Nýju fötin þýðandans

Einu sinni var sagt að oflof væri háð. Stundum virkar það samt og er snjallt bragð til þess að selja vöru, til dæmis list. Stundum er það enn í dag þannig að einstaka rithöfundar eru lofaðir og prísaðir, sama hvaða rusl kemur frá þeim. Stundum er það vegna þess að þeir hafa skrifað eina góða bók, stundum vegna þess að þeir eiga snjalla útgefendur eða góða vini. Lengi hjálpaði að vera í réttum flokki og spillti fyrir að vera ekki í honum. Listamenn eru góðir vegna þess að enginn þorir að segja að þeir séu það ekki.

Ég held áfram að lesa heimsbókmenntirnar. Sumar bækur, reyndar flestar sem ég hef lesið, eru ljómandi skemmtilegar, eða að minnsta kosti áhrifamiklar með sínum hætti. Aðrar verð ég að viðurkenna að eru ekki við mitt hæfi. Nú síðast las ég bók Hemingways, Hverjum klukkan glymur, sem kom út fyrir rúmlega 80 árum. Hún er talin snilldarverk og ein af hans bestu bókum.

Það er nú það.

Áður hafði ég ekki lesið nema tvær bækur Hemmingways, Veislu í farangrinum í þýðingu Halldórs Laxness. Hún fannst mér prýðileg. Svo las ég Gamla manninn og hafið. Bragi bóksali sagði mér að sú útgáfa sem ég keypti væri miklu betri en hin fyrri, en hvort það var ný þýðing eða færri prentvillur man ég ekki. Hún er líka fín.

Nú var það sem sé ein af aðalbókum Hemingways sem ég tók fyrir, þriðja útgáfa frá Máli og menningu, 426 blaðsíður, sem er fulllangt fyrir mig. Sagan greip mig ekki. Hún gerist á þremur dögum í borgarastyrjöldinni á Spáni. Hún hefur eflaust verið áhrifameiri meðan heimurinn allur skalf af stríðsátökum og fasistar og kommúnistar börðust um hug og hjörtu almennings.

Ég ætla heldur ekki að tala um söguna heldur þýðinguna. Aftan á kápu stendur: „Þýðing Stefáns Bjarman hefur fyrir löngu skipað sér á bekk með úrvalsþýðingum þessarar aldar.“ Ég hafði heyrt þetta áður, en var sannarlega skeptískur. Árin 1973-4 kom út þýðing Stefáns á verki Knuts Hamsuns Umrenningar. Ágæt bók fannst mér og ég skrifaði um hana bókarritgerð í menntaskóla. En skelfilega kauðskt málfar á íslensku þýðingunni. Laufey Bjarnadóttir, skólasystir mín, skrifaði um hana líka og af einhverjum ástæðum kom það upp í spjalli okkar. Það fyrsta sem hún sagði var: „Fannst þér hún ekki illa þýdd?“

Nú vill svo til að ég finn hvorki bækurnar í þýðingu Stefáns né þessa ritgerð mína, en hér á eftir koma fjölmörg dæmi úr „úrvalsþýðingu“ Stefáns á Hemingway. Ég opna bókina af handahófi:

„Maður verður að dvelja á einum stað og framkvæma hernaðaraðgerðir á öðrum.“
„Það er lífernisregla refsins þegar við þörfnumst úlfsins.“
verandi tómur orðakvittur, léði ég því ekki eyru.“
„Aðeins ef þú vilt ekki taka hana með þér, þá krefst ég loforðs þíns.“

Hver talar svona? Sagt er að Stefán hafi verið Unuhúsi á yngri árum og hann hefur greinilega notið þess, því að menningarelítan hrósaði honum í hástert. Sérstaklega hampaði Þjóðviljinn honum.

Ég þekki ekkert til Stefáns og hann hefur eflaust verið hinn vænsti maður, sem dvaldi langdvölum erlendis og lenti í útgefendum sem nenntu ekki að segja honum til og lagfæra það sem aflaga fór. Lausnin var sú að kalla viðvaningsverkið snilld. Tökum nokkur dæmi um oflofið. Okkar ágæta Nóbelsskáld sagði um Stefán áttræðan:

„Stefán Bjarman, sá þaullesni maður í enskum nútímabókmentum, tók sig til og þýddi tvö höfuðverk, sitt eftir hvorn amerikumann. Þó hann hefði ekki áður látið sín getið á vettvángi bókmenta gerði hann sér litið fyrir og snaraði Þrúgum reiðinnar eftir Steinbeck með þeim glæsibrag að hann ávann sér þegar nafn sem hlutgeingur verkamaður í þessum víngarði. [innskot BJ: Ég hef ekki lagt í Þrúgurnar, aðeins flett bókinni og mig grunar að þar hafi Stefán fengið vandvirkari ritstjóra en í hinum bókunum tveimur.] En þá fanst mér taka í hnúkana þegar hann tókst á hendur að þýða þá bók eftir Hemingway sem kölluð hefur verið Hverjum klukkan glymur, og fjallar um ævintýri sem ameriskur sjálfboðaliði i spænsku borgarastyrjöldinni kemst í. Ég hafði feingist við Vopnin kvödd, og hún var nógu djöfulleg; en þegar ég las Whom the Bell Tolls var ég sannfærður um að það væri óðs manns æði að ætla sér að flytja þessa bók yfir á íslensku; ekki vinnandi vegur, formlegur ógerníngur. Stíll bókarinnar, hugsunarháttur og andblær hrærist í einhverju óguðlegu samblandi sem höfundinum hefur tekist að búa sér til úr spænskri ensku, og aldrei hefur verið til hvorki fyr né síðar. Að gera eftirlíkingu úr spænskuskotinni ensku á íslensku virðist vera margföld sjálfmótsögn. En Stefán er karlmenni. Hann var reyndar ekki sá eini sem hætti sér I þennan voða, — ég vissi um tvo viðurkenda snillinga íslenska sem reyndu sig á þessu, já meira að segja þýddu þennan digra doðrant spjaldanna á milli á íslensku, og kanski hafa fleiri reynt en ég veit um. En Stefán var sá sem leysti gordíonshnútinn. Ég er ekki að segja að honum hafi tekist það sem er ómögulegt í sjálfu sér, en honum tókst það að svo miklu leyti sem hægt var að vinna slíkt verk. Ég hefði tæplega viljað vinna mér það til lífs, og ég margreyndi að draga úr honum kjarkinn. En hann hafði það af og skilaði einstöku og mjög svo virðíngarverðu verki í íslenskum þýðíngarbókmentum.“

Halldór dregur reyndar aðeins úr mærðinni með því að fullyrða ekki að þýðingin hafi tekist, en segir svo að verkið sé „virðíngarvert“. Þetta er eiginlega það sem menningarelítan komst næst því að segja að þýðingin hafi verið rusl. Tökum önnur dæmi:

„Látum okkur hvíla okkur.“
„Mér líka þau.“
„Mér líka barrskógar líka.“

Þetta minnir mig á það þegar Snæbjörn, frændi minn, var einhverntíma lagður á spítala og kona af erlendu bergi brotin færði honum brauð með osti og spurði varfærnislega: „Líkar þér ást?“

Höldum áfram að heyra lofgerðarrullu menningarvitanna. Næstur vitnar Sveinn Skorri Höskuldsson:

„Hér hefur Stefán unnið verk, er lengi mun standa. Ég minni aðeins á þrjú stórvirki hans: Þrúgur reiðinnar eftir John Steinbeck, Hverjum klukkan glymur (af útgefanda nefnd Klukkan kallar) eftir Ernest Hemingway og Umrenningar eftir Knut Hamsun. Allt eru þetta þýðingar, sem að mínu viti eru í röð bestu þýðinga á íslensku. Þar hafa íslenskir lesendur eignast dýrgripi á eigin máli með stíl og tungutaki við hæfi efnisins.“

Rifjum upp nokkra dýrgripi:

„Eftir sex mánuði verður [hárið] orðið langt aftur.“ [Þá verður María orðin langhærð.]
„Látum okkur borða. Ég hef talað mikið.“
„Pappír blæðir lítið“, segir máltækið.
„Og nú fyrir Guðs skuld, látum okkur borða.“

Hjörtur Pálsson skrifaði: „Stefán Bjarman hefur frá því að Þrúgur reiðinnar komu út á íslensku verið viðurkenndur einn fremsti þýðandi landsins, og margir telja nafn hans tryggingu fyrir vel valinni bók og vönduðum vinnubrögðum. Við þýðingarnar hefur notið sín orðauðgi hans, smekkvísi, næmt stílskyn og meðfædd frásagnargáfa.“

Hér kemur smekkvísi þýðandans glöggt fram:

„Þar til fljótt“ (Kveðja)
„Lausgangandi og viðhafandi tilhlýðilega varúð …“
„Þannig ertu kallaður.“

Einar Kristjánsson sagði:

„Mín fyrstu kynni af Stefáni Bjarman voru lestur á þýðingu hans á Þrúgum reiðinnar, eftir Steinbeck. Það var heillandi lesning, og engum gat dulist að þarna var ekki unnið af neinni meðalmennsku. Síðan las ég þýðingu hans á Hverjum klukkan glymur, eftir Hemingway. Báðar þessar þýðingar hlutu almennt og verðskuldað lof, enda mátti ljóst vera að það var ekki á færi annarra en snillinga að koma ritfærni og hugmyndaauðgi þessara öndvegishöfunda í íslenskan búning.“

Hér sést stílbragð snillingsins:

„Þeir gerðu, í þakkarskyni, tvöfalda hneigingu með hendinni …“
„Þetta. Þetta er illskapurinn.“
„Nei, það gerði ekki,“ sagði hermaðurinn sem matseldaði.
„Ég er útgerður maður í kvöld.“

Síðastur talar sjálfur erkipáfinn, Sigfús Daðason:

„Hiklaust má telja Stefán einn ágætasta bókmenntaþýðanda vor Íslendinga á þessari öld, en þýðing hans á bók Hemingways er afreksverk, því það eru litlar ýkjur að segja að sú bók sé óþýðanleg.“

Kannski er hægt að tala um þýðingu á 425 bls. bók sem afreksverk, en mér sýnist afurðin benda til þess að bókin sé í raun óþýðanleg. Að minnsta kosti tókst Stefáni Bjarman það ekki skammlaust.

One comment

  1. Þessi pistill er góður hjá þér Benedikt. Ég veit eiginlega ekki hvað ég á að segja, ég er svo hissa. Ég las fyrir margt löngu þessar bækur, utan Umrenninginn og hugleiddi ekki sérstaklega þá málfarið eða þýðingar þeirra. Það myndi ég hins vegar gera nú. Með aukinni þekkingu og þroska verðum við gagnrýnni. En mín tilfinning er að á síðustu öld hafi menningarelítan verið mjög einsleit og vinargreiðarnir margir, Það hefur líklega dugað að einn áhrifaríkur menningarpostuli gæfi góða umsögn og enginn haft haft kjark til að gagnrýna. Það skipti líklega miklu máli að vera innan klíkunnar. Það myndi aldrei geta gerst á þessari öld, enda fólk almennt betur menntað og sjálfsöruggari. Nefni að gamni að það er ekki lengra síðan fyrstu bækur Ólafs Jóhanns komu út og fengu skelfilega útreið. Ég var meðal þeirra sem skrifaði gagnrýni um eina af hans fyrstu bókum, en þá gáfu menn stjörnur og það allra versta var hauskúpa. Mér þótti bókin góð og gaf henni góða umsögn. Ég varð mjög efins um sjálfa mig þegar ég las dóma hinna og varð óörugg. Ég var óreynd og eins og mér er tamt, skrifaði ég nákvæmlega það sem mér fannst. Ég stend við dóm minn enn. Ólafur Jóhann, var ekki vinstri klíkunni þóknanlegur þá og því voru dómar um bók hans í raun ekki marktækir. Þess vegna get ég ekki annað en brosað þegar það sama fólk, hampar bókum hans nú. En lesendur tóku bókum Ólafs fagnandi og því hafði fámenn klíka ekki sömu áhrif og fyrir áttatíu árum. Ég held að það sem ég nefni sé skýringin á því sem þú nefnir um þýðingar Stefáns.

    Líkar við

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.