki á fullt á þessu ári. Ríki og sveitarfélög eru rekin með miklum halla. Kreppan varð grynnri en óttast var í upphafi, en hún gæti fylgt þjóðinni lengi. Því miður var halli á ríkinu árið 2019, þrátt fyrir hagvöxt og enga veiru. Áætlanir ganga út á viðvarandi hallarekstur næstu árin með tilheyrandi skuldasöfnun.

Skuldir hafa þann leiðinlega eiginleika að þær þarf að borga. Nú heyrist það viðhorf að vextir séu svo lágir að skuldir skipti litlu. Einhverntíma kemur samt að því að þeir hækka. Þá verður vaxtabyrðin þyngri og minna eftir í þörf málefni en nú. Um þetta snýst næsta kjörtímabil.

Við öndum léttar í bili Íslendingar, því að við teljum okkur sjá til lands í skammtímabaráttunni, en hætt er við því að um leið og sóttvarnarlæknir hverfur af sviðinu taki seðlabankastjóri hans sess sem tíður gestur í fréttum. Velferð þjóðarinnar til lengri tíma felst í því að skuldir séu hóflegar og rekstur hins opinbera sjálfbær, án skattpíningar um langa framtíð. Nýtum kreppuna til þess að bæta samfélagið, okkur og komandi kynslóðum til farsældar.


Birtist í Morgunblaðinu 10.5.2021.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.